Vill svo til að ég vinn með nokkrum miðaldra karlmönnum. Þetta eru upp til hópa ágætisgrey, sumir ágætari en aðrir en þeir eiga eitt sameiginlegt. Þeir kvarta. Kvarta yfir því hvað það sé nú erfitt að vera karlmaður. Kvarta yfir því að þeir skuli þurfa að elda, þrífa klósett og ég tala nú ekki um strauja. Þeir kvarta yfir því að þeir séu varla karlmenn lengur, séu að verða að kellingum. Einn viðurkenndi m.a.s. feimnislega um daginn að hann hefði haft skoðanir á gardínum og þá erum við nú að tala um næstabævið geldingu (í þeirra augum). Þetta er vont mál. Arfavont. Enda dæsa þeir daprir í bragði og hengja haus og við það mæta augu þeirra velmegunarístrunni. Andvarpa þeir þá enn sárar og segjast jafnvel orðnir náttúrulausir. Mér rennur til rifja þetta ástand minna góðu vina og félaga. Hvað getur maður gert? Er til stuðningshópur fyrir karlmenn sem eru ráfandi og týndir í kynjahlutverkinu? Æ, annars, stuðningshópar eru örugglega kellingaleg hugmynd. Er hægt að senda þessa karla í karlmennskubúðir (og þá er ég ekki að tala um búðir eins og í Kringlunni, guðhjálpimér). Ég vildi að ég gæti veitt samstarfsfélögum mínum lið en hef engin ráð. Það sem verra er, mér skilst á þeim að þetta sé allt konum að kenna, heimtufrekjunni í okkur. Ykkur að segja er óþægilegt að hafa á samviskunni að hafa rústað þessum fyrrum spræka stofni - íslenskum karlmönnum. Illt ef satt reynist.
Karlarnir breima og bágindi sýna
bugaðir menn.
Eru þeir búnir tólinu´ að týna
eða tollir það enn?
Sjálf hef ég aldrei velkst í vafa um kynhlutverk mitt. Frá því ég man eftir mér hefur mér þótt gott að vera kvenkyns. Það er bara nákvæmlega það sem ég vil vera. Kona. Man reyndar eftir örstuttu tímabili í bernsku þar sem ég pældi svolítið í því hvernig það væri að vera strákur, en þá var ég 5-6 ára gömul. Mér þótti rosalega flott hvernig strákar pissuðu, hvernig þeir stóðu við postulínið og bunan sprautaðist út um allt. Þetta var eftirsóknarvert að mínu mati. Þetta vildi ég prófa. Fór því einn daginn í nátttreyjuna mína þannig að ég tróð fæti í aðra ermina, stóð ofaná klósettinu og bjó til tippi úr hinni erminni. Svo sprændi ég. Bunan sprautaðist ekki mikilfenglega út úr erminni (eins og til stóð), heldur lak bara í blárósótt flúnelið og allt varð rennandi blautt. Svoleiðis fór það nú. Málið afgreitt. Been there, done that. Betra að vera stelpa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli