athyglisverðu ferðalagi í gær. Fór í strætó með hjólið í vinnuna og ætlaði síðan að hjóla heim. Var búin að fá ÍTARLEGAR leiðbeiningar um leiðina heim eftir hjólastígum meðfram strandlengjunni. Var leiðbeint af tveimur vinnufélögum sem sögðu að það væri nú ekkert mál að hjóla þetta og enn minna mál að rata. Það að annað þeirra gekk á Kilimansjaró í fyrra (ekkert mál) og hitt þrammaði fyrir stuttu yfir Vatnajökul í brjáluðu veðri með Haraldi pólfara (ekkert mál) hefði nú átt að vera ákveðin vísbending. Svo má ekki gleyma því að ég er þannig af guði gjörð að leiðbeiningar rugla mig í höfðinu og þar að auki rata ég varla um húsið mitt. Enda endaði ég fljótlega í skurði og síðan úti í móa með hinum fuglunum og þurfti að hálf bera hjólið mitt yfir holt og hæðir þar til ég rakst á kraftalegan gröfubílstjóra sem benti mér á moldarslóða sem ég gæti farið þar til að stíg kæmi. Maðurinn gerði sitt besta til að fela glottið en sú tilraun mistókst. Ég skæklaðist áfram grófan moldarslóðann og fann loks vænlegan stíg. Villtist fjórum sinnum enn og þá verst inni í Rimahverfi en þar spurði ég góðlega konu til vegar. Hún var á ferð með barnavagn og mjósleginn hund í bandi (eða rottu, er ekki viss). Þegar ég síðan hjólaði framhjá Sorpu og Ingvari Helgasyni þurfti ég að beita sjálfa mig hugrænni atferlismeðferð til að koma í veg fyrir að ég hlypi inn og keypti mér bíl til að komast heim.
Ferðin tók klukkutíma og 40 mínútur - þetta eru líka, segi og skrifa, 25 km. Og jamm og já.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli