föstudagur, júlí 08, 2005

Gleymi aldrei...

svipnum á dóttur minni þegar hún opnaði ísskápinn með leikrænum tilþrifum og sýndi okkur inn í hann. Forsaga málsins er sú að hún var skilin ein eftir á heimilinu í níu daga. Alein, með enga matarpeninga. Og stúlkan ekki nema rétt rúmlega tvítug (já, ég veit, við erum vondir foreldrar). En sumsé, þegar við komum heim, þá dró hún okkkur að ísskápnum.

Í ísskápnum voru níu dollur af 10% sýrðum rjóma sem hún hafði raðað upp í best-fyrir-fyrir-löngu-röð (þær sem voru mest útrunnar lengst til vinstri og svo framvegis). Fyrir utan sýrða rjómann var ekkert ætilegt á stangli, jú, smá sulta og hálfnagað harðfiskroð. Var þetta ásökun í svipnum á dóttur minni? Jú, ég er ekki frá því. Hún var skilin eftir ALEIN með níu dollum af sýrðum rjóma. Í níu daga.

Pétur var fljótur að koma sökinni yfir á mig og sagðist aldrei kaupa 10% sýrðan rjóma, bara 18%. Týpískt. Innkaupafíaskóið dæmist því sjálfkrafa á mig (kemur það aldrei fyrir ykkur að grípa sömu vöru trekk í trekk, hugsunarlaust)? Og nú, sem ég skrifa þetta, er ég að baka brauð (með ríflegum skammti af útrunnum sýrðum rjóma). Nammi namm.

Engin ummæli: