laugardagur, desember 29, 2007
Bloggvettlingi valdið
Hér gefur að líta blogghanska, eða bloggvettlinga eins og þeir eru stundum kallaðir í Trékyllisvík. Fyrir utan augljósa fegurð eru bloggvettlingar þarfaþing. Nú hlæ ég við hverjum hríðarbyl, get bloggað í hvaða veðri sem er. Magnað!
Jólin eru búin að vera yndisleg. Lukkan hossar mér. Mig langar að vera væmin en held aftur af mér af því að ég er svo lúthersk.
miðvikudagur, desember 26, 2007
Tíminn er dýr-mætur
Jólin eru best. Sérstaklega jólagjafirnar. Ég fékk m.a. bækur, blogghanska, eldhúsamboð, te, tvö flott úr, Ninu Simone dvd disk (afar eigulegan), viskustykki, jólatré úr kóktöppum, hnotubrjót, karöflu, myndavélartösku, Múgíbúgí og þénuga eldhúsklukku sem er með mynd af dýrum í stað tölustafa. Í klukkunni heyrist viðeigandi dýrahljóð á heila tímanum. Klukkan tólf er svín, klukkan sex er hani, klukkan þrjú er belja, klukkan tvö er kalkúnn. Þannig getur klukkuna vantað þrjár mínútur í hest, eða verið 22 mínútur gengin í kött. Tíminn er hvort sem er kjánaleg uppfinning og ekkert síðra að henda reiður á honum í skepnum.
Mér finnst mjög gott að vera til. Megi jólasæla umvefja ykkur í tíma og rúmi.
laugardagur, desember 22, 2007
Upp náðar rennur sól
fimmtudagur, desember 20, 2007
Iðna baunin
- Farið í Húsasmiðjuna, Kringluna, Ikea og í búðir við Laugaveginn.
- Klúðrað osso bucco matreiðslu svo fruntalega að ég varð að kaupa tilbúinn mat handa gestinum mínum.
- Ruðst í biðröð framfyrir hrikalega frægan bloggara. Óvart.
- Verið föðmuð. Mikið.
- Komist að því að ég er ostasafnari, ísskápurinn minn er fullur af osti, m.a. geitaosti.
- Hugleitt hvort hinir nýmóðins takkalausu frímerkjalímmiðar geti nokkurn tímann orðið tilefni þessarar spurningar: "Viltu koma upp og skoða frímerkjasafnið mitt?" Eru þetta frímerki?
- Kysst húðflúr.
- Orðið svo rækilega hissa að ég stamaði.
þriðjudagur, desember 18, 2007
Tilreiðir sér eilífðar gleði depurðar samastað syninum hjá
Ég veit, ég veit. Maður þarf ekki að skilja allt og ef allt væri skiljanlegt væri lítið fútt í því.
sunnudagur, desember 16, 2007
Íslenska geitin....heitin?
Væri ekki leiðinlegt ef íslenski geitastofninn dæi út?
Annars er ég svolítið hlaðstiklandi þegar kemur að landbúnaði, mér þykja niðurgreiðslur ærnar í þeim geira, en er samt svo skelfilega íhaldssöm að mér finnst að við eigum að halda í íslenska hundinn, hænuna, geitina, kúna, hestinn og jafnvel íslenska bóndann.
Við Pétur og börnin bjuggum til laufabrauð í dag, auðvitað alveg frá grunni. Fengum 37 kökur (plús slatta af skönkum) úr 700 g af hveiti, sem telst þokkalegt bara. Kaupum aldrei tilbúið deig eða kökur, laufabrauð skal gert af natni, gleði og þolinmæði. Maður maular ekki búðarbrauð á jólunum (ok, þetta var doldið drýgindaleg staðhæfing).
Lifið heil og blómstrið.
laugardagur, desember 15, 2007
Nokkrar misathyglisverðar staðreyndir
- Mig dreymir iðulega um þessar mundir að ég hágráti og stundum lem ég fólk.
- Dóttir mín blés Brahms í klarinettið eins og básúnuengill á tónleikum í gærkvöld. Tónleikarnir voru í Sigurjónssafni og utan dagskrár spiluðu haglél og vindur ómstríða fúgu. Hélt að húsið mundi fjúka á haf út og hefði það verið mikill skaði (svona rétt fyrir jólin).
- Drakk Tuborg jólabjór í fínu boði í gær og varð pöddufull.
- Ég vaknaði kl. 5 í morgun með hrikalega tannpínu. Blessaður sé sá sem fann upp verkjalyfin.
- Smakkaði piparkökur með chili, ferskum engifer og súkkkulaði og þær eru...unaðslegar. Hugi er ekki bara rauðhærður nörd, hann er líka da Vinci deigsins.
- Skil ekkert í ykkur að hanga á netinu. Farið að jólast!
fimmtudagur, desember 13, 2007
Kanans land
Lagði einu sinni ólöglega í Bloomington. Hvernig móttökur ætli ég fengi, ef mig fýsti westur um haf? Ekki beint hægt að halda því fram að Bandaríkjamenn taki hlýlega á móti stórglæpamönnum.
Aftur er veðurspáin ógurleg. Bý mig undir svefnlausa nótt.
þriðjudagur, desember 11, 2007
Heilt yfir biturð
Er annars í súru skapi. Svaf illa í nótt, veðrið lamdi húsið mitt af fáheyrðri vonsku. Svo sat ég í stofunni áðan og innlit/útlit rúllaði á skjánum án þess ég væri beint að horfa, en þessi þáttur nær að fara óskaplega í taugarnar á mér. Örugglega öfundsjúk út í allt þetta fallega fólk sem virðist eiga skítnóg af peningum og eyðir þeim svona glimrandi smekklega.
Djöfull er ég bitur í dag.
mánudagur, desember 10, 2007
Forskalað piparhús með osthúð
Reyndi einu sinni að baka piparkökuhús, stakk út veggi og þak eftir auganu og bakaði. Þegar húshlutarnir komu úr ofninum voru þeir svo misstórir og skakkir að húsið leit út fyrir að vera viljandi ljótt. Nei, ok, það leit út eins og þokkalega hlaðin áramótabrenna. Hefði nú ekki verið ónýtt að geta smurt þykku lagi af gráðosti á það hrófatildur.
Börnin mín rifja upp misheppnaða kökuhúsið um hver jól og hlæja dátt að því hvað mamma var léleg í húsagerðinni. Af þessum piparkökukofaræfli hefur því spunnist meiri gleði og kátína en af nokkrum öðrum bakstri sem ég hef staðið fyrir. Svei mér þá.
sunnudagur, desember 09, 2007
föstudagur, desember 07, 2007
Bleikar eru þarfir þínar kjelling
Hvað er ekki framleitt í bleiku? Ísaxir? Loftpressur? Fjarstýringar? Pungbindi?
fimmtudagur, desember 06, 2007
Bítur bók fés visku sama
Ég er með samviskubit yfir öllum blöðunum sem ég les ekki. Er með samviskubit yfir öllum matnum sem ég hendi, öllum vinum og ættingjum sem ég sinni ekki nógu vel. Er með samviskubit yfir því að hafa ekki sett upp jólaljósin, er með samviskubit yfir því að vera ekki byrjuð að kaupa jólagjafir, er með samviskubit yfir börnunum í Bíafra, er með samviskubit yfir þvottinum sem á eftir að brjóta saman, er með samviskubit yfir öllum fundunum sem ég missi af í skóla barna minna, er með samviskubit yfir hvað ég er fáfróð um Íslendingasögurnar, landafræði og sögu, er með samviskubit yfir fátækt í heiminum og getuleysi mínu til að mótmæla bullinu og ruglinu sem umvefur okkur. Í nánd og firð.
Legg ekki meira á ykkur.
miðvikudagur, desember 05, 2007
Hinir góðu, slæmu, ljótu og vængjuðu
Svo á ég líka þessa. Frá henni ömmu minni.
Skyldu englar vera kyngreindir? Þessi er brjóstalaus í bleikum galla. Held að englar lifi öngvu kynlífi, enda óþarfa baggi að burðast með kyn þegar maður situr á skýi og spilar á hörpu.
mánudagur, desember 03, 2007
Tíminn í flösku
Sú var tíð að ég hlustaði töluvert á nefstóran söngvara sem hét Jim Croce.
Sú var tíð að ég horfði á Prúðuleikarana og hló dátt. Fann iðulega fyrir andlegum skyldleika við Kermit (það er ekki auðvelt að vera grænn), þótt einn og einn úr vinahópnum benti nú á að brussa eins og ég líktist meira Miss Piggy en froskinum dagfarsprúða.
Viljum við geyma tímann í flösku? Þurfum við meiri tíma? Í desember tala allir um tímaskort, en aðventan er um það bil jafnlöng nú og hún hefur alltaf verið. Breytum því tæplega.
laugardagur, desember 01, 2007
Útsprungnar rósir og haus, tjillísúkkulaði og hlaup
En...þegar heim kom hafði hausinn á mér breyst í of lítið og þéttbýlt svæði, augun þrýstust út úr tóttunum og slím spýttist í allar áttir. Þessu fylgdi mikill sársauki, m.a. svæsin tannpína.
Hvaða ályktanir má af þessu draga?
- Skokk er óhollt.
- Skokk í frosti er óhollt.
- Hreyfing minnkar á manni hausinn.
- Vanillusíróp í skóm fer upp í iljarnar og leysist upp í blóðinu. Það veldur bólgum í höfði, klístruðu latmæli og hækkandi olíuverði.
- Skokk veldur tannskemmdum.
Átján barna baun í rafheimum kallar kútinn
Mínar reglur í blogglestri og tenglamálum eru tilviljanakenndar, svo ekki sé meira sagt. Letibloggarar eru inni í "leshringnum" ef ég hef sentimental rísons of mæ ón til að halda þeim. Nafnleysingar eru allt of margir í bloggheimum, hef þá inni ef mér líkar það sem þeir skrifa, en er almennt á móti anóním skrifum. Hendi út fólki sem læsir síðunni sinni, sé ekki tilgang með því að tengja á það. Sumir fara út í gjörningablogg, bara smart. Svo er ein af mínum uppáhaldssíðum alltaf í skralli þessa dagana, vil leggja fram sára kvörtun yfir því. Hugi?
Spurning hvort ég ætti ekki að jólast eitthvað, er ein að potast í kotinu, strákarnir farnir til pabba síns og barnlaus vika framundan. Ætti aldeilis að hafa tíma til að skúra og skrúbba og skreyta um helgina. *Geisp* - fyrst fæ ég mér kaffi og kíki í bók.
Biturð mín þessa dagana nægir ekki til að fylla fingurbjörg.
föstudagur, nóvember 30, 2007
Hinir handleggjalengstu ná lengst
Lýsi eftir heilbrigðri skynsemi í hönnun húsnæðis á Íslandi.
Auk þess legg ég til að hönnuðir og arkitektar verði skyldaðir til að skíta á hverju því klósetti sem þeir hanna fyrir okkur meðal-liðuga fólkið.
þriðjudagur, nóvember 27, 2007
Kjöltur
Vinnufélagi minn, hann Dóri, á súkkulaðibrúna labradortík sem gaut 12 hvolpum á föstudaginn, 10 lifðu. Hann hefur ekki látið sjá sig í vinnunni síðan og er ekki væntanlegur í bráð, enda hefur hann kappnóg að gera heima við að sinna tíkinni Sölku og litlu súkkulaðimolunum. Okkur samstarfsfólkinu þykir eðlilegt að Dóri fái hvolpaorlof, spurning hvað gæti talist eðlileg orlofslengd þegar tugur afkvæma bætist á einu bretti við það sem fyrir er. Og hvað eru eiginlega margir spenar á einni tík?
Mér skilst að í Danmörku fái menn sérstakar bætur ef þeir eiga hund. Skýrir kannski af hverju ég sá svona marga lausa hunda í Christianiu um daginn.
Segi ekki meira bofs í bili.
sunnudagur, nóvember 25, 2007
Sumir á sumir á sumir á....rauðum skóm
Fannst líka töff að heyra hana taka Leoncie lag, vona bara að Ragnheiður lendi ekki í einhverjum koppíræt leiðindum af þeim sökum. Ragnheiður er svo flink söngkona að lagið Ást á pöbbnum varð bara....næstum gott. Textinn klassík og væri auðvitað rakinn þjóðsöngur Kópavogs.
Hún hitti hann á pöbb eitt kvöld
á country pub í Reykjavík
hún starði á hann mjög ákveðin
hann glápti á móti dauðadrukkinn
hún kinkaði kolli og blikkaði hann
hann var dáleiddur af allan vodkann
hann fór til hennar og sagði
hvar hann var frá.
Hún sagði "veistu hvað?"
við höfum sameiginlegt
því við komum bæði frá Kópavogi.
Ást á pöbbnum,
þau féllust í ást á pöbbnum.
Nú grætur hann -
hann átti að kynnast henni fyrst
hún eyðir öllu hans fé.
Hann sparar ekki neitt.
Hann vildi kaupa hús
en hann á varla fyrir ölkrús.....
Auk þess langar mig í rauða skó. Langar alltaf í rauða skó. Hvað er þetta með rauða skó eiginlega?
laugardagur, nóvember 24, 2007
Tíminn og baunin
Matti minn er að læra á bíl. Það fyllir mig bæði kvíða og stolti, svo einkennilegur þessi sæti tregi sem fylgir því að sjá börnin vaxa úr grasi. Ég á eitt barn í háskóla, eitt í menntaskóla og eitt í grunnskóla. Tíminn er blekking. Börn eru raunveruleg. Maður blikkar auga og barnið er farið að ganga...í háskóla.
Einu sinni heyrði ég að sumir þjóðflokkar líti á liðna tíð, fortíðina, svipað og land sem liggur fyrir framan þá, því þeir sjá fortíðina, þekkja hana. Framtíðin er það sem þeir sjá ekki og er því fyrir aftan þá. Við Vesturlandabúar tölum um liðna tíð að baki, eitthvað sem er fyrir aftan okkur. Fyrir framan okkur er fram-tíðin og við göngum í átt til hennar, lítum dálítið á tímann eins og veg sem við göngum eftir. Framtíðin er okkur auðvitað hulin, en þangað þrömmum við. Þekkjum fortíðina en hún er að baki. Best ættum við að þekkja núið.
Nú er ég að verða svo syfjuð. Ætla að henda inn þremur tilvitnunum. Það lá að, einhver pælt í tímanum á undan mér. Hei, ef hann var á undan mér ætti hann þá ekki að vera fyrir framan mig? Hmmm....þá passar vegalíkingin ekki, fortíðin er að baki ekki fyrir framan. Æ, já. *geisp*
God made the world round so we would never be able to see too far down the road. Isak Dinesen.
I look to the future because that´s where I am going to spend the rest of my life. George Burns.
Time flies like an arrow. Fruit flies like a banana. Groucho Marx.
fimmtudagur, nóvember 22, 2007
Bókmenntaþáttur baunar
Að öðrum litteratúr. Þetta "viðvörunarbréf" fer nú um netið sem eldur í sinu. Í því stendur:
Undir þetta skrifar "Guðmundur Rúnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður". Hvað er eiginlega á ferli þarna? Nýr jólasveinn, Dóprúlluskelmir? Eiga nú allir að bera á sér eigin klósettrúllur í jólaösinni?
Ef þetta varðaði almannahagsmuni, svona í alvörunni, þyrfti þá ekki að upplýsa almenning með formlegri hætti en tilviljanakenndum netpósti? Sjálf tek ég ekkert mark á svona sendingum, set þær í sama pott og keðjubréf og vafasöm tilboð, delít delít delít.
Þakka þeim sem hlýddu.
miðvikudagur, nóvember 21, 2007
Av persónligum grundum
Drattaðist annars nýlent á nemendatónleika þar sem Matti minn tróð upp með miklum ágætum. Eitt fannst mér skondið í dagskránni, það var Hava Nagila, sem er hið margslungna og margsungna lag æskunnar Havannakýla, steikjandi fýla. Prýðilegt að heyra það spilað fjórhent á píanó.
Meira af tónlist. Í Köben fór ég á stórkostlega tónleika með Eivör og færeyskum strákgutta sem er ekkert að biðjast afsökunar á sjálfum sér, enda ástæðulaust. Hann heitir Budam.
Hér má lesa um þessa tónleika, finnst færeyska skemmtilegasta mál í heimi:
mánudagur, nóvember 19, 2007
Bauna(r)land
Örfáar niðurstöður rannsókna minna:
- Í Kaupmannahöfn eru Íslendingar við hvert fótmál. Örugglega þjóðsaga að við séum bara 300 þúsund.
- Látlaust ríkidæmi, smekkleg hönnun og djúpur skilningur á holdlegum þörfum mannsins finnast mér áberandi einkenni á danskri þjóð. Þeir gera ráð fyrir því að fólk þurfi að hvíla sig, borða og drekka, stunda kynlíf og losa sig við úrgang. Ekki þó endilega samtímis.
- Jólabruggið frá Tuborg er gott.
- Danskur matur er óviðjafnanlegur, ef þetta er "danski kúrinn" þá bara setjið mig á hann enítæm.
- Heitar ristaðar möndlur eru guðdómlegar.
- Að upplifa borg með staðkunnugum er allt annað og skemmtilegra en að ráfa um, villast, ganga sig upp að hnjám og lenda hvað eftir annað í ógöngum. Það finnst mér að minnsta kosti, þótt ráðvillan geti reyndar haft sinn sjarma, svona ef maður lifir hana af.
fimmtudagur, nóvember 15, 2007
Sjarmi þótt hann jarmi
Það situr maður á móti mér með opna Sudoku bók, hann horfir stíft á eina síðuna en hefur ekki skrifað staf í hálftíma. Mér sýnast áhyggjuhrukkur mannsins nálgast hættumörk. Finnst ákveðið öryggi í því að hafa lært endurlífgun, svo ég geti brugðist rétt við ef þetta talnasprell með japanska nafnið veldur manninum hastarlegu heilsutjóni.
Svo langar mig, í fullkomnu tilgangsleysi, að greina frá því að í gær tók ég í fóstur lítinn bangsa með málhömlun. Hann heitir Ágætur. Mig grunar að Ágætur hafi alist upp hjá kindum, því hann segir "meeeee". Mér þykir afar vænt um greyið og dreg bangsa ekki í dilka þótt þeir jarmi.
Er annars á leið til Kaupmannahafnar að hitta kaupmanninn. Kaupmaðurinn er fagureygð gersemi með gott hjartalag. Ef ég hitti Margréti Þórhildi í forbífarten ætla ég að segja henni að hætta að reykja.
Yfir og út.
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
Fólk er flest....í Kína
Já, það var ég. Bjáni gat ég verið. Er hætt´essu. Ekki að borða kornflex, heldur að tauta karlmönnum. Þeir eru bara eins og aðrir, fæstir eins og fólk er flest.
Maður skyldi aldrei alhæfa. Hef t.d. heyrt því fleygt að ekki séu allir Norðmenn leiðinleg heilsufrík, ekki séu allir Svisslendingar stundvísir, ekki séu allir Þjóðverjar nískir, ekki sé allt feitt fólk glaðsinna...
Magnað. Heyrði um daginn að allir Pólverjar bökkuðu í stæði. Alltaf. Til að vera viðbúnir ef skjótrar undankomu yrði þörf. "Og þetta fólk er svo duglegt og vinnusamt."
Alhæfingar. Gagnslaus fyrirbæri. Sennilega er þetta prógramm sett í hausinn á okkur til að sortera og "skilja" heiminn betur. Við ráðum ekki við frjálsa radikala.
Viðrum fordómana og leyfum öðrum að njóta þeirra. Annars kemur fúkkalykt og enginn vill tala við okkur.
mánudagur, nóvember 12, 2007
Bónusvínið
Sjáið fyrir ykkur tvær hillur hjá gosinu. Í annarri er röð af hvítvínsflöskum, í hinni röð af rauðvínsflöskum. Á flestum flöskunum er gulur miði með bleikum grís. Bónus-vínið. Bónus-svínið.
Sjáið fyrir ykkur (pólska) afgreiðslufólkið reyna að svara spurningum okkar - Euroshopper rauðvín eða Bónusvín með lambinu?
Guði sé lof fyrir Sjálfstæðisflokkinn og frelsið.
sunnudagur, nóvember 11, 2007
Hvað er svona merkilegt við það...að kýla prinsessur
Í gærkvöld þá opnaðist mér sýn inn í Nintendoland. Ég spilaði tölvuleik við son minn. Í leiknum var ég bleikur kúlukall, sem mér skilst að heiti Kirby. Ég kýldi prinsessur, barði risaeðlur með hamri, sprengdi ítalska pípulagningamenn og gleypti furðuskepnur. Breyttist stundum í stálkall og dó margoft. Þurfti að læra á marga takka, en þetta var já, fjandinn hafi það, bara skemmtilegt.
Mín tilfinning er sú að karlmenn séu almennt jákvæðari í garð tölvuleikja en konur. Frá því fyrsti stýripinninn leit dagsins ljós hafa fingur karlmannsins leitað snertingar við hann. Stýripinninn er karlmennskan plasti klædd.
föstudagur, nóvember 09, 2007
Þetta er ekki lesning fyrir viðkvæma
Lánaði nágrönnunum pönnukökupönnuna mína og hnífinn, en þeir hlutir hafa þjónað mér af dyggð og trúmennsku í ríflega tvo áratugi.
Svo reið áfallið yfir, tsúnamí tilfinninganna. Nágrannarnir ÞRIFU pönnuna, svo vel reyndar að hún er gagnslaus. Hefði frekar viljað fá það óþvegið.
Þegar ég var ungur sálfræðinemi reykti ég pípu. Gerði það upp á stílinn, stíll er mikilvægur. Baslaði lengi við að tilreykja pípuna, fá góða skafla í hana á réttum stöðum. Gafst svo upp á þessu dútli, því mér fannst aldrei gott að reykja. En handavinnan við pípuna gaf mér ágæta skemmtan. Og formennsku í félagi sálfræðinema, því ég þótti svo spekingsleg með hana. Þetta var útúrdúr.
Á pönnunni minni (blessuð sé minning hennar) hafði ég bakað þúsund milljón pönnukökur. Við erum að tala um pönnu með fortíð. Góða og þénuga, á henni festist aldrei deig.
Möguleikar í stöðunni eru a.m.k. þessir:
- Tilbaka pönnuna næstu tuttugu ár eða svo.
- Gráta meira.
- Kaupa nýja með einhverju teflon drasli.
- Hætta að baka pönnukökur.
- Jarða pönnuna undir fallegu grenitré úti í garði.
- Hefna mín með því að sippa á klossum eftir miðnætti.
- Gera hosur mínar grænar fyrir bakara.
- Læra að lifa með þessu.
- Kaupa ný leðurstígvél.
- Bíta á jaxlinn og bölva í hljóði.
fimmtudagur, nóvember 08, 2007
Hviss bæng, hvíslaði konan að stúlkunni
miðvikudagur, nóvember 07, 2007
Hnerrarnir eru í grænu boxi frá Marksogspenser
Hnerrar eru annars merkileg fyrirbæri. Það er óhollt að bæla hnerra, hausinn á manni getur sprungið.
Svo var mér sagt, af starfsmanni í heilbrigðisgeiranum, að það hvernig fólk hnerrar gefi vísbendingu um hvernig fólk er þegar það fær það. Pælum í því.
mánudagur, nóvember 05, 2007
Á arómatíska svæðinu má sjá fjórar prótónur saman í einum singlett
iKetó-enól ráphverfur
Nýleg rannsóknarvinna á ketó-enól ráphverfum sýndi að þær geta haft afdrifarík áhrif á kaupgleði fólks. Taki fólk lyf sem innihalda ketó-enól ráphverfur, verður það hvatvísara og líklegra til að kaupa meira en ella....
Þarna sjáum við upphaf stórmerkrar greinar um nýtt efni, efni sem stúlkan mín efnilega bjó til. Hún ætlar að bæta heiminn. Með pípettur og klarinett að vopni. Kannski stöku ljóð líka. Ég las þessa grein hennar yfir og reyndi að koma með málfarslegar athugasemdir. Fann glöggt hversu börnin vaxa manni yfir höfuð að visku og lærdómi. Þegar ég horfi á afkvæmin, líður mér stundum eins og stoltri en þó hjárænulegri mömmukartöflu. Mér líður aldrei eins og brúnum banana. Kemur fyrir að ég spjalla við mína innri lárperu, en hún er alltaf mátulega þroskuð.
Prófið að lesa þennan texta upphátt. Ragmana ykkur.
laugardagur, nóvember 03, 2007
Rúna vinkona mín
Stúlkan hægra megin á myndinni, já, þessi skeggjaða með ögrandi augnaráðið, þetta er vinkona mín hún Rúna. Án hennar hefði ég ekki öðlast neinn félagslegan þroska, því hún skipulagði nær alla æsku mína. Ég væri mannafæla og jafnvel þjóðskjalafræðingur ef hennar hefði ekki notið við. Takk Rúna mín og til hamingju með afmælið!
fimmtudagur, nóvember 01, 2007
Yma Sumac - La Molina - Live 1990
Fékk póstsendingu um daginn, það var diskur með þessari óviðjafnanlegu söngkonu. Mig langar að kunna að syngja svona og mig langar í bleikan kjól. Takk fyrir mig R:)
miðvikudagur, október 31, 2007
Ertu kúla í klikkuðum haus?
- Bændur fá síður krabbamein en við hin. Gott, þeir eru víst á agalega lélegu kaupi. PING
- Tunglið var svo stórt og fallegt á sunnudaginn - ég horfði lengi á það og langaði að klappa því. PONG
- Ótrúlega er mikill munur á því hvernig manni líður með fólki. Sumir dilla manni og umvefja góðri orku, aðrir eru gaddaskötur og stinga mann með eiturbroddum. Sumir eru fiskar úr fimmtu vídd og þeir synda bara gegnum mann. DONG
- Skoðaði þessa umdeildu bók um 10 litla negrastráka í gær og verð að segja að mér finnst hún ljót. Á ekki annað orð betra til að lýsa henni. DING
- Frétt á forsíðu 24 stunda í gær. Maður dæmdur fyrir kynmök við reiðhjól. Á hótelherbergi. Í Danmörku. Og lásinn er.... BONG
- Nafnleysi ýtir undir aumingjaskap og bleyðuhátt hjá fólki. Leiðist þegar menn geta ekki gengist við verkum sínum (og þá meina ég skítverkum). KRASS
- Alltaf er ég jafn fegin þegar ég uppgötva að húð er ekki vatnsuppleysanleg. BÆNG
mánudagur, október 29, 2007
Af guðum og geimverum
Fáar aðrar þjóðir ryðjast inn í lönd með hervaldi til bjargar eymingjum sem búa við vonda stjórn (af hverju hafa þeir aldrei komið hingað?). Bandaríkjamenn virðast lifa í þeirri trú að hvergi búi fólk við betra stjórnarfar en í blessuðu Kanans landi. Frjáls þjóð. Frelsi til að hafa hverja þá trú og hverja þá skoðun sem þeim dettur í hug, og segja frá því. M.a.s. fólk sem trúir á geimverur (Vísindakirkjan) er tekið alvarlega. Ef ég upplýsti það hér og nú að ég tryði á geimverur - en ekki guð - tækjuð þig mig alvarlega? Ætla rétt að vona ekki, frekar en ef ég segðist trúa á guð en ekki geimverur.
Talandi um vonda stjórn. Ég hef ekki mörg prinsipp í lífinu en eitt af þeim er þetta: Maður drepur ekki fólk. Ég vil ekki taka þátt í því að deyða aðra manneskju. Þess vegna er ég alfarið og kategórískt á móti dauðarefsingu. Getur verið að Bandaríkjamenn séu að átta sig á 5. boðorðinu*, og það lögfræðingar í þokkabót?
Guð (og geimverurnar) láti gott á vita.
*þú skalt ekki hval deyða
laugardagur, október 27, 2007
Meðvitundarþrengsli
lítið vandamál
framburðargallar steypireyðar
stórt vandamál
oft hef ég séð óljót fjöll
afstandast veður
föstudagur, október 26, 2007
Viðskiptavinurinn, strákbjáninn, kjötdruslan og biskupinn
Kjöt er kjöt er kjöt
Eldri kona stóð við kjötborð í búð og bað um saltkjöt. Eitthvað var úrvalið lítið í borðinu, þannig að afgreiðslumaðurinn brá sér á bakvið til að ná í meira. Hann kom fram með poka og ætlaði að fara að vigta hann, þegar konan spurði hvort hún mætti ekki sjá bitana, sér þætti það nú skemmtilegra. Strákurinn tosaði óhrjálega sina-beina-fitulufsu upp úr pokanum. "Hvaðan er þetta nú af skepnunni?", spurði konan. "Það veit ég ekki, ekki ætla ég að éta þetta."
Biskupinn kemur...
Prestfrú úti á landi var að býsnast yfir því að þurfa að standa í eilífum kaffiveitingum, sérstaklega þegar hún fengi ekki nægan fyrirvara þannig að hún gæti verið tilbúin með bakkelsi. Henni varð á orði: "Já, það er ekkert grín að fá biskupinn á korters fresti!"
Á ég mér framtíð (eða fortíð) sem skrásetjari íslenskrar fyndni?
fimmtudagur, október 25, 2007
Já. Bílgreining.
Um daginn hlustaði ég á samræður sem snerust um bíla, ekki nóg með það, heldur hvernig bílar "færu fólki misjafnlega". Heyrði setningar eins og: "Vitiði, ég er svo fegin að hann Raggi fékk sér Rover, Mitshubishiinn fór honum svo hræðilega illa." Var að spögúlera hvernig bílar "færu" fólki illa, er það liturinn, púströrið, áklæðið, hanskahólfið? "Þessi gírstöng er bara ekki....þú."
Ég veit ekki rassgat um bíla, er jafn bílkynhneigð og meðalfroskur. Og veit sannarlega ekki hvort einhver bíll "fari mér vel". Vona í öllu falli að Hömmer komist þar hvergi á blað.
Það er gott að geta leitað til fagaðila og fengið greiningu. Til þess höfum við Bílgreinasambandið.
þriðjudagur, október 23, 2007
Klukkan er 6
Dyngjugos í Upptyppingum.
mánudagur, október 22, 2007
Úlfurinn í bókabúðinni étur gamlar konur
Unga manninum tókst á endanum að finna út úr þessum innslætti, rétti mömmu vörurnar og sagði við hana, ískalt: Komdu þér svo héðan út og láttu helst ekki sjá þig framar.
Oft er talað um að afgreiðslufólk verði fyrir barðinu á mislyndi viðskiptavina, en þarna var málum þveröfugt farið. Ósköp er leiðinlegt þegar fólk getur ekki sýnt af sér kurteisi, það er bara óþægilegt og vont að verða svona fyrir geðillsku manna. Á sama hátt getur það hreinlega bjargað deginum að finna gott og hlýtt viðmót hjá fólki sem maður á samneyti við. Af einu eða öðru tagi.
föstudagur, október 19, 2007
Gull á tungu
fimmtudagur, október 18, 2007
Viskí af...nei, ég meina fyrir kút
Lestur þessarar greinar minnti mig á sjálfsalann góða...
*Takk Auður vinkona fyrir að taka mynd af þessu menningarfyrirbæri
miðvikudagur, október 17, 2007
Gíraffabros
Hamingja.
Brosi eins og gíraffi og m.a.s. tilhugsunin um að eiga eftir að prófarkarlesa heilt tímarit í kvöld nær ekki að hagga mér.
Gleði.
þriðjudagur, október 16, 2007
Ég drekk úr dal táranna og dansa á þyrnum gula hellustígsins
Sjúklingur1: Ertu hreif Elísabet?
Elísabet: Meinarðu full?
Sjúklingur1: Já.
Sjúklingur2: Nei, henni finnst bara svona gaman í vinnunni.
Elísabet: Í dag er ég edrú, aldrei þessu vant.
Vinnufélagi1: Er hann alki?
Vinnufélagi2: Nei, bíddu, er hann ekki óvirkur alki?
Baun: Nei, nei, hann er virkur óalki.
Svo vil ég deila því með ykkur að ég á glænýjan bleikan samlokusíma. Hann er mjög fallegur en ég kann ekki að slökkva á vekjaranum í honum og byrja því hvern dag á tæknilegum erfiðleikum. Svo sturta. Svo morgunmatur. Svo vinnan. Mörg svo í lífi mínu. Vonandi verður svo lengi enn.
mánudagur, október 15, 2007
Stungan
Mér létti þegar ég sá að hann kemur alveg til með að eiga fyrir salti í grautinn, alla vega næstu mánuðina.
sunnudagur, október 14, 2007
Dansi dansi lóin mín
Tvö ár og enn er baun týnd. Stefnulaus. Eirðarlaus. Enn er baun belja að vori og það er svell í vorinu.
Eru til spark-í-rassinn pillur? Mætti vera í duftformi.
Auk þess legg ég til að Graf(t)arvogi verði pakkað inn í bóluplast.
föstudagur, október 12, 2007
Bjargvætturinn í netinu
fimmtudagur, október 11, 2007
Beðmál í Tjörninni
Hér má lesa hvað býr að baki plottum lýðveldisins.
miðvikudagur, október 10, 2007
Ég er ekki frá því að þetta sé mikilvægt
Þar hitti hún og kyssti hinn andheita Dónald (áður en þau höfðu verið formlega kynnt) en hann blés á áhyggjur dömunnar vegna loftslagsbreytinga og yfirtöku Framsóknarmanna á auðlindum litla landsins hennar.
Dónald, sem reyndist hinn besti kyssari, og svínslega daman lifðu hamingjusömu lífi allt til enda, enda lítið annað að gera úr því sem komið var.
Auk þess benda rannsóknir mínar á erlendri grundu til þess að Lord Nelson hafi verið rislítill karakter. Hafa jafn mörg himinhá turnspírutyppaleg minnismerki verið reist um nokkurn annan mann? Hann á sér hins vegar þær málsbætur kallgreyið að ekki var hægt að fá sér hömmer á þeim tíma sem hann var uppi...
mánudagur, október 08, 2007
Edinborg slær við Eden (í Hveragerði)
Fátt er skemmtilegra en að sitja uppi í rúmi á nærbuxunum, með rauðvín í vatnsglasi og horfa á vinkonurnar máta nýkeypt föt (næstum orðrétt tilvitnun í Regínu). Ó, já.
miðvikudagur, október 03, 2007
Wha daur meddle wi me?
Nú er ég hins vegar á leið til gamla Skotlands. Að heimsækja magnaða konu, hana Regínu. Ætlum nokkrar tjeddlingar að tjútta við Skotana. Vona að þeir verði ekki viðskotaillir og við eins og andskotans aðskotahlutir (þessir fimmaurabrandarar eru í boði baunar, bætið við - ef þið þorið).
mánudagur, október 01, 2007
Greiði lík
Þar var rukkað fyrir dánarvottorði. Reikningurinn stílaður á pabba hans. Sem var dáinn. Samkvæmt dánarvottorðinu.
sunnudagur, september 30, 2007
Ó, þú dýra líf*
föstudagur, september 28, 2007
You Should Be Dancing~Travolta Takes Over The Dance Floor
Mér finnst voða fáir karlmenn í dag tjá sig á þennan hátt. Ég velti fyrir mér ástæðunni. Eru menn feimnir? Eða er fótamennt landsmanna áfátt?
Hér kreistir baun enn eitt kraumandi kýlið.
fimmtudagur, september 27, 2007
Afmæli og mörk sem takandi er á
Í leikfiminni í dag fórum við í fótbolta og ég skoraði tvö glæsileg mörk. Reyndar voru þetta sjálfsmörk - við litlar vinsældir liðsfélaga minna. Hæfileikar mínir hljóta að liggja annars staðar. Oh, well.
þriðjudagur, september 25, 2007
Grænmeti er hollt umræðuefni
En sumsé, innblásin af því hvað grænmeti er hollt (kom fram í þættinum) trítlaði ég til bóndans í sveitinni og birgði mig upp af hollmeti. Takið eftir dökkfjólubláu gulrótunum - nýtt afbrigði, svaka gott. Standa samt varla undir nafni.
mánudagur, september 24, 2007
Ne me quitte pas - Nina Simone
Elska þetta lag. Varð steinhissa og galundrandi þegar ég sá myndirnar sem birtast. Skiljið þið eitthvað í þessu?
laugardagur, september 22, 2007
Bónus, geimverur og löng augnhár
Í biðröðinni í Bónus áðan heyrði ég pling og las sms sem fékk mig til að roðna. In a good way.
Matarboð í kvöld. Hlakka til. Óttast að ég skandalíseri. Ef þið heyrið ekkert frá mér næstu daga, þá hef ég:
- Hringt í Ólaf Ragnar og beðið hann um deit
- Drukkið 3 lítra úr Tjörninni og verið lögð inn
- Gengið í hjónaband við landlausan Pólverja af því að ég vorkenndi honum svo mikið. Og af því að hann var með brún augu og löng augnhár
- Haft ólögmæt þvaglát á almannafæri
- Smsað Dorrit og beðið hana um deit
- Verið numin á brott af geimverum (næsta færsla þá úr alienspot.space).
fimmtudagur, september 20, 2007
Hávær fögn og andfögn
Oft, eftir vinnu, nenni ég ekki út úr húsi. Gæti því aldrei orðið félagsmálatröll, bartender eða innbrotsþjófur.
Fór í badminton áðan og var í þvílíku banastuði að mörg ný (og fögur) fögn urðu til. Öll rækilega hljóðskreytt. Einnig brutust fram allnokkur þokkafull....andfögn...? Hvað kallast það þegar maður kastar sér organdi í gólfið, eftir misheppnaða sendingu? Eða þegar maður rífur bolinn utanaf sér og froðufellir? Eða þegar maður brýtur spaðann á enni andstæðingsins? Andfögn. Segjum það.
Lifið lengi og blómstrið.
þriðjudagur, september 18, 2007
Málið er ekki dautt
Mér finnst þetta til fyrirmyndar og ætla nú að sýna fram á hversu auðvelt er að flétta svona minniháttar orðalagsbreytingar inn í daglegt líf sauðsvarts almúgans.
Innbrotsþjófurinn tók til ganglimanna þegar lögreglan reyndi að hafa griplimi í hári hans.
Jón og Gunna áttu ganglimum fjör að launa.
Tekið var griplimahófskennt úrtak úr þjóðskrá.
Þeir heilsuðust með griplimabandi.
Drífðu þig á ganglimi, letihaugur!
Gamla konan reyndi að bera griplim fyrir höfuð sér.
Seðlabankastjórar ruku upp til griplima og ganglima við fréttir af því að ganglimur gæti verið fyrir því að vaxtahækkanir væru griplimónýtar efnahagsaðgerðir.
Og svo þessi sálmlingur sem skartar málvillu sem nú er hægt að laga (reyndar á kostnað rímsins):
Leiddu minn litla griplim
ljúfi Ésús þér ég sendi...
Beinum öll sjónlimum að þessari staðreynd: Á meðan málið breytist, er það ekki dautt.
mánudagur, september 17, 2007
Varúð, gumpáreiti í grennd
fimmtudagur, september 13, 2007
Brjóttu tungu, brostu blítt...
Hundrað hundar...
Svifflugfélag Íslands...
Fljóð í snjóflóði...
Þríbreið blábrún brúar...
Barbara Ara bar Ara araba bara rabbabara.
Förðun uppveðraðrar morðtrylltrar galdranornar er varla moldviðrisins virði.
Skákvísa
Fallega spillir frillan skollans öllu,
frúin sú sem þú ert nú að snúa.
Heiman laumast hrum með slæmu skrurni,
hrók óklókan krókótt tók úr flóka.
Riddarinn studdur reiddist lyddu hræddri,
réði vaða með ógeð að peði.
Biskupsháskinn blöskraði nískum húska,
í bekkinn gekk sá hvekkinn þekkir ekki.*
Kunnið þið fleiri?
*fann þessa á netinu, höfundar ekki getið.
þriðjudagur, september 11, 2007
Eru bloggarar með fjólubláan heila?
Your Brain is Purple |
Of all the brain types, yours is the most idealistic. You tend to think wild, amazing thoughts. Your dreams and fantasies are intense. Your thoughts are creative, inventive, and without boundaries. You tend to spend a lot of time thinking of fictional people and places - or a very different life for yourself. |
Fann þetta djúpa próf hjá Hörpu J. Hún er líka með fjólubláan heila. Merkilegt. Hvernig væri að frónskir tölvunerðir tækju sig til og byggju til rammíslenskt próf, t.d. hvaða hetja úr Íslendingasögunum ert þú? Hvaða rótarávöxtur ert þú? Hvaða stjórnmálamaður ert þú? Hvaða glímukappi ert þú? Hvaða biskup ert þú? Hvaða þorramatur ert þú?
sunnudagur, september 09, 2007
Eðalnördar
"Strákarnir okkar" lönduðu titlinum þriðja árið í röð - Norðurlandameistarar grunnskólasveita. Til hamingju Ísland!
Strákarnir urðu í 2. sæti á sterku Evrópumóti fyrr í sumar, þetta eru hörkuskákmenn. Nánar má lesa um afrek piltanna hjá Pétri, sem þykist auðvitað eiga eitthvað í þessu öllu saman. Ég er svooooo montin af Matta mínum, enda er hann vönduð manneskja en slíka einkunn fengu ekki margir hjá henni ömmu minni sálugu, og fá ekki heldur hjá henni baun.
Matti er nýorðinn MH-ingur, fetar þar í fótspor systur sinnar. Býst við að hann eigi eftir að tefla eina og eina skák fyrir Hamrahlíðina. Skák er töff og ég er stolt mamma:)
laugardagur, september 08, 2007
Nina Simone - If You Knew
Brauð, ristardraumur og tojtoj
Búin að skokka með vinum mínum í Rammstein. Makalaust hvað þeir toga mig áfram. Hvernig væri að stefna að eiginhandaráritun söngvarans (eða trommarans) á ristina? Væri stíll yfir því.
Svo er gaman að segja frá því að Matta mínum og skáksveit Laugalækjarskóla gengur þrælvel að tefla í Finnlandi, en þeir eru í efsta sæti á Norðurlandamóti grunnskólasveita í skák. Tvær umferðir eftir og ef þeim gengur áfram allt í haginn, verða þeir Norðurlandameistarar þriðja árið í röð. Ekkert í höfn, en toj toj til strákanna í Lavia!