þriðjudagur, september 18, 2007

Málið er ekki dautt

Ég vinn á heilbrigðisstofnun. Les stundum læknaskýrslur. Læknar leitast við að hafa orðalag sitt nákvæmt sem er auðvitað til eftirbreytni. Þeir tala t.d. ekki um hendur og fætur, heldur ganglimi og griplimi.

Mér finnst þetta til fyrirmyndar og ætla nú að sýna fram á hversu auðvelt er að flétta svona minniháttar orðalagsbreytingar inn í daglegt líf sauðsvarts almúgans.

Innbrotsþjófurinn tók til ganglimanna þegar lögreglan reyndi að hafa griplimi í hári hans.

Jón og Gunna áttu ganglimum fjör að launa.

Tekið var griplimahófskennt úrtak úr þjóðskrá.

Þeir heilsuðust með griplimabandi.

Drífðu þig á ganglimi, letihaugur!

Gamla konan reyndi að bera griplim fyrir höfuð sér.

Seðlabankastjórar ruku upp til griplima og ganglima við fréttir af því að ganglimur gæti verið fyrir því að vaxtahækkanir væru griplimónýtar efnahagsaðgerðir.

Og svo þessi sálmlingur sem skartar málvillu sem nú er hægt að laga (reyndar á kostnað rímsins):

Leiddu minn litla griplim
ljúfi Ésús þér ég sendi...

Beinum öll sjónlimum að þessari staðreynd: Á meðan málið breytist, er það ekki dautt.

Engin ummæli: