föstudagur, október 26, 2007

Viðskiptavinurinn, strákbjáninn, kjötdruslan og biskupinn

Heyrði tvær góðar sögur í vinnunni í dag. Athugið að þessar frásagnir eru dagsannar og fjalla um fólk af holdi og blóði. Kjöt kemur líka við sögu og kökur.

Kjöt er kjöt er kjöt
Eldri kona stóð við kjötborð í búð og bað um saltkjöt. Eitthvað var úrvalið lítið í borðinu, þannig að afgreiðslumaðurinn brá sér á bakvið til að ná í meira. Hann kom fram með poka og ætlaði að fara að vigta hann, þegar konan spurði hvort hún mætti ekki sjá bitana, sér þætti það nú skemmtilegra. Strákurinn tosaði óhrjálega sina-beina-fitulufsu upp úr pokanum. "Hvaðan er þetta nú af skepnunni?", spurði konan. "Það veit ég ekki, ekki ætla ég að éta þetta."

Biskupinn kemur...
Prestfrú úti á landi var að býsnast yfir því að þurfa að standa í eilífum kaffiveitingum, sérstaklega þegar hún fengi ekki nægan fyrirvara þannig að hún gæti verið tilbúin með bakkelsi. Henni varð á orði: "Já, það er ekkert grín að fá biskupinn á korters fresti!"

Á ég mér framtíð (eða fortíð) sem skrásetjari íslenskrar fyndni?

Engin ummæli: