föstudagur, nóvember 09, 2007

Þetta er ekki lesning fyrir viðkvæma

Ég ætla að hætta að bæla þessar tilfinningar. Verð að koma óhemju þungu fargi af brjósti mér. Þetta geeeheheheeerðist í vikunni...

Lánaði nágrönnunum pönnukökupönnuna mína og hnífinn, en þeir hlutir hafa þjónað mér af dyggð og trúmennsku í ríflega tvo áratugi.
Svo reið áfallið yfir, tsúnamí tilfinninganna. Nágrannarnir ÞRIFU pönnuna, svo vel reyndar að hún er gagnslaus. Hefði frekar viljað fá það óþvegið.

Þegar ég var ungur sálfræðinemi reykti ég pípu. Gerði það upp á stílinn, stíll er mikilvægur. Baslaði lengi við að tilreykja pípuna, fá góða skafla í hana á réttum stöðum. Gafst svo upp á þessu dútli, því mér fannst aldrei gott að reykja. En handavinnan við pípuna gaf mér ágæta skemmtan. Og formennsku í félagi sálfræðinema, því ég þótti svo spekingsleg með hana. Þetta var útúrdúr.

Á pönnunni minni (blessuð sé minning hennar) hafði ég bakað þúsund milljón pönnukökur. Við erum að tala um pönnu með fortíð. Góða og þénuga, á henni festist aldrei deig.

Möguleikar í stöðunni eru a.m.k. þessir:
  1. Tilbaka pönnuna næstu tuttugu ár eða svo.
  2. Gráta meira.
  3. Kaupa nýja með einhverju teflon drasli.
  4. Hætta að baka pönnukökur.
  5. Jarða pönnuna undir fallegu grenitré úti í garði.
  6. Hefna mín með því að sippa á klossum eftir miðnætti.
  7. Gera hosur mínar grænar fyrir bakara.
  8. Læra að lifa með þessu.
  9. Kaupa ný leðurstígvél.
  10. Bíta á jaxlinn og bölva í hljóði.
Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: