fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Bókmenntaþáttur baunar

Veit einhver hvaða fólk tekur að sér morgunverðarkornsfróðleik? "Bera Kormáksdóttir morgunverðarskáld" (?) Í morgun las ég á kili séríóspakka stiklur um merkar persónur sögunnar, en þar voru sett saman í einn pott Mark Twain, Sigmund Freud, Shakespeare, Marie Curie, Megas, Aristoteles, Woody Allen og Astrid Lindgren. Sérstakur bræðingur það. Svo voru tilviljanakenndar tilvitnanir aftan á kassanum, og ekkert endilega frá þeim sem náðu að komast á kjölinn. Eru kannski allir búnir að lesa séríóspakkann nema ég?

Að öðrum litteratúr. Þetta "viðvörunarbréf" fer nú um netið sem eldur í sinu. Í því stendur:

"Ég fór í fíkniefnaleit með hundinn minn í ónefndan verslunarkjarna og eðli málsins samkvæmt beindist sú leit mikið til að almenningssalernum sem þar eru. Það sem vakti athygli mína var það að hundurinn minn sýndi 3 klósettrúlluhöldurum áhuga og var klósettpappír inni í þeim öllum. Ég benti öryggisverðinum sem fylgdi mér á þetta og sagði hann mér að það hafi komið þó nokkrum sinnum að starfsmenn sem vinna við þrif hafi fundið notaðar sprautur og nálar á klósettunum eftir fíkniefnaneytendur og þá hafi einnig komið fyrir að áðurnefndir fíkniefnaneytendur hafi, eftir að hafa sprautað sig, stungið nálunum upp í gegn um klósettrúllurnar til að hreinsa þær og þannig skilið eftir örlitla blóðbletti í ónotuðum pappírnum. Þetta vakti með mér óhug og spurningar og mér finnst rétt að þið vitið af þessu."

Undir þetta skrifar "
Guðmundur Rúnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður". Hvað er eiginlega á ferli þarna? Nýr jólasveinn, Dóprúlluskelmir? Eiga nú allir að bera á sér eigin klósettrúllur í jólaösinni?

Ef þetta varðaði almannahagsmuni, svona í alvörunni, þyrfti þá ekki að upplýsa almenning með formlegri hætti en tilviljanakenndum netpósti? Sjálf tek ég ekkert mark á svona sendingum, set þær í sama pott og keðjubréf og vafasöm tilboð, delít delít delít.

Þakka þeim sem hlýddu.

Engin ummæli: