Baun dvelur enn í Danaveldi, hjá kaupmanninum í höfn. Það ber helst til tíðinda að hér hefur konan orðið fyrir fáheyrðu dekri og nánast umhyggjuofbeldi. Prinsessunni í bauninni er alltjént rækilega dillað. Puha! Það verður ekki létt að koma aftur heim í hversdagskífið, getið sveiað ykkur upp á það. Örfáar niðurstöður rannsókna minna:
- Í Kaupmannahöfn eru Íslendingar við hvert fótmál. Örugglega þjóðsaga að við séum bara 300 þúsund.
- Látlaust ríkidæmi, smekkleg hönnun og djúpur skilningur á holdlegum þörfum mannsins finnast mér áberandi einkenni á danskri þjóð. Þeir gera ráð fyrir því að fólk þurfi að hvíla sig, borða og drekka, stunda kynlíf og losa sig við úrgang. Ekki þó endilega samtímis.
- Jólabruggið frá Tuborg er gott.
- Danskur matur er óviðjafnanlegur, ef þetta er "danski kúrinn" þá bara setjið mig á hann enítæm.
- Heitar ristaðar möndlur eru guðdómlegar.
- Að upplifa borg með staðkunnugum er allt annað og skemmtilegra en að ráfa um, villast, ganga sig upp að hnjám og lenda hvað eftir annað í ógöngum. Það finnst mér að minnsta kosti, þótt ráðvillan geti reyndar haft sinn sjarma, svona ef maður lifir hana af.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli