fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Sjarmi þótt hann jarmi

Nú ætti ég að segja eitthvað spakt, jafnvel yrkja sléttubönd. Er hér á rándýrri nettengingu í Leifsstöð, 490 krónur klukkutíminn. Hvurslags eiginlega lélegheit eru þetta að rukka mann fyrir það að fara á netið? Bara púkalegt.

Það situr maður á móti mér með opna Sudoku bók, hann horfir stíft á eina síðuna en hefur ekki skrifað staf í hálftíma. Mér sýnast áhyggjuhrukkur mannsins nálgast hættumörk. Finnst ákveðið öryggi í því að hafa lært endurlífgun, svo ég geti brugðist rétt við ef þetta talnasprell með japanska nafnið veldur manninum hastarlegu heilsutjóni.

Svo langar mig, í fullkomnu tilgangsleysi, að greina frá því að í gær tók ég í fóstur lítinn bangsa með málhömlun. Hann heitir Ágætur. Mig grunar að Ágætur hafi alist upp hjá kindum, því hann segir "meeeee". Mér þykir afar vænt um greyið og dreg bangsa ekki í dilka þótt þeir jarmi.

Er annars á leið til Kaupmannahafnar að hitta kaupmanninn. Kaupmaðurinn er fagureygð gersemi með gott hjartalag. Ef ég hitti Margréti Þórhildi í forbífarten ætla ég að segja henni að hætta að reykja.

Yfir og út.

Engin ummæli: