sunnudagur, nóvember 11, 2007

Hvað er svona merkilegt við það...að kýla prinsessur

Löngum hef ég fýlt grön yfir tölvuleikjadellu sona minna. Hafa þrásetur við skjáinn, fjarrænt augnaráð og roðadílar í fölu andliti valdið mér áhyggjum. Að ekki sé minnst á hávær rifrildi sem snúast um aðgengi að rafaltarinu. Má segja að ég hafi verið haldin djúpum og klofnum fordómum, því ég hef jú átt minn þátt í að fjármagna þessa tölvuleikjafíkn drengjanna. Oft með semingi og gegn betri vitund.

Í gærkvöld þá opnaðist mér sýn inn í Nintendoland. Ég spilaði tölvuleik við son minn. Í leiknum var ég bleikur kúlukall, sem mér skilst að heiti Kirby. Ég kýldi prinsessur, barði risaeðlur með hamri, sprengdi ítalska pípulagningamenn og gleypti furðuskepnur. Breyttist stundum í stálkall og dó margoft. Þurfti að læra á marga takka, en þetta var já, fjandinn hafi það, bara skemmtilegt.

Mín tilfinning er sú að karlmenn séu almennt jákvæðari í garð tölvuleikja en konur. Frá því fyrsti stýripinninn leit dagsins ljós hafa fingur karlmannsins leitað snertingar við hann. Stýripinninn er karlmennskan plasti klædd.

Engin ummæli: