þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Kjöltur

Hóstakjöltur halda fyrir mér vöku, heima og í vinnu. Ekki svona innyflauppspýtandi öskurhósti, heldur aumingjalegt bofs, voff voff. Sennilega er hér um að ræða hóstakjölturakka sem telur sig gott gæludýr fyrir baun.
Vinnufélagi minn, hann Dóri, á súkkulaðibrúna labradortík sem gaut 12 hvolpum á föstudaginn, 10 lifðu. Hann hefur ekki látið sjá sig í vinnunni síðan og er ekki væntanlegur í bráð, enda hefur hann kappnóg að gera heima við að sinna tíkinni Sölku og litlu súkkulaðimolunum. Okkur samstarfsfólkinu þykir eðlilegt að Dóri fái hvolpaorlof, spurning hvað gæti talist eðlileg orlofslengd þegar tugur afkvæma bætist á einu bretti við það sem fyrir er. Og hvað eru eiginlega margir spenar á einni tík?

Mér skilst að í Danmörku fái menn sérstakar bætur ef þeir eiga hund. Skýrir kannski af hverju ég sá svona marga lausa hunda í Christianiu um daginn.

Segi ekki meira bofs í bili.

Engin ummæli: