Með auknum þroska hef ég öðlast ákveðnari smekk. Veit betur hvað mér líkar og hvað ekki. Stórar ilmsterkar liljur þykja mér t.d. leiðinlegar, satt best að segja þoli ég þær ekki. Smágerðar hýasintur þykja mér hins vegar fallegar og ilmurinn góður. Samt eru hýasintur liljur, eða heita alltjént goðaliljur á íslensku. En liljur eru auðvitað allskonar, og nef líka.
Hvað sem því líður er aðventan ekki sem verst og ég hlakka óstjórnlega til að hafa börnin mín þrjú hjá mér um jólin.
Góðar stundir.
þriðjudagur, desember 13, 2011
sunnudagur, október 09, 2011
Októberblómstur
Ræktun sumarsins gekk misvel. Rúkóla nenni ég ekki að rækta aftur, hef oft heyrt fólk segja að þetta vaxi eins og arfi en í sumar gerði ég þriðju (og síðustu) tilraun til rúkólaræktunar. Bæði sáði og keypti plöntur. Allt óx jafnilla, blómstraði bara og fékk svo lús. Fuss!
Það sem ég var einna ánægðust með var fræpakki keyptur í Tiger. Í honum var dularfull fræblanda og hefur eitthvað verið blómstrandi á svölunum hjá mér í allt sumar. Lit- og fjölskrúðug blanda allskonar blóma. Dásamlegt. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af þessum dönsku sumarblómum. Ég tók þær í dag, 9.október takk fyrir!
Auk þess minni ég á besta flóamarkað landsins, missið ekki af honum.
föstudagur, september 23, 2011
Fæðuöryggi í Austurbænum
Í vor keypti ég litla tómatplöntu. Í sumar umpottaði ég hana samviskusamlega og vökvaði á hverjum degi. Plantan launaði atlætið með því að vaxa og vaxa, hún varð einn og hálfur metri á hæð og breiddi út fagurgrænu blöðin sín (og vondu lyktina).
Uppskeru erfiðisins má sjá á myndinni. Dvergurinn er ekki enn farinn að roðna, enda kann hann ekki að skammast sín.
Uppskeru erfiðisins má sjá á myndinni. Dvergurinn er ekki enn farinn að roðna, enda kann hann ekki að skammast sín.
fimmtudagur, september 22, 2011
Eigulegt
Mikið er hún Nigella með fagurlega dreifðan þunga, vildi óska að mín kíló röðuðu sér af slíkri smekkvísi um lendur líkamans. Yfirleitt finnst mér ekki sérlega gaman að horfa á fólk eldra en þriggja ára háma í sig mat, en hún borðar svo fallega hún Nigella. Kannski af því að það er verið að taka myndir af henni fyrir sjónvarpið.
Matarást á ég sameiginlega með Nigellu. Sem betur fer finnst mér ekki bara gaman að borða, heldur líka elda. Og ég get skoðað eldhúsdót tímunum saman, svona græjur sem ég vissi ekki að mig vantaði. Þá sjaldan ég á erindi til Stóra Bretlands sleppi ég ekki ferð í Lakeland. Dásamleg búð.
Annað brennandi áhugamál mitt er gamalt dót, ekki síst gamalt og gott eldhúsdót. Hef alltaf verið hrifin af gömlum munum og þar sem svo margt drasl er framleitt í heiminum í dag getur marg borgað sig að kaupa notað. Móðir jörð brosir líka hringinn þegar við kaupum notað dót, frekar en nýtt. Endurvinnsla er góð.
Við Þórdís gramsvinkona og sálarsystir höfum sett upp flóamarkað á netinu, fyrir áhugasama um fortíðargripi. Endilega skoðið síðuna. Þið sjáið ekki eftir því.
sunnudagur, september 18, 2011
Hljóð
Var að koma af tónleikum í Hörpunni. Ekki amalegt að hlýða á Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar undir stjórn Dudamels í rauðri Eldborg. Unaðslegt, töfrandi og harla gott, takk fyrir.
Ég var annars nýlega greind með talsvert svæsna fóbíu telefonicus mobilis, þ.e. sjúklega hræðslu við að farsími hringi á tónleikum eða leiksýningu. Ekki nóg með það, fóbían beinist einnig að mínum eigin farsíma, jafnvel þótt hann sé læstur ofan í skúffu. Heima. Bara þessi tilhugsun, að vera völd að truflun á borð við frekjulega farsímahringingu á viðkvæmu augnabliki ... búnkedí búnkedí BÚNK.*
Öll yfirvofandi nókíastef jarðarbúa koma út á mér köldum svita.
*hjartslátturinn í mér
Ég var annars nýlega greind með talsvert svæsna fóbíu telefonicus mobilis, þ.e. sjúklega hræðslu við að farsími hringi á tónleikum eða leiksýningu. Ekki nóg með það, fóbían beinist einnig að mínum eigin farsíma, jafnvel þótt hann sé læstur ofan í skúffu. Heima. Bara þessi tilhugsun, að vera völd að truflun á borð við frekjulega farsímahringingu á viðkvæmu augnabliki ... búnkedí búnkedí BÚNK.*
Öll yfirvofandi nókíastef jarðarbúa koma út á mér köldum svita.
*hjartslátturinn í mér
miðvikudagur, september 14, 2011
Peningarnir eru í bankanum
Mér er illa við banka. Í mínum huga eru bankar óviðráðanleg hrokaæxli sem settu þjóðina á hausinn. Bankar græða enn á tá og fingri. Mínum fingri og minni tá, þótt milljónirnar sem þeir kroppa af mér þar sem ég hamast við að standa í skilum af glórulausu verðtryggðu okurláni, séu einungis dropi í stóra feita peningatankinn.
Ekkert fyrirtæki kemst með brisið þar sem bankinn hefur halann og klaufirnar þegar kemur að óvinsældum. Nema ef vera skyldi hinir bankarnir. Æ, megi þeir veltast um í aurnum eins og svín.
Ég held bara áfram að hlaupa í hamstrahjólinu.
Ekkert fyrirtæki kemst með brisið þar sem bankinn hefur halann og klaufirnar þegar kemur að óvinsældum. Nema ef vera skyldi hinir bankarnir. Æ, megi þeir veltast um í aurnum eins og svín.
Ég held bara áfram að hlaupa í hamstrahjólinu.
fimmtudagur, september 01, 2011
Fimm
Jæja, haustið er komið. Það er ekki alslæmt, en auðvitað hábölvað.
Haustið tengi ég alltaf námi og breytingum. Núna upplifi ég í fyrsta skipti (í 23 ár eða svo) að eiga ekkert barn í grunnskóla og það er undarleg tilfinning. Stóra stelpan mín er farin aftur út til Skotlands að læra efnafræði, miðbarnið var að hefja nám í verkfræði við HÍ og sá yngsti vatt sér í Tækniskólann til að læra um tölvur. Auk þess á partnerinn tvö börn, sérdeilis vel heppnuð eintök og eins og talnaglöggir hafa vafalaust reiknað út, eru börnin okkar samtals fimm. Það er ærið, jafnvel passlegt.
Hef annars lítið að segja þessa daga, maður er bara alltaf að vinna, tína ber og brjóta skóflur.
Haustið tengi ég alltaf námi og breytingum. Núna upplifi ég í fyrsta skipti (í 23 ár eða svo) að eiga ekkert barn í grunnskóla og það er undarleg tilfinning. Stóra stelpan mín er farin aftur út til Skotlands að læra efnafræði, miðbarnið var að hefja nám í verkfræði við HÍ og sá yngsti vatt sér í Tækniskólann til að læra um tölvur. Auk þess á partnerinn tvö börn, sérdeilis vel heppnuð eintök og eins og talnaglöggir hafa vafalaust reiknað út, eru börnin okkar samtals fimm. Það er ærið, jafnvel passlegt.
Hef annars lítið að segja þessa daga, maður er bara alltaf að vinna, tína ber og brjóta skóflur.
sunnudagur, ágúst 21, 2011
Hreinn Sveinn
Ekki er tekið út með sitjandi sældinni að vera ísbjörn á Íslandi. Það veit hann vinur minn Sveinn Pálsson dyravörður.
þriðjudagur, ágúst 16, 2011
Dellur, veður og nærbuxur
Dagarnir hafa verið undarlegir. Tíminn er undarlegur. Undarlegur hlýtur að þýða eins og sár, já, best gæti ég trúað því.
Partnerinn er í miklu dugnaðarkasti þessa (undarlegu) daga. Því duglegri sem hann er, því ræfilslegri verð ég. Sennilega einhver sálhagrænn ballans að verki, debet og kredit. Debbí og Kreddi, skæslegt par.
Hann fékk upphringingu í dag. Ringring. Djúp karlmannsrödd spurði: "Heyrðu, héddna, hvar fékkstu nærbuxurnar, þessar fansípants sem þú varst í í göngunni í sumar?" Greinilega ekki laust við að þær hafi vakið athygli, grænmynstruðu hlaupabrækurnar sem ég gaf honum í afmælisgjöf. Og ekkert nema gott um það að segja. Annað merkilegt sem skeði fyrir hann í dag (hahahahahahhahaha!) var að bandarískir túristar kölluðu hann engil, af því hann var svo liðlegur við þá, bláókunnugt og villuráfandi fólkið.
Ég held að allur þessi dugnaður stafi af væntanlegri veiðiferð. Meira hvað veiðiástríðan hlýtur að vera skemmtileg. Það þarf að hnýta flugur, plana matseðil, æfa köst, kaupa veiðidót, taka til gamla dótið, raða í box og töskur, tala um veiðistaði, hlakka til.
Aldrei hefur mér tekist að koma mér upp almennilegri dellu fyrir nokkrum sköpuðum hrærandi hlut og því öfunda ég hann. Eða samgleðst honum, vitaskuld.
Auk þess mótmæli ég, og undir það taka sólblómin mín úti á svölum, haustinu sem ryðst óboðið inn um miðjan ágúst.
Partnerinn er í miklu dugnaðarkasti þessa (undarlegu) daga. Því duglegri sem hann er, því ræfilslegri verð ég. Sennilega einhver sálhagrænn ballans að verki, debet og kredit. Debbí og Kreddi, skæslegt par.
Hann fékk upphringingu í dag. Ringring. Djúp karlmannsrödd spurði: "Heyrðu, héddna, hvar fékkstu nærbuxurnar, þessar fansípants sem þú varst í í göngunni í sumar?" Greinilega ekki laust við að þær hafi vakið athygli, grænmynstruðu hlaupabrækurnar sem ég gaf honum í afmælisgjöf. Og ekkert nema gott um það að segja. Annað merkilegt sem skeði fyrir hann í dag (hahahahahahhahaha!) var að bandarískir túristar kölluðu hann engil, af því hann var svo liðlegur við þá, bláókunnugt og villuráfandi fólkið.
Ég held að allur þessi dugnaður stafi af væntanlegri veiðiferð. Meira hvað veiðiástríðan hlýtur að vera skemmtileg. Það þarf að hnýta flugur, plana matseðil, æfa köst, kaupa veiðidót, taka til gamla dótið, raða í box og töskur, tala um veiðistaði, hlakka til.
Aldrei hefur mér tekist að koma mér upp almennilegri dellu fyrir nokkrum sköpuðum hrærandi hlut og því öfunda ég hann. Eða samgleðst honum, vitaskuld.
Auk þess mótmæli ég, og undir það taka sólblómin mín úti á svölum, haustinu sem ryðst óboðið inn um miðjan ágúst.
föstudagur, ágúst 05, 2011
*Knúz*
Fyrir nokkrum árum nefndi ég hann riddara rafgötunnar, þennan mann sem bjargaði ókunnugri miðaldra dömu í tæknilegum bloggvandræðum. Óumbeðinn rétti hann mér hjálparhönd, þá og svo oft síðar.
Í riti gat hann verið óttalegur strigakjaftur, þar sem hann barðist gegn kynjamisrétti, heimsku og ofbeldi. Í reynd var hann ljúfmenni með óborganlegan húmor og ríka réttlætiskennd.
Það er ekkert rafrænt við sorgina og söknuðinn sem ég ber.
Far vel, vinur.
Í riti gat hann verið óttalegur strigakjaftur, þar sem hann barðist gegn kynjamisrétti, heimsku og ofbeldi. Í reynd var hann ljúfmenni með óborganlegan húmor og ríka réttlætiskennd.
Það er ekkert rafrænt við sorgina og söknuðinn sem ég ber.
Far vel, vinur.
fimmtudagur, ágúst 04, 2011
Andlegt góðgæti
Engin orð í orðabókinni komast nálægt því að lýsa ferðinni sem farin var í sumar með Ferðafélagi Íslands. Hinn óeiginlegi Laugavegur var... eiginlega óviðjafnanlegur og sannarlega margra blaðra virði.
Myndina tók ég á Uppgönguhrygg og af einhverjum ástæðum minnir hún mig á ljóð eftir Þórarin Eldjárn. Það er svona (vona að rétt sé farið með og mér fyrirgefist að birta það hér):
Myndina tók ég á Uppgönguhrygg og af einhverjum ástæðum minnir hún mig á ljóð eftir Þórarin Eldjárn. Það er svona (vona að rétt sé farið með og mér fyrirgefist að birta það hér):
Maður og maur
Að tvisvar sinnum tveir séu fjórir
er talið nokkuð vel sannað.
Að maurar séu litlir en menn stórir
er margsinnis vottað og kannað.
Þó sumir menn séu lengri en ljósastaur
er ljóst eins og þið getið alveg séð
hve auðveldlega maður verður maur
munurinn er bara þetta Ð.
miðvikudagur, júní 29, 2011
Skótekki
Hangi heima lasin og raddlaus. Þess vegna datt mér í hug að sýna ykkur skóna mína.
Hansahillur eru ógvuliga vinsælar um þessar mundir, eins og svo margt retró dót. Hansahillur eru úr tekki, danskar að uppruna og hef ég ekki hugmynd um hvaðan nafnið kemur. Frá Hansakaupmönnum? Þeir voru þýskir og engin eftirlæti Dana. Eða e.t.v. var hér á landi afkastamikill heildsali á 6. og 7. áratugnum sem hét Hansi (ég ætla ekki að segja "heildsali á réttri hillu" brandara hér).
Hansahillur voru á öðru hverju heimili í minni barnæsku. Þær þóttu ekkert sérlega merkilegar þá, en þénugar. Núna, þegar allir vildu hansa kveðið hafa, hef ég heyrt ýmsa barma sér yfir að hafa hent hansahillunum sínum á haugana.
Ég hef reyndar aldrei séð almennilega skilgreiningu á hansahillum. Það voru til skrifborð, skápar o.fl. sem passaði við hansahillurnar. Einingar sem áttu samleið. Tekk og koparfestingar.
Á myndinni má sjá hillur sem upplagt væri að geyma bækur í, en það geri ég ekki. Bækurnar eru í billy, skórnir í hansa.
Það er ekki ljótara en það. Sagði afi.
Hansahillur eru ógvuliga vinsælar um þessar mundir, eins og svo margt retró dót. Hansahillur eru úr tekki, danskar að uppruna og hef ég ekki hugmynd um hvaðan nafnið kemur. Frá Hansakaupmönnum? Þeir voru þýskir og engin eftirlæti Dana. Eða e.t.v. var hér á landi afkastamikill heildsali á 6. og 7. áratugnum sem hét Hansi (ég ætla ekki að segja "heildsali á réttri hillu" brandara hér).
Hansahillur voru á öðru hverju heimili í minni barnæsku. Þær þóttu ekkert sérlega merkilegar þá, en þénugar. Núna, þegar allir vildu hansa kveðið hafa, hef ég heyrt ýmsa barma sér yfir að hafa hent hansahillunum sínum á haugana.
Ég hef reyndar aldrei séð almennilega skilgreiningu á hansahillum. Það voru til skrifborð, skápar o.fl. sem passaði við hansahillurnar. Einingar sem áttu samleið. Tekk og koparfestingar.
Á myndinni má sjá hillur sem upplagt væri að geyma bækur í, en það geri ég ekki. Bækurnar eru í billy, skórnir í hansa.
Það er ekki ljótara en það. Sagði afi.
föstudagur, maí 13, 2011
Í hverju ertu?
Sambýlingur minn vinnur hjá stóru tæknifyrirtæki. Í dag var ýmislegt á döfinni hjá starfsfólkinu, t.d. námskeið, tiltekt og eitthvert strandþema eftir vinnu. Partnerinn var búinn að grafa upp stuttbuxur og bol sem engin orð fá lýst, en lita- og mynsturfyllerí kemur við skræpótta sögu og veldur hastarlegum skyntruflunum. Bolurinn er þar að auki níðþröngur og nær bara niður á miðja bumbu á kallinum, sem er afar klæðilegt. Þegar ég kvaddi hann í morgun var hann á leið til vinnu á hjóli, í sínum hefðbundna klæðnaði en með strandfatnað litblindra í bakpokanum.
Jæja. Í vinnunni varð mér hugsað til unnustans sem var grænn á MSN og lék forvitni á að vita hvort hann væri kominn í magabolinn ógurlega.
ping
í hverju ertu?
Sagði ég voða fyndin (var líka að hugsa um þetta drephlægilega atriði). Aldrei þessu vant fékk ég ekkert svar, en ojæja, vinnandi fólk og allt það.
Klukkutíma seinna kom sms í símann minn: Er á námskeiði. Verið að nota vélina mína við kennslu. "Í hverju ertu" kom upp á stórt tjald.
Að miðaldra fólk skuli þurfa að lenda í svona...
Jæja. Í vinnunni varð mér hugsað til unnustans sem var grænn á MSN og lék forvitni á að vita hvort hann væri kominn í magabolinn ógurlega.
ping
í hverju ertu?
Sagði ég voða fyndin (var líka að hugsa um þetta drephlægilega atriði). Aldrei þessu vant fékk ég ekkert svar, en ojæja, vinnandi fólk og allt það.
Klukkutíma seinna kom sms í símann minn: Er á námskeiði. Verið að nota vélina mína við kennslu. "Í hverju ertu" kom upp á stórt tjald.
Að miðaldra fólk skuli þurfa að lenda í svona...
mánudagur, maí 09, 2011
Vær
Nýlega varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi á fjölmennum fundi að sitja skáhallt fyrir aftan mann sem metur tannheilsu sína mikils. Hann hamaðist með svona litlum bursta á tönnunum og óttaðist ég á tímabili að hann myndi gurgla og skyrpa í eyrað á konu sem sat fyrir framan hann.
Eftir tannhreinsunina byrjaði maðurinn að bora vandvirknislega í nefið og sá ég hann skófla úr hægri nös u.þ.b. 120 g af úrvals hori.
Fínn fundur.
Auk þess komst ég að því að það verður aldrei neitt úr mér því mig skortir metnað, mig dreymir aldrei um að vera best í heimi, mig skortir keppnisskap, af því ég er ekki nógu frek, af því ég er löt, af því ég skipulegg sjaldan heimsyfirráð, af því ég set mér ekki markmið, af því ég held ekki með liði.
Metnaðarleysið á sínar björtu hliðar. Ég dunda mér við baunarækt og les um gamalt dót og læt annað fólk ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Ekki einu sinni þótt það bori í nefið.
Eftir tannhreinsunina byrjaði maðurinn að bora vandvirknislega í nefið og sá ég hann skófla úr hægri nös u.þ.b. 120 g af úrvals hori.
Fínn fundur.
Auk þess komst ég að því að það verður aldrei neitt úr mér því mig skortir metnað, mig dreymir aldrei um að vera best í heimi, mig skortir keppnisskap, af því ég er ekki nógu frek, af því ég er löt, af því ég skipulegg sjaldan heimsyfirráð, af því ég set mér ekki markmið, af því ég held ekki með liði.
Metnaðarleysið á sínar björtu hliðar. Ég dunda mér við baunarækt og les um gamalt dót og læt annað fólk ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Ekki einu sinni þótt það bori í nefið.
laugardagur, apríl 30, 2011
Mjallarvor
laugardagur, apríl 23, 2011
Lóur í túni og súkkulaði í fríi
Ef ég á að mæla með einu hóteli hér á landi, þá er það Hótel Glymur í Hvalfirði. Ekki að ég hafi prófað að vera á mörgum hótelum innanlands, en samt. Algjört sóma hótel, þótt ósómi sé ekki útilokaður þar með lögum, nema reykingar á herbergjunum (sómalög, ef einhver spyr mig). Maturinn var framúrskarandi, ekki síst morgunverðurinn.
Á leiðinni í Hvalfjörðinn komum við við í Mosfellsbakaríi, til að eiga eitthvað að narta í, ef hótelið skyldi ekki fæða okkur nægilega vel (vissum ekki þá að við værum að stinga okkur lóðbeint oní gnægtahorn). Hver vill þjást af hungri í orlofi?
Keyptum tvo kaffibolla í farmálum, tvær súkkulaðibitakökur og svo bætti ég við 100 g súkkulaðiplötu, til að tryggja að hungurvofan héldi sig í hæfilegri fjarlægð. Mér féll allur ketill í eld þegar ég uppgötvaði hvað súkkulaðiplatan kostaði, enda læstum við hana inni í öryggishólfi hótelsins þegar áfangastað var náð og fórum með hana óétna aftur heim.
Hugsa að við geymum hana til ársins 3007.
Á leiðinni í Hvalfjörðinn komum við við í Mosfellsbakaríi, til að eiga eitthvað að narta í, ef hótelið skyldi ekki fæða okkur nægilega vel (vissum ekki þá að við værum að stinga okkur lóðbeint oní gnægtahorn). Hver vill þjást af hungri í orlofi?
Keyptum tvo kaffibolla í farmálum, tvær súkkulaðibitakökur og svo bætti ég við 100 g súkkulaðiplötu, til að tryggja að hungurvofan héldi sig í hæfilegri fjarlægð. Mér féll allur ketill í eld þegar ég uppgötvaði hvað súkkulaðiplatan kostaði, enda læstum við hana inni í öryggishólfi hótelsins þegar áfangastað var náð og fórum með hana óétna aftur heim.
Hugsa að við geymum hana til ársins 3007.
mánudagur, apríl 18, 2011
Grænlífið
Grænt er uppáhalds liturinn minn og gróður uppáhalds lífsformið (mögulega ein-tvær manneskjur sem ég held meira upp á en gras).
Hafði mikið yndi af stóra garðinum þar sem ég bjó í fyrra lífi, en nú læt ég inniræktun og litlu svalirnar mínar duga. Mesta furða hvað maður kemur miklu fyrir í gluggum. Unglingarnir á heimilinu eru ekkert hoppandi glaðir, en verða að sætta sig við að gluggar sem snúa í austur og norður eru kjörnir fyrir nýgræðing (jafnvel þótt þeim finnist bjórdósir heppilegra gluggaskraut).
Fór reyndar þvílíkum hamförum í sáningu að ég eiginlega veit ekkert hvað er hvar. Spennandi mál. Einn af fáum bökkum sem ég merkti var rósmarín og þar spíraði eitt fræ. Eitt! Ekki góðar heimtur af fjalli það. En já, til eru fræ* sem aldrei verða blóm.
*keypt í Blómavali
Hafði mikið yndi af stóra garðinum þar sem ég bjó í fyrra lífi, en nú læt ég inniræktun og litlu svalirnar mínar duga. Mesta furða hvað maður kemur miklu fyrir í gluggum. Unglingarnir á heimilinu eru ekkert hoppandi glaðir, en verða að sætta sig við að gluggar sem snúa í austur og norður eru kjörnir fyrir nýgræðing (jafnvel þótt þeim finnist bjórdósir heppilegra gluggaskraut).
Fór reyndar þvílíkum hamförum í sáningu að ég eiginlega veit ekkert hvað er hvar. Spennandi mál. Einn af fáum bökkum sem ég merkti var rósmarín og þar spíraði eitt fræ. Eitt! Ekki góðar heimtur af fjalli það. En já, til eru fræ* sem aldrei verða blóm.
*keypt í Blómavali
laugardagur, apríl 16, 2011
Skopskyn í orlofi
Jæja. Kallbeyglan sem ég bý með á afmæli í dag og var ég búin að undirbúa allskonar sniðugheit handa honum. M.a. bauð ég í sprenghlægilegan veiðimanna-brandarabol á Ebay fyrir u.þ.b. mánuði og var hann sleginn mér sem hæstbjóðanda.
Í fyrradag skilaði þetta sér loksins í hús, ég laumaðist spennt með pakkann inn í herbergi til að skoða. Það næsta sem ég gerði var að skrifa reiðilegt bréf til seljandans.
Í pakkanum var bolurinn á myndinni.
Í fyrradag skilaði þetta sér loksins í hús, ég laumaðist spennt með pakkann inn í herbergi til að skoða. Það næsta sem ég gerði var að skrifa reiðilegt bréf til seljandans.
Í pakkanum var bolurinn á myndinni.
þriðjudagur, mars 29, 2011
At kerfi semda huga
Hér þarf að taka til. Það þýðir ekki að yfirgefa Eyjuna í fússi og fara svo ekki lengra en inn í ruslakompu. Er ekki viss hvort ég nenni að halda úti tveimur bloggum en langar samt að pimpa þetta gamla hró upp. Það er ekki hægt án þess að tapa öllum athugasemdum, sem eru mörg þúsund talsins og hver annarri betri (af því að lesendur mínir eru svo gáfaðir).
Kommentajálkurinn gamli, Haloscan, varð fyrir fjandsamlegri yfirtöku viðrinis sem kallast Js-Kit Echo (alveg vonlaust fyrirbæri). Til að bæta gráu ofan á svart heimta þessir Echobjánar pening fyrir "þjónustuna". Bölvaðir kapitalistar sem kunna ekki að skammast sín.
Svoleiðis er það nú. Úr fyrsta spenanum kemur undanrenna.
Kommentajálkurinn gamli, Haloscan, varð fyrir fjandsamlegri yfirtöku viðrinis sem kallast Js-Kit Echo (alveg vonlaust fyrirbæri). Til að bæta gráu ofan á svart heimta þessir Echobjánar pening fyrir "þjónustuna". Bölvaðir kapitalistar sem kunna ekki að skammast sín.
Svoleiðis er það nú. Úr fyrsta spenanum kemur undanrenna.
sunnudagur, mars 27, 2011
Sáð
Í gær var fyrsti í vori. Ásta mín kom heim í frí. Og svo er ég byrjuð að sá, ekki vonum fyrr.
Keypti 6 lítil páskaegg frá Nóa-Síríus í gær til að borða eftir fagnaðarmálsverðinn sem ég hélt Ástu minni. Í dag uppgötvaði ég að plastumbúðirnar eru fyrirtaks sáðbakki, geri maður lítil göt á hólfin. M.a.s. áfast lok sem leggst yfir helming hólfanna.
Nú ætla ég út í búð að kaupa fleiri svona páskaegg, það er nefnilega ódýrara að kaupa þau en sáðbakka í Blómavali.
Keypti 6 lítil páskaegg frá Nóa-Síríus í gær til að borða eftir fagnaðarmálsverðinn sem ég hélt Ástu minni. Í dag uppgötvaði ég að plastumbúðirnar eru fyrirtaks sáðbakki, geri maður lítil göt á hólfin. M.a.s. áfast lok sem leggst yfir helming hólfanna.
Nú ætla ég út í búð að kaupa fleiri svona páskaegg, það er nefnilega ódýrara að kaupa þau en sáðbakka í Blómavali.
föstudagur, mars 25, 2011
Músík og tilraunir
Fór á Músíktilraunir í kvöld, það var upplifun. Kraftur og sprúðlandi sköpunargleði, mikill hávaði. Rosalega gaman. Speedmetall, Sigurrósarflauel, popp, paunk, elektrópopp, hljóðbrandaramúsík, þungarokk, krúttmetall og djassmetall. Afar fjölbreytt tónlist.
Eitt vakti furðu mína. Tíu hljómsveitir tróðu upp í kvöld, 3-4 krakkar í hverju bandi, sumsé 30-40 manns. Hvað haldið þið að hafi verið margar stelpur þarna?
Þrjár.
Maður veltir fyrir sér hver útdeili sjálfstrausti meðal ungs fólks á tónlistarbraut. Sá gefur lítið fyrir ályktanir jafnréttisráðs.
Spes. En allavega. Hljómsveit sonar míns komst áfram, klapp klapp.
Eitt vakti furðu mína. Tíu hljómsveitir tróðu upp í kvöld, 3-4 krakkar í hverju bandi, sumsé 30-40 manns. Hvað haldið þið að hafi verið margar stelpur þarna?
Þrjár.
Maður veltir fyrir sér hver útdeili sjálfstrausti meðal ungs fólks á tónlistarbraut. Sá gefur lítið fyrir ályktanir jafnréttisráðs.
Spes. En allavega. Hljómsveit sonar míns komst áfram, klapp klapp.
miðvikudagur, mars 23, 2011
FA
Augnabliks veikleiki og fésbúkskrattinn stekkur til. Í gærkvöld féllu varnir og ég bað Hjálmar um að lesa fyrir mig girnilegan kommentahala hjá henni Þórdísi. Ölvun snjallyrðanna dugði halann á enda, en svo steyptist skömmin yfir eins og flögrandi kalkúnn.
Ég mun verða staðföst. Ég skal.
Það versta var að Hjálmar skrifaði status um að ég hefði fallið í freistni.
Ég mun verða staðföst. Ég skal.
Það versta var að Hjálmar skrifaði status um að ég hefði fallið í freistni.
mánudagur, mars 21, 2011
Einræningjahjal
Ég á mínar veiku stundir. Langar aftur á fésbúksófétið. Sakna góðra vina minna þar. En það er svo margt flókið á fésbúknum. Maður á til að láta þvaðrið í sumum fara í taugarnar á sér, þótt viti borin manneskja ætti að vera yfir það hafin.
Í gegnum blogg, og síðan fésbúk, hef ég kynnst skínandi mannverum. Þær eru til í alvöru, allavega sumar. Það verður hver að svara fyrir sig hvort hann sé til í alvöru. Sumar týpur eru auðvitað lyginni líkastar.
En nú er ég sumsé í mánaðarbindindi frá FB og vona að ég lifi það af. Af hverju bindindi? Af því að ég var farin að hanga allt of mikið í tölvunni og vanrækja annað athæfi, t.d. bóklestur, bróderingar og stefnulausan slæping. Það er ekki gott fyrir einræning eins og mig að vera of mikið í tölvunni.
Og svona fyrst ég er hætt á Eyjunni, fannst mér liggja beint við að fara aftur á gamla staðinn. Á eftir eitthvert dúllerí við að uppfæra tenglalista og annað. Það er ósköp stirt þetta "template", get ekki lagað það án þess að tapa öllum kommentum. Færslurnar hér eru orðnar tæplega 1200 talsins og að viðbættum þeim sem birtust á Eyjunni og á hinu blogginu hef ég puðrað út í loftið um 1300 færslum - maður er enginn nýgræðingur í bransanum. Spekin yfirgengileg (og öllum aðgengileg).
Blogg spogg gogg rogg mogg fogg klogg.
Í gegnum blogg, og síðan fésbúk, hef ég kynnst skínandi mannverum. Þær eru til í alvöru, allavega sumar. Það verður hver að svara fyrir sig hvort hann sé til í alvöru. Sumar týpur eru auðvitað lyginni líkastar.
En nú er ég sumsé í mánaðarbindindi frá FB og vona að ég lifi það af. Af hverju bindindi? Af því að ég var farin að hanga allt of mikið í tölvunni og vanrækja annað athæfi, t.d. bóklestur, bróderingar og stefnulausan slæping. Það er ekki gott fyrir einræning eins og mig að vera of mikið í tölvunni.
Og svona fyrst ég er hætt á Eyjunni, fannst mér liggja beint við að fara aftur á gamla staðinn. Á eftir eitthvert dúllerí við að uppfæra tenglalista og annað. Það er ósköp stirt þetta "template", get ekki lagað það án þess að tapa öllum kommentum. Færslurnar hér eru orðnar tæplega 1200 talsins og að viðbættum þeim sem birtust á Eyjunni og á hinu blogginu hef ég puðrað út í loftið um 1300 færslum - maður er enginn nýgræðingur í bransanum. Spekin yfirgengileg (og öllum aðgengileg).
Blogg spogg gogg rogg mogg fogg klogg.
sunnudagur, mars 20, 2011
Fínörtuð
Sonur minn segir að ég eigi til að vera bitur. Sem minnir mig á félagið Bitrar en boðlegar, fínt kompaní fráskilinna kvenna (það lagði upp laupana fyrir nokkrum árum en lifir í minningunni).
En fari það í mórauðan mykjuhaug, ég kýs að krydda líf mitt útvalinni biturð fremur en lifa í kjánalegum barnaskap.Þar sem ég stend á ákveðnum tímamótum (sem eru í hausnum á mér og kallast höfuðmót), hef ég hætt á fésbúknum. Í bili eða lengur. Skarð fésbúks hefur verið fyllt af Guðrúnu frá Lundi. Var að enda við bók hennar Svíður sárt brenndum, þar sem segir af Köllu Jóelsdóttur frá Mýrarkoti og dálaglega monthananum og búskussanum Birni Ísakssyni. Mikil öndvegis skáldkona var Guðrún frá Lundi og synd að hún skuli ekki vera uppi í dag svo hún gæti notið þess að vera hunsuð af stjórnanda Kiljunnar.
Eiginlega eftirskrift: Puttinn á mér hlýtur að vera límdur á púlsinn, var rétt í þessu að frétta að flutt hafi verið tvö erindi um Guðrúnu frá Lundi við afhendingu Fjöruverðlaunanna. Og mikið er ég ánægð með að Kristín Steinsdóttir skyldi fá verðlaun fyrir Ljósu, það átti hún sannarlega skilið.
En fari það í mórauðan mykjuhaug, ég kýs að krydda líf mitt útvalinni biturð fremur en lifa í kjánalegum barnaskap.Þar sem ég stend á ákveðnum tímamótum (sem eru í hausnum á mér og kallast höfuðmót), hef ég hætt á fésbúknum. Í bili eða lengur. Skarð fésbúks hefur verið fyllt af Guðrúnu frá Lundi. Var að enda við bók hennar Svíður sárt brenndum, þar sem segir af Köllu Jóelsdóttur frá Mýrarkoti og dálaglega monthananum og búskussanum Birni Ísakssyni. Mikil öndvegis skáldkona var Guðrún frá Lundi og synd að hún skuli ekki vera uppi í dag svo hún gæti notið þess að vera hunsuð af stjórnanda Kiljunnar.
Eiginlega eftirskrift: Puttinn á mér hlýtur að vera límdur á púlsinn, var rétt í þessu að frétta að flutt hafi verið tvö erindi um Guðrúnu frá Lundi við afhendingu Fjöruverðlaunanna. Og mikið er ég ánægð með að Kristín Steinsdóttir skyldi fá verðlaun fyrir Ljósu, það átti hún sannarlega skilið.
laugardagur, mars 19, 2011
Kreppuráð Betó gamla
Auk þess legg ég til að illa nýtt hráefni Árnastofnunar verði seld til matargerðar á næstu Food and fun hátíð. Hagnaður renni í ríkissjóð.
Matseðill
Marineruð AM 149 fol Ceviche og ostafrauð
Jónsbókarsúpa með ristuðum leturhumri og sólseljurjóma
Salad Niçoise með Galdrakverstartar
Blandaður handritabakki með spennandi og fersku hráefni: AM 116 fol, áll, lax, Grágás og stökkar Ketilsbókarrúllur
Postulasögur með karmeluðum skinnverkum og lífrænu súkkulaði
Fyrir börnin
Djúpsteiktir Eddukvæðaborgarar með tómatsósu
Matseðill
Marineruð AM 149 fol Ceviche og ostafrauð
Jónsbókarsúpa með ristuðum leturhumri og sólseljurjóma
Salad Niçoise með Galdrakverstartar
Blandaður handritabakki með spennandi og fersku hráefni: AM 116 fol, áll, lax, Grágás og stökkar Ketilsbókarrúllur
Postulasögur með karmeluðum skinnverkum og lífrænu súkkulaði
Fyrir börnin
Djúpsteiktir Eddukvæðaborgarar með tómatsósu
sunnudagur, mars 13, 2011
Genetíska
Í sumar sem leið varð ég fyrir barðinu á bragðskynsbrenglun sem nefnist furuhvoftur. Það var óskemmtileg lífsreynsla sem fær mig til að forðast furuhnetur eins og pestina. En ekki var nóg á mína tungu lagt, onei. Eftir skæða flensu fyrir u.þ.b. mánuði gerðist tvennt: ég hætti að geta drukkið kaffi og kúgaðist ef ég fann lykt eða bragð af agúrkum.
Sem betur fer lagaðist kaffióþolið, einhverja miskunn á guð tungunnar til. En agúrkur eru ennþá limur andskotans.
Nú vill svo til að móðir mín hefur alltaf sagt að gúrkur væru viðbjóður. Ég hef hlegið góðlátlega að þessari vitleysu í henni, enda gúrkur eiginlega næsti bær við vatn sem þarf að tyggja.
Á gúrkuhatrinu finnst skýring. Hún er genetísk og vel þekkt. Þetta er allt mömmu að kenna. Það er bara eitt sem ég ekki skil: Af hverju tók sig upp þetta gen hérna megin við fimmtugt?
Sem betur fer lagaðist kaffióþolið, einhverja miskunn á guð tungunnar til. En agúrkur eru ennþá limur andskotans.
Nú vill svo til að móðir mín hefur alltaf sagt að gúrkur væru viðbjóður. Ég hef hlegið góðlátlega að þessari vitleysu í henni, enda gúrkur eiginlega næsti bær við vatn sem þarf að tyggja.
Á gúrkuhatrinu finnst skýring. Hún er genetísk og vel þekkt. Þetta er allt mömmu að kenna. Það er bara eitt sem ég ekki skil: Af hverju tók sig upp þetta gen hérna megin við fimmtugt?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)