Ef ég á að mæla með einu hóteli hér á landi, þá er það Hótel Glymur í Hvalfirði. Ekki að ég hafi prófað að vera á mörgum hótelum innanlands, en samt. Algjört sóma hótel, þótt ósómi sé ekki útilokaður þar með lögum, nema reykingar á herbergjunum (sómalög, ef einhver spyr mig). Maturinn var framúrskarandi, ekki síst morgunverðurinn.
Á leiðinni í Hvalfjörðinn komum við við í Mosfellsbakaríi, til að eiga eitthvað að narta í, ef hótelið skyldi ekki fæða okkur nægilega vel (vissum ekki þá að við værum að stinga okkur lóðbeint oní gnægtahorn). Hver vill þjást af hungri í orlofi?
Keyptum tvo kaffibolla í farmálum, tvær súkkulaðibitakökur og svo bætti ég við 100 g súkkulaðiplötu, til að tryggja að hungurvofan héldi sig í hæfilegri fjarlægð. Mér féll allur ketill í eld þegar ég uppgötvaði hvað súkkulaðiplatan kostaði, enda læstum við hana inni í öryggishólfi hótelsins þegar áfangastað var náð og fórum með hana óétna aftur heim.
Hugsa að við geymum hana til ársins 3007.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli