Grænt er uppáhalds liturinn minn og gróður uppáhalds lífsformið (mögulega ein-tvær manneskjur sem ég held meira upp á en gras).
Hafði mikið yndi af stóra garðinum þar sem ég bjó í fyrra lífi, en nú læt ég inniræktun og litlu svalirnar mínar duga. Mesta furða hvað maður kemur miklu fyrir í gluggum. Unglingarnir á heimilinu eru ekkert hoppandi glaðir, en verða að sætta sig við að gluggar sem snúa í austur og norður eru kjörnir fyrir nýgræðing (jafnvel þótt þeim finnist bjórdósir heppilegra gluggaskraut).
Fór reyndar þvílíkum hamförum í sáningu að ég eiginlega veit ekkert hvað er hvar. Spennandi mál. Einn af fáum bökkum sem ég merkti var rósmarín og þar spíraði eitt fræ. Eitt! Ekki góðar heimtur af fjalli það. En já, til eru fræ* sem aldrei verða blóm.
*keypt í Blómavali
Engin ummæli:
Skrifa ummæli