þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Dellur, veður og nærbuxur

Dagarnir hafa verið undarlegir. Tíminn er undarlegur. Undarlegur hlýtur að þýða eins og sár, já, best gæti ég trúað því.

Partnerinn er í miklu dugnaðarkasti þessa (undarlegu) daga. Því duglegri sem hann er, því ræfilslegri verð ég. Sennilega einhver sálhagrænn ballans að verki, debet og kredit. Debbí og Kreddi, skæslegt par.

Hann fékk upphringingu í dag. Ringring. Djúp karlmannsrödd spurði: "Heyrðu, héddna, hvar fékkstu nærbuxurnar, þessar fansípants sem þú varst í í göngunni í sumar?" Greinilega ekki laust við að þær hafi vakið athygli, grænmynstruðu hlaupabrækurnar sem ég gaf honum í afmælisgjöf. Og ekkert nema gott um það að segja. Annað merkilegt sem skeði fyrir hann í dag (hahahahahahhahaha!) var að bandarískir túristar kölluðu hann engil, af því hann var svo liðlegur við þá, bláókunnugt og villuráfandi fólkið.

Ég held að allur þessi dugnaður stafi af væntanlegri veiðiferð. Meira hvað veiðiástríðan hlýtur að vera skemmtileg. Það þarf að hnýta flugur, plana matseðil, æfa köst, kaupa veiðidót, taka til gamla dótið, raða í box og töskur, tala um veiðistaði, hlakka til.

Aldrei hefur mér tekist að koma mér upp almennilegri dellu fyrir nokkrum sköpuðum hrærandi hlut og því öfunda ég hann. Eða samgleðst honum, vitaskuld.

Auk þess mótmæli ég, og undir það taka sólblómin mín úti á svölum, haustinu sem ryðst óboðið inn um miðjan ágúst.

Engin ummæli: