Nýlega varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi á fjölmennum fundi að sitja skáhallt fyrir aftan mann sem metur tannheilsu sína mikils. Hann hamaðist með svona litlum bursta á tönnunum og óttaðist ég á tímabili að hann myndi gurgla og skyrpa í eyrað á konu sem sat fyrir framan hann.
Eftir tannhreinsunina byrjaði maðurinn að bora vandvirknislega í nefið og sá ég hann skófla úr hægri nös u.þ.b. 120 g af úrvals hori.
Fínn fundur.
Auk þess komst ég að því að það verður aldrei neitt úr mér því mig skortir metnað, mig dreymir aldrei um að vera best í heimi, mig skortir keppnisskap, af því ég er ekki nógu frek, af því ég er löt, af því ég skipulegg sjaldan heimsyfirráð, af því ég set mér ekki markmið, af því ég held ekki með liði.
Metnaðarleysið á sínar björtu hliðar. Ég dunda mér við baunarækt og les um gamalt dót og læt annað fólk ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Ekki einu sinni þótt það bori í nefið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli