föstudagur, júní 30, 2006

En hvað það var skrítið

Nú er ég komin í sumarfrí og það er bara skrítið.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Halar, heilar og tannhjól

Gott var að fá Matta minn heim eftir Búlgaríuævintýrið. Strákarnir gerðu það gott, lentu í öðru sæti á Evrópumóti skólaskákliða. Ekki slæmt gengi það!

Fjörugur umræðuhali spannst um trúmál hér við síðustu færslu. Mér sýnist sem æði margir hafi sterkar skoðanir á trú og trúleysi, en lítið heyrist af slíkri umræðu opinberlega. Það er ekki galið að hugsa og jafnvel tjá sig annað veifið. Rústberja tannhjólin í kollinum og sjá til hvað gerist.

þriðjudagur, júní 27, 2006

Ímyndaður vinur?

Um helgina hlýddi ég á nokkur erindi um trúleysi. Trúleysingjaráðstefna hljómar kannski ekki eins vel og bjórsmökkun, en það sem ég heyrði og sá var áhugavekjandi, skemmtilegt og fékk mig sannarlega til að hugsa.

Nú hugsa ég um hinstu rök
hósta sálarlýjum
erum við hér ein og stök
eða með vin í skýjum?

mánudagur, júní 26, 2006

Maður og kona

Enn eina ferðina er ég ráðvillt. Margt sækir á hugann. Engu get ég sagt frá hér og ákvað því að deila með ykkur nokkrum góðum tilvitnunum í staðinn. Í kvöld verður sýndur þáttur á RÚV um karla og konur. Ég ætla að horfa á hann. Vonandi læri ég eitthvað.

Women who seek to be equal with men lack ambition.
Timothy Leary
US psychologist & promoter of mind-altering drugs (1920 - 1996)

If women are expected to do the same work as men, we must teach them the same things.
Plato

The thing women have got to learn is that nobody gives you power. You just take it.
Roseanne Barr


Women need a reason to have sex. Men just need a place.
Billy Crystal

laugardagur, júní 24, 2006

Demantar og arfi

Þegar ég loka augunum sé ég arfa. Búin að hálfdrepa mig á garðvinnu í dag. Þetta er engin hemja. Ái, hvað mér er illt í bakinu. Held að arfinn hafi komið betur út úr bardaganum en ég (alla vega heyrði ég hann ekki kvarta um bakverk).

Var í miklu skemmtilegri málum fyrir hádegi. Á 5 ára gamla vinkonu sem heitir Björk, hún var hjá mér og hefur frá mörgu að segja. Björk sýndi mér gimsteina, demanta, kristalla og allskonar "brothættulega" hluti sem hún á í fjársjóðskistunni sinni. Svo kann hún töfrabrögð. Og hún fræddi mig á því að maður ætti að trúa á sjálfan sig, það hefði hún heyrt hjá Birtu og Bárði.

Manni leiðist ekki í svona félagsskap, getið sveiað ykkur upp á það.

föstudagur, júní 23, 2006

Kona er nefnd

Ég er kona. Í nefnd. Reyndar nokkrum ónefndum nefndum. Hef verið á fullu undanfarið við að ganga frá alls kyns lausum endum í öllum þessum nefndum, svo ég komist í sumarfrí án þess að taka nefndarstörfin með mér.

Annars finnst mér lífið fallegt og bjart í dag.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Kjaftasögur

Taktu ekki níðróginn nærri þér
það næsta gömul er saga,
að lakari gróðurinn ekki það er
sem ormarnir helst vilja naga.

Þetta er vísa sem hún amma mín fór oft með. Stakan sú ku vera eftir Hannes Hafstein.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Esja, rok og mótorungar

Var að koma af Esjunni með fallega blásið hárið. Yndislegt var að finna ullabjakkið fjúka úr sálinni, enda loftaði vel milli eyrna. Ekkert jafnast á við ærlegt rok í sól.

Á leiðinni heim keyrði ég drjúga stund á eftir halarófu af litlum gulum bifhjóla-ungum, svona miðaldra dúllum sem voru að læra á mótorhjól með andapabba (sem var grár). O, það var svo sætt.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Í jóðli og trú

Sonur minn Hjalti var að koma heim úr Vatnaskógi, með fullt af skemmtilegum sögum í farteskinu. Það sem heillaði mig mest, af því sem hann lærði hjá KFUM mönnum, voru nokkur létt dansspor sem hann tók og hljóðskreytti með jóðli.

mánudagur, júní 19, 2006

Ég trúi því að dúnsokkar séu faðmlag við fætur.

Þegar maður er ráðvilltur, einn, ponku blúsaður (og allt of lítið knúsaður) - hvað á maður þá að gera? Stundum vildi ég óska að ég tryði því í alvöru að til væri fólk sem sér hvað manni er fyrir bestu. Svona fólk sem veit hvað maður á að gera þegar maður veit það ekki sjálfur. En ég er bara svo mikil efahyggjumanneskja. Og trúi, þrátt fyrir allt, best á sjálfa mig. Sýnir hvað ég er vitlaus.

Sakna Matta míns. Hann er farinn til Búlgaríu. Kvaddi piltinn í nótt, beið með honum eftir leigubílnum í dyragættinni í 20 mínútur. Þegar ég skreið uppí aftur, voru fætur mínir svo ísjökulkaldir að ég gat ekki sofnað. Fékk staðfestingu á því í dag að það er læknisfræðilega ómögulegt fyrir fólk með gegnkalda fætur að sofna. Var bent á viðeigandi úrræði. Dúnsokka.

sunnudagur, júní 18, 2006

Sól og símaleysi. Sími og sólarleysi.

Sísí sér sól. Smá sól. Sísí vill fara út í sólina. Sól, sól segir Sísí.

Í gær 17.júníuðumst við Matti ekki neitt. Brugðum okkur aðeins niður í bæ í formlegum erindagjörðum, en vorum annars heima. Hlustuðum á Pink Floyd. Yndislegt kompaní hann Matti minn og fyndið að 15 ára unglingurinn skuli hlusta á tónlist sem öldruð móðir hans hlustaði á fyrir langalöngu.

Á morgun fer hann til Búlgaríu að tefla á Evrópumóti. Er búin að kaupa sandala, stuttbuxur og nokkra boli handa syninum. Honum finnst mikil píníng að fara í fatabúðir, held hann vilji heldur fara til tannlæknis. Furðulegt er þetta með unga drengi.

Svo kemur yngri strákurinn, hann Hjalti minn, úr Vatnaskógi á þriðjudaginn. Gott verður að fá að sjá hann aftur. Matti hafði töluverðar áhyggjur af því að börnum væri ekkii leyft að hafa með sér farsíma í Vatnaskóg. Sá fyrir sér að litli bróðir gæti lent í vandræðum, t.d. dottið oní skurð. Símalaus!

Pétur, Paul og Krúttla - til hamingju með daginn:)

föstudagur, júní 16, 2006

"Hell hath no fury...

like a woman scorned"

Hver sagði þetta? Þið haldið að það hafi verið Shakespeare, ekki satt? En það er ekki rétt. Þetta er úr leikriti frá árinu 1697, The morning bride eftir William Congreve. Kvótið í heild hljómar svo: Heaven has no rage like love to hatred turned, nor hell a fury like a woman scorned.

Mér finnst þetta flott. En ekki rétt. Tel að karlar séu engu betri en konur þegar kemur að höfnun og hegðun þeirra engu skárri en kvenna í sömu aðstæðum. Þeir lúta alveg jafn lágt, eða lægra, séu þeir særðir. Alla vega karlar sem skortir stórmennsku. Sennilega er þetta spurning um andlegan þroska.

Langar að deila með ykkur þessari góðu skilgreiningu á fyrirgefningu sem ég rakst á hjá Miss Jones

"Fyrirgefningin snýst um að láta af von um betri fortíð"

Ég er leið á vinnunni



















(takk Simmi fyrir að finna skiltasíðuna góðu)

fimmtudagur, júní 15, 2006

Lærin á Bond lenda í smotteríi

Fór með afmælisbarninu á Pítsahött í gær og svo leigðum við mynd, Never say never again. Það var eina Bond myndin sem Matti átti eftir að sjá, en hann er sérlegur áhugamaður um njósnara hennar hátignar. Borðuðum 3 kg af gotteríi (hvort) og horfðum á Bond lenda í hinu og þessu smotteríi (t.d. að bjarga heiminum). Gotterí og smotterí. Að horfa á Bond getur verið góð skemmtun. Stóð mig að því að grandskoða á njósnaranum bringu, læri og fótleggi. Einstaklega vel skapaður hann Connery. *andvarp*

miðvikudagur, júní 14, 2006

Jibbí og sjitt

Jibbí - hann Matti á afmæli í dag. Hann er 15 ára kappinn, skákmaðurinn, yndið mitt og sólskinið í lífi mínu.

Sjitt - það kostar 200 þús. að gera við bíldrusluna mína sem brennir olíu. Tekur því varla. Hef oft sagt að ég sé lánsöm kona og það er ég sannarlega, en datt í hug önnur merking þess orðs. Tók nefnilega himinhá lán þegar ég skildi, til að kaupa mér íbúð, og nú þarf ég að taka aftur lán (að öllum líkindum) til að kaupa nýjan bíl. Lánsemi mín er yfirdrifin. En þetta reddast. Engar áhyggjur. Hakúna matata.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Tví-púnterað!

Var að skríða inn úr dyrunum algjörlega búin á því. Fór í hörku gönguferð með vinnufélögum, geymdi bílinn á "bindinu" (við Rauðavatn), fékk far með jeppaeiganda að gönguleiðinni. Ekki í frásögur færandi. En, þegar ég kom til baka og keyrði drusluna af stað fann ég að hún lét illa að stjórn. Fór út og gáði. Það var sprungið á báðum framdekkjunum. Ótrúlegt!

Þurfti að hringja á dráttarbíl. Æi, meira vesenið með þessa bíla *hófstillt org með dashi af pirringi*

Waters, gírstöng, sulta, gaman

Umferðarsultan á leiðinni í Egilshöll var þreytandi - beinskiptir bílar eru óheppilegir í hæggengri halarófu. Mér er illt í gírstönginni og kúplingunni. En...ohhh, hvað var gaman á tónleikunum í gær.

sunnudagur, júní 11, 2006

Eru einhverjir nördar á línunni?

Úti í Tékkó keypti ég þriggja manna tafl handa Matta syni mínum sem er góður skákmaður. Við vorum að vígja þetta undratafl áðan, ég, Matti og Hjalti. Við Hjalti eigum það sameiginlegt að vera afar tapsár og drápsfús og lentum auðvitað í slag innbyrðis og á meðan vann Matti skákina hægt og hljótt. Kom ekki á óvart.

En kannast hlustendur við þriggja manna tafl?

laugardagur, júní 10, 2006

Leikur er lánið

Heimur fráskilinna kvenna er ævintýraland. Djammaði í gær með tveimur úr þessum nýfundna þjóðflokki. Þær eru óborganlega fyndnar, skemmtilegar og kunna að leika sér. Þessar konur eiga líka til auðmýkt gagnvart lífinu og víðsýni. Mikið er ég heppin að hafa kynnst þeim. Og öðru frábæru fólki í gegnum þetta bloggbrölt mitt.

(ef þetta er of væmið, stingið ykkur þá í lærið með heklunál nr. 1 1/2)

föstudagur, júní 09, 2006

Strokur

Í gær lenti ég í því að tveir gamlir menn struku mér blíðlega í vinnunni. Ekki samtímis.

fimmtudagur, júní 08, 2006

Missið ekki af árshátíð Framsóknarflokksins


Hljómsveitin Skítamórall sér um fjörið.







(Þessi auglýsing er í boði Halldórs Halldórssonar vinar míns)

þriðjudagur, júní 06, 2006

Skegg, lestarstjórar og ást í Tékkó

Lestarstjórinn með dásamlega klofið...skegg, makka niður á bak og marijúana-hring á litlafingri. Traustvekjandi Tékki.


Sussussuss, sumir voru greinilega ekkert að fylgjast með því sem leiðsögumaðurinn sagði...

(takk Ingibjörg söngkona fyrir myndirnar:)

Nú eru óráð dýr

Tvær utanlandsferðir með stuttu millibili. Held ég sé ekki með öllum fjármála-snjalla-mjalla. Æ, skítt með það. Ef rafvirkinn og smiðurinn koma einhvern tímann (þeir eru alltaf á leiðinni), þá segi ég bara: Hvaða peningar? *burp*

060606 er dagurinn í dag. Veðrið í stíl. Var mér ekki kippt allt of snöggt inn í raunveruleikann í morgun? Held það bara. Er með einhvers konar timburmenn, þ.e. eftirköst gleðismiða gærdagsins. Það eru iðnaðarmenn sem ég borga með brosgrettu, jaxlabiti og einu andvarpi. Held þeim sé það ekki ofgott.

Lífið er flókið. Skil ekki baun í dag.

mánudagur, júní 05, 2006

Ég er hýr og ég er rjóð, baun er komin heim...

Komin heim, gvuðisélof. Kuldinn hér er miklu miklu þægilegri en kuldinn úti. Það fraus af mér rassinn í Tékkó. Hér koma nokkrar strípur (highlights) og vangaveltur úr ferðinni:

- Komst að því að skemmtilegasta manneskjan í ferðinni var engin önnur en Ingibjörg úr "BG og Ingibjörg" (góða nótt minn litli ljúfur).
- Bað á veitingastað um reikninginn með orðunum "Check please" (þjónninn ráðvillt en vonglatt spurningarmerki í framan).
- Herbergið á "þriggja stjörnu fjallahótelinu" minnti mig sterklega á yfirheyrsluherbergi KGB eða fangaklefa. Maður velti fyrir sér hvaðan stjörnurnar komu.
- Tékkar kunna tékknesku, rússnesku og þýsku. Ekki ensku.
- Prag er skemmtileg borg. Mig langar aftur - en þá verður að vera hlýrra.
- Ég er óveðurskráka.
- Betlarar í Prag liggja hreyfingarlausir á grúfu, í "bænastellingu". Mér fannst það óhuggulegt.
- Komst að því að lífið er mun flóknara en ég hélt. Agalegt.
- Leiðsögumaðurinn okkar var alltaf að afsaka veðrið. Leiðsögumenn hér á landi hljóta skv. þessu að hafa nóg á samviskunni.
- Borðaði á afgönskum veitingastað (afgöngskum - afgangar?), sem var skemmtilegt því ég var að lesa bókina Flugdrekahlauparinn (sem gerist a.m.l. í Afganistan). Frábær bók, Héðinn mælti með henni - takk félagi:)
- Tékkneski bjórinn er bara...bestur.

laugardagur, júní 03, 2006

I frettum er thetta helst.

Faheyrd kuldamet hafa verid slegin i Tjekklandi. Thau hofust um sama leyti og jeg steig a tjekkneska grund. Svo heppilega vill til ad jeg tok med mer 3 sumarkjola, stuttbuxur, boli, sandala og pils. Gonguferdin i fjollunum i Tjekko var thvi soldid, hvad skal segja, brrrr...

(Hefdi gefid aleiguna fyrir flispeysu og regnstakk - bjorinn kostadi tharna 30 IKR, halfs litra flaska).

Er nu i Prag. Hjer er hlyrra. Fann tolvu. Grjet af gledi. Sendi ykkur bestu kvedjur fra fallegu og vinalegu borginni thar sem Molda streymir.