þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Mamma veit ekki alltaf hvað hún syngur

Í þessari rannsókn sannast það sem mig hefur lengi grunað. Allt of margar konur hætta að trúa á jafnrétti þegar þær skilja. Þeim þykir, því miður, mörgum sjálfsagt og eðlilegt að gína yfir forræði og umgengni barna eftir skilnað. Kerfið styður síðan þetta misrétti fullum fetum.

Í mínum augum endurspeglar það eigingirni ef annað foreldrið setur sínar kröfur ofar hagsmunum barnsins. Börn eiga skýlausan rétt á umönnun beggja foreldra. Börn þrífast betur eftir skilnað, ef foreldrar standa áfram saman að uppeldinu, styðja og næra börnin eins samstiga og hægt er, þótt heimilin verði tvö. Betra er fyrir barnið að búa að tveimur ástríkum heimilum, en einu stríðshrjáðu svæði þar sem ríkja stöðugar deilur og kuldi. Foreldrar þurfa að geta talað saman um hvað barninu er fyrir bestu. Til þess að svo geti orðið getur fólk þurft að kyngja stolti, spóla sig upp úr ásökunargírnum og þiggja utanaðkomandi hjálp.
Umfjöllun mbl.is um rannsókn Stefaníu Katrínar Karlsdóttur.
Umfjöllun Rúv.

Hér er samantekt niðurstaðna úr umræddri rannsókn:
• Tengslarof barna við feður eftir skilnað er ein alvarlegasta atlaga sem unnin er á barni.
• Deilur milli foreldra um umgengni/forsjá skaða barnið, oft alvarlega og til langs tíma.
• Réttarkerfið vinnur seint og oft illa við að afgreiða mál þegar deilur eru milli foreldra um forsjá og/eða umgengni.
• Réttarkerfið og félagsþjónustan almennt virðast oft huga meira að hagsmunum mæðra en hagsmunum barna.
• Á Íslandi eru samtímis a.m.k. 500 börn sem búa við skert lífsgæði og oft alvarlega stöðu vanlíðunar og sorgar vegna deilu foreldra um umgengni og/eða forsjá og vegna tengslarofs við feður. Sérstaklega á þetta við drengi.
• Flest öll skilnaðarbörn kjósa að verja meiri tíma með feðrum sínum en þeim er leyft eða kleift að gera. 70% þeirra vilja dvelja jafnt hjá báðum foreldrum sínum og 30% sem eftir stóðu vildu eyða umtalsverðum tíma með feðrum.
• Mæður virðast geta stýrt samskiptum barna og feðra og tálmað umgengni nánast óáreittar.
• Umgengnistálmanir, illt umtal, heilaþvottur og stýring þess foreldris sem barnið býr hjá gagnvart barninu og hinu foreldrinu eru meðal verstu skaðvalda sem hægt er leggja á barnið.
• Rannsóknir sýna að sameiginleg forsjá skiptir börn mjög miklu máli. Skilnaðarbörn sem búa við sameiginlega forsjá foreldra sinna hafa betri tengsl við báða foreldra og þeim líður almennt betur og þau standa almennt betur félagaslega og námslega en ef forsjá er hjá öðru foreldrinu.
• Mikilvægt er að styrkja rétt barna til jafnrar umgengni við báða foreldra, löggjöfin þarf að taka á því og tryggja börnum þann rétt. Ójöfn umgengni eykur á vanlíðan barna (bls. 3).
Mér finnst þessi skýrsla stórmerkileg lesning, hér er annar bútur úr henni:
Sálfræðingar sem hafa reynslu af sambúðarslitum fólks telja að erfitt sé að gefa upp góða uppskrift að skilnaði af þeirri einföldu ástæðu að yfirleitt er annar aðilinn mun ósáttari við að skilja en hinn. Fyrir þann sem finnur sig yfirgefinn getur skilnaðurinn verið hin versta kreppa tilfinningalega. Skilnaðaróskin vegur að sjálfstrausti þess sem hún beinist að og hann eða hún ver sig oft með reiðiviðbrögðum. Einnig geta sprottið upp sterkar ásakanir með því að ásaka þann sem óskaði eftir skilnaðinum. Framkvæmd skilnaðar verður erfiðari ef þeim einstaklingum sem í hlut eiga gengur illa að vinna úr tilfinningum sínum og ef þeir eiga erfitt með að ræða saman. Í versta falli getur reiðin snúist upp í biturð, heift og hefndarþorsta, einkum hjá þeim sem upplifir sig yfirgefinn og stutt er í ásakanir af ýmsum toga. Stundum verður heiftin og hatrið svo mikið að viðkomandi missir stjórn og sýn á atferli sínu og hegðun. Hörð og ill barátta t.d. um börnin taka á sig ljótar myndir og allir líða fyrir slík átök, ekki síst börnin. Ef annar eða báðir aðilar sitja fastir í tilfinningakreppu er hætt við að átökin haldi áfram milli makanna fyrrverandi og að börnin séu dregin inn í ágreininginn. Rannsóknir á skilnaðarmálum sýna að þegar ofbeldi, ásakanir og tilfinningaleg oftengsl voru undanfari skilnaðar, urðu átök og ófullnægjandi tjáskipti um börnin ríkjandi á eftir. Ef biturð og neikvæð afstaða þess sem óskaði ekki eftir skilnaði verður allsráðandi eru mun minni líkur á bata og viðkomandi getur setið fastur í sálarkreppunni árum eða jafnvel áratugum saman. Einnig hefur komið í ljós ef karlmaðurinn stofnar til nýrrar sambúðar geti fyrrverandi maki (konan) brugðist neikvætt við, sérstaklega ef hún er ekki komin sjálf í nýtt samband (bls. 4).

Það er ekki skilnaðurinn sem hefur skaðlegustu áhrifin á börn. Það eru samskipti foreldranna, fyrir, eftir og í skilnaði (bls. 5).
---------
Ég er skilnaðarbarn í þeim skilningi að þjóðin er skilnaðarbarn. Mamma (Sjálfstæðisflokkurinn) er brjáluð og heimtar, bitur og reið, forræðið yfir okkur og pabba (núverandi stjórn) er ekki treyst til að sjá um okkur. Af því að "mommy knows best" og hún getur ekki séð af okkur smástund, ekki einu sinni í helgarleyfi (85 daga langt). Við, hinir almennu borgarar, lendum í því að foreldrarnir eyða öllum kröftum í að rífast, skammast, baknaga, saka aðra um allt, á meðan brýnu málin sitja á hakanum (t.d. að gera eitthvað af viti þannig að við förum ekki á hausinn öll sem eitt). Hagsmunir okkar eru fyrir borð bornir og þetta sjá allir nema foreldrarnir (flokkspólitíkusarnir) sem geta ekki litið upp úr skotgröfunum. Umhverfis litla landið okkar eru stórar þjóðir sem hrista hausinn yfir bullinu sem hérlendir ráðamenn láta frá sér í ræðu og riti.

Við komum ekki til með að fara heil út úr þessum skilnaði nema mamma og pabbi hætti að rífast og fari að huga að því hvað barninu er fyrir bestu.

Engin ummæli: