laugardagur, október 18, 2008

Sól-í-dag-norsk

Mér finnst stórundarlegt þegar menn hafa fyrirgert rétti sínum til að vera í ákveðinni stöðu en hanga samt á henni eins og hundur á roði. Hef reyndar meiri samúð með hundi á roði en þeim sem ekki þekkja sinn vitjunartíma, fara ekki þótt ljóst sé að enginn vilji hafa þá og þeir stórskemmi fyrir öðrum með þrjósku sinni og afneitun á staðreyndum. Speglar eru gagnslaust dót fyrir siðblindingja.

Fórum á mótmælafundinn á Austurvelli í dag. Það var rosalega kalt, en fallegt veður og stillt. Gott að sjá slatta af fólki þarna en skipulag mótmælanna hefði mátt vera betra, þótt ég sé mjög þakklát fyrir að einhver skuli hafa döngun í sér að skipuleggja vettvang fyrir þögla meirihlutann, svo hann geti sýnt hug sinn í verki og samstöðu. Mér finnst að sleppa megi tónlistaratriðum (nema þau séu framúrskarandi inspírerandi), hafa frekar stuttar snarpar tölur, sem stappa stálinu í fólk.

Ég er almennt hrifin af málflutningi Þorvalds Gylfasonar en skíthrædd við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem hann virðist telja góðan kost. Mikið vildi ég heldur að Norðmenn ættleiddu okkur, við fengjum að kúra í fangi þeirra og hringla með norskar krónur. Að Noregur stóribróðir mundi passa litlu frekjudolluna Ísland og leyfa henni að þroskast.

Auk þess langar mig að nefna að Björgvin G. Sigurðsson minnir mig býsna mikið á Steingrím Hermannsson. Veit ekki hvort það er gott eða slæmt.

Engin ummæli: