sunnudagur, október 26, 2008

Húsmæðraherðing

Nýkomin úr húsmæðraorlofi með fjórum fræknum skólasystrum úr MK (MK var ósköp venjulegur menntaskóli áður en hann lenti í matvælabölinu).

Það bar helst til tíðinda að við lögðum allnokkuð á okkur til að komast í heita pottinn sem vildi ekki heita heiti pottur og var bara kaldi pottur. Við ösluðum yfir snjóbunka og stungumst gargandi oní pottinn með húfur, trefla og vettlinga. Loðfóðruð sundföt hefðu komið sér vel. Í pottinum skulfum við í takt þar til þrjóskan bráði af okkur og við gáfumst upp fyrir nístingsköldu veðri og vanmætti gagnvart tækninni.

Vandamálið var nefnilega að stjórnstöð heita pottsins var eins og stjórnborð vondakallsins í Bond mynd. Þúsund takkar og milljón ljós. Hver finnur eiginlega upp á svona flóknum heitupottum í sumarbústað? Herra Bjáni, segi ég.

Þetta var fjör og vinkonur mínar eru dásamlegar konur sem ég mundi treysta fyrir stjórn landsins, hiklaust. Ef það eru ekki of margir takkar í því dippidútti.

Engin ummæli: