þriðjudagur, maí 31, 2005
mánudagur, maí 30, 2005
Ég er ekki að segja..
að við höfum gengið of langt í "þrifnaðaráætlun ferming", en... Í vinnunni í morgun blikkaði félagsráðgjafinn mig (ekki efnafræðingurinn, heldur góðleg kona á sextugsaldri) og dró mig afsíðis. "Ég er með stöffið", sagði hún, og rétti mér eiturgrænan dunk sem gutlaði í. Þegar ég kom heim, með fiðring í maganum, bar ég efnið á baðkerið, sem er í ýmsum litatónum eftir langa og dygga þjónustu. Eftir örskamma stund þurftum við að grípa til "viðbúnaðarstigs appelsínugulur" sem felst í því að allir flýja heimilið, hratt og fumlaust í einbreiðri röð. Dverghamstur og stofublóm urðu eftir (þetta var svokölluð forgangsröð). Núna, sem ég skrifa þetta, eru allar dyr og allir gluggar upp á gátt og ég þori varla að gá hvort baðkerið er enn á sínum stað.
sunnudagur, maí 29, 2005
Búin að skrifa lista...
og afhenda kallinum. Hann er kominn í sumarfrí þessi elska. Lætur sig dreyma um að slappa af á morgnana með kaffibolla, fara í ræktina, koma svo heim og slappa af yfir kaffibolla og tölvugrúski. Ég sossum skil hann vel. Sjáum hvað setur.
Eitt af því sem er á listanum ógurlega er að koma drengjunum okkar í klippingu. Það er ekki auðvelt verk. En hann er seigur kallinn. Galdurinn í öllu uppeldi er að vera aðeins þrjóskari en afkvæmin.
Eitt af því sem er á listanum ógurlega er að koma drengjunum okkar í klippingu. Það er ekki auðvelt verk. En hann er seigur kallinn. Galdurinn í öllu uppeldi er að vera aðeins þrjóskari en afkvæmin.
laugardagur, maí 28, 2005
Hvílík sæla...
að potast í mold - var ég kannski ánamaðkur í fyrra lífi? Búin að kaupa helling af blómum og gróðursetja í allan dag. Það er svoooo gaman. Ótrúlegt að sjá þennan kraft og seiglu í gróðrinum, ár eftir ár. Lífið er undravert:-)
föstudagur, maí 27, 2005
Ertu forvitin/n?
Ertu hnýsin/n? Ertu með nefið oní hvers manns koppi? Ef svo er þá hefur þú vafalaust kíkt í skúffurnar...kanntu ekki að skammast þín?
miðvikudagur, maí 25, 2005
Mætti halda...
að ég væri alltaf að þrífa miðað við mörg bloggin hér. Þetta er misskilningur, ég hneigist því miður lítt til skúringa. Napur sannleikurinn er sá að ég er komin með fermingarveikina. Það er ekki ljótara en það (eins og afi minn sagði alltaf).
þriðjudagur, maí 24, 2005
101 húsráð...
fékk ég á kaffistofunni í dag þegar ég reifaði misheppnaðar tilraunir mínar um helgina við að ná stálvaski hreinum og glansandi. Samstarfsfólk mitt er fádæma ráðagott og leysir hvers manns vanda. Félagsráðgjafinn breyttist í efnafræðing á svipstundu og taldi upp ótal efni til að pússa stál þannig að það glitraði sem demantur á eftir. Efni þau sem hann nefndi eru til á hverju heimili. Ekki kæmi mér á óvart þótt félagsráðgjafi þessi gæti búið til sprengju úr púðursykri, kertavaxi og gúmmíhanska.
laugardagur, maí 21, 2005
Það var alveg frábær..
þáttur á Rás 1 í morgun, afar fróðlegur. Þátturinn hét "það er leikur að ...lesa". Margt spaklegt þar á ferð (þið getið heyrt hann á netinu).
Hélt með Ísrael í Júróvisjón. Fannst stúlkan sú syngja fádæma vel, vera geðug og barmafull af list. Aðrir í fjölskyldunni héldu með Noregi. Fannst Grikkland ekkert með sérstakt lag - hef greinilega ekki rétt vit á mússíkk. Amman frá Moldóvíu var næst sætust í keppninni og lagið sem ég fékk á heilann var frá Rúmeníu (let me try, let me try..).
Þá vitið þið það og segið svo bara að ég segi ykkur aldrei neitt merkilegt.
Hélt með Ísrael í Júróvisjón. Fannst stúlkan sú syngja fádæma vel, vera geðug og barmafull af list. Aðrir í fjölskyldunni héldu með Noregi. Fannst Grikkland ekkert með sérstakt lag - hef greinilega ekki rétt vit á mússíkk. Amman frá Moldóvíu var næst sætust í keppninni og lagið sem ég fékk á heilann var frá Rúmeníu (let me try, let me try..).
Þá vitið þið það og segið svo bara að ég segi ykkur aldrei neitt merkilegt.
föstudagur, maí 20, 2005
Hrmphff...
spæling. Þið vitið alveg hvað ég er að tala um. Örugglega rauða náttgallanum að kenna.
Sumt fólk er yndislegra en annað. Var að tala við samverkamann minn í rannsókn einni ágætri sem fjallar um lestrarvenjur fullorðins fólks. Kom til hans tætt og með heilan herðakistil fullan af samviskubiti og annarri lífsins steypu. Samverkamaður minn losaði gætilega hvert lagið af öðru utan af mér (andleg lög skiljiði, ekki fá neinar hugmyndir) og eftir klukkutíma fund með honum var ég næstum laus við herðakistilinn. Mister G. er bara dásamlegur maður - það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann hafi kvenmannsvit, svei mér þá.
Sumt fólk er yndislegra en annað. Var að tala við samverkamann minn í rannsókn einni ágætri sem fjallar um lestrarvenjur fullorðins fólks. Kom til hans tætt og með heilan herðakistil fullan af samviskubiti og annarri lífsins steypu. Samverkamaður minn losaði gætilega hvert lagið af öðru utan af mér (andleg lög skiljiði, ekki fá neinar hugmyndir) og eftir klukkutíma fund með honum var ég næstum laus við herðakistilinn. Mister G. er bara dásamlegur maður - það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann hafi kvenmannsvit, svei mér þá.
miðvikudagur, maí 18, 2005
Með axlirnar í eyrunum...
öran hjartslátt, voða gleymin, ýmist sljó eða æst og eitthvað ómöguleg. Halló, þetta er ég. Stressbúnt. Vinnan er að buga mig. Einhver góð ráð? Svo er kallinn alltaf að vinna og lítið gagn í honum heima við. Skrambinn sjálfur. Hjálp!
sunnudagur, maí 15, 2005
laugardagur, maí 14, 2005
Sorpa...
er himneskur staður, staðgengill skriftastóls í kaþólsku. Maður kemur í Sorpu drekkhlaðinn dóti, þungstígur, samviskubitinn, álútur. Svo er bara - halelúja - gámur fyrir hvert item - allt þetta drasl sem lengi vel nartaði í sálu þína. Staður fyrir góðar fyrirætlanir sem runnu út í sandinn - sá þreytulegan mann hefja þrekhjól upp fyrir ístruna og kasta því í Rauða kross gám. Voru þetta brosviprur á andliti hans eða áreynslugretta? Er ekki viss. Í Sorpu er staður fyrir hjól sem ryðguðu úti í vetur, af því að eigendurnir nenntu ekki að fara með þau inn í skúr, og hver lítill ryðblettur hlóðst utan á samviskuna og þyngdi. Uppþvottavélin ruddist með látum ofan í ginnungagap, að fengnu leyfi hjá mildilegum staðarhaldaranum sem var ekki í hempu, heldur skítugum bláum samfestingi. Fernur í litla gáminn, skór í tunnu; 10 tonn af dagblöðum - sprilljón orð - hurfu í risavaxinn bláan kjaft. Og 15 tonn af fötum. Veit ekki hversu mikinn greiða maður gerir þriðja heiminum með því að sturta á hann öllu þessu gamla flísi. Föt fyrir fátæka fólkið eru léttvæg yfirbót þegar maður er dauðfeginn að losna við þau. En hver veit, kannski á við hálfa Maríubæn?
Svo sest maður upp í bílinn. Léttur, hress, búinn að losa. Tilbúinn að takast á við þaulæft hlutverk neytandans á ný - og fylla allt af nauðsynjum og sjálfsögðum hlutum.
Svo sest maður upp í bílinn. Léttur, hress, búinn að losa. Tilbúinn að takast á við þaulæft hlutverk neytandans á ný - og fylla allt af nauðsynjum og sjálfsögðum hlutum.
föstudagur, maí 13, 2005
Föstudagar...
eru súkkulaði, snúningar, gæðakaffi, búðaráp, jarðarber, eðalvín og allt gott. Mér er alveg sama þótt það sé 13. í dag. Föstudagar eru góðir dagar. Og laugardagar líka. Ahh...helgin framundan.
miðvikudagur, maí 11, 2005
Hjalti sonur minn...
segir mér oft brandara. Ætla að deila með ykkur tveimur.
Vantrúaður viðskiptavinur: Er satt að hárið vaxi hraðar ef þetta meðal er notað?
Sölumaður: Já, því máttu trúa! Í gær missti konan mín nokkra dropa af því á varalitinn sinn og í morgun gat hún burstað í sér tennurnar með honum.
Hefurðu heyrt um vitleysinginn sem gengur um allt og segir nei?
Nei.
Nú, ert það þú?
Vantrúaður viðskiptavinur: Er satt að hárið vaxi hraðar ef þetta meðal er notað?
Sölumaður: Já, því máttu trúa! Í gær missti konan mín nokkra dropa af því á varalitinn sinn og í morgun gat hún burstað í sér tennurnar með honum.
Hefurðu heyrt um vitleysinginn sem gengur um allt og segir nei?
Nei.
Nú, ert það þú?
þriðjudagur, maí 10, 2005
mánudagur, maí 09, 2005
Jakkaföt...
og fermingaraldurinn, hmmm...veit ekki alveg hversu góð fjárfesting jakkaföt á fermingardreng megi teljast. Ein sölukonan reyndi að pranga inn á mig jakkafötum sem kostuðu á fimmta tuginn, m.a. með því að benda á að þau væru "úr svo sterku og góðu efni". Held nú að flestir fermingardrengir vaxi svo hratt upp úr sínum jakkafötum að þau endist varla út vikuna.
Mæli með myndinni Hitchhiker´s guide to the Galaxy. Fórum í gærkvöldi með drengina í Háskólabíó - skemmtum okkur öll konunglega enda stendur myndin vel undir væntingum. Verð að fá að nöldra aðeins yfir bíógestum sem tala rosalega hátt, eins og allir í húsinu þurfi að ná hverju einasta orði. Og fólk sem svarar hátt og snjallt í farsímann sinn, í miðri mynd, er nú bara ekki í lagi. Af hverju haga sumir sér eins og fávitar?
Mæli með myndinni Hitchhiker´s guide to the Galaxy. Fórum í gærkvöldi með drengina í Háskólabíó - skemmtum okkur öll konunglega enda stendur myndin vel undir væntingum. Verð að fá að nöldra aðeins yfir bíógestum sem tala rosalega hátt, eins og allir í húsinu þurfi að ná hverju einasta orði. Og fólk sem svarar hátt og snjallt í farsímann sinn, í miðri mynd, er nú bara ekki í lagi. Af hverju haga sumir sér eins og fávitar?
laugardagur, maí 07, 2005
6.B
hélt upp á 30 ára útskriftarafmæli sitt úr barnaskóla, reyndar ári á eftir áætlun. Undarlegt var að sjá andlitin aftur, sum hafði ég ekki séð í 30 ár. Þekkti samt alla, nema Guðmund, sem var ekki Guðmundur heldur einhver Finni sem prakkari bekkjarins hafði smyglað inn á samkunduna. Ég fattaði ekki að þarna væri maður að villa á sér heimildir fyrr en hann stóð upp (allir áttu að kynna sig) og söng lítið lag á finnsku.
Kópavogsskóli virðist þarna hafa alið af sér óvenju venjulegt fólk. Enginn hefur skarað fram úr, orðið frægur, lent á forsíðu DV eða í fangelsi; enginn hommi, enginn rosa feitur og engin lesbía. Allir ósköp indælir og litu bara vel út. Flestir eiga 2-3 börn og hafa haldið sig við sama makann í um 20 ár. Tveir eða þrír höfðu lent í baráttu við Bakkus og voru á snúrunni og má segja að það hafi verið það æsilegasta (fyrir utan gaurinn sem var útfararstjóri, smá stíll yfir því). Einhver gæti ímyndað sér að þetta hafi verið fremur dauf samkoma. Það er skoðun út af fyrir sig. Ég held reyndar að heimurinn væri síst verri þótt í honum væru fleiri 6.Bjéar. Alla vega fæ ég ekki séð að aðalvandi heimsins stafi af offjölgun indælisfólks.
Kópavogsskóli virðist þarna hafa alið af sér óvenju venjulegt fólk. Enginn hefur skarað fram úr, orðið frægur, lent á forsíðu DV eða í fangelsi; enginn hommi, enginn rosa feitur og engin lesbía. Allir ósköp indælir og litu bara vel út. Flestir eiga 2-3 börn og hafa haldið sig við sama makann í um 20 ár. Tveir eða þrír höfðu lent í baráttu við Bakkus og voru á snúrunni og má segja að það hafi verið það æsilegasta (fyrir utan gaurinn sem var útfararstjóri, smá stíll yfir því). Einhver gæti ímyndað sér að þetta hafi verið fremur dauf samkoma. Það er skoðun út af fyrir sig. Ég held reyndar að heimurinn væri síst verri þótt í honum væru fleiri 6.Bjéar. Alla vega fæ ég ekki séð að aðalvandi heimsins stafi af offjölgun indælisfólks.
fimmtudagur, maí 05, 2005
Vorum að fá okkur..
nýja vinnukonu. Hún er þénug, hljóðlát, vaskar upp og möglar ei. Fyrirmyndar uppþvottavél.
Í gær fór ég í vorferð með vinnufélögum mínum. Vinn með hreint ótrúlega skemmtilegu fólki og ekki hægt að láta sér leiðast með því. Gamalt þúfnagöngulag tók sig upp í kargaþýfi og mýri. Vakti upp í mér tröllskessuna, sem aldrei sefur fast þegar ég fer út í náttúruna - hlæ framan í vindinn, arka stórstíg og finnst ég geta allt. Náttúran er máttug og gerir stundum lítið úr okkur krílunum en hún gefur okkur líka kraft, þor og seiglu. Náttúran er undursamleg. Þeir sem hafa látið malbika í sér sálina komast kannski hratt en hvert eru þeir að fara? Held að lífið snúist frekar um njóta ferðalagsins.
Í gær fór ég í vorferð með vinnufélögum mínum. Vinn með hreint ótrúlega skemmtilegu fólki og ekki hægt að láta sér leiðast með því. Gamalt þúfnagöngulag tók sig upp í kargaþýfi og mýri. Vakti upp í mér tröllskessuna, sem aldrei sefur fast þegar ég fer út í náttúruna - hlæ framan í vindinn, arka stórstíg og finnst ég geta allt. Náttúran er máttug og gerir stundum lítið úr okkur krílunum en hún gefur okkur líka kraft, þor og seiglu. Náttúran er undursamleg. Þeir sem hafa látið malbika í sér sálina komast kannski hratt en hvert eru þeir að fara? Held að lífið snúist frekar um njóta ferðalagsins.
þriðjudagur, maí 03, 2005
Vaðandi snilld.
Kannski er þetta grái fiðringurinn. Ég er algerlega dottin í Clint Eastwood - maðurinn er óviðjafnanlegur sem Dirty Harry, svei mér þá, mmjaáá... Fyrir ykkur, kæru lesendur, fleiri tilvitnanir í goðið:
I tried being reasonable. I didn't like it.
If you want a guarantee, buy a toaster.
Go ahead, make my day.
I tried being reasonable. I didn't like it.
If you want a guarantee, buy a toaster.
Go ahead, make my day.
mánudagur, maí 02, 2005
Ég les...
oft blogg hjá gamalmenni sem gengur undir mörgum nöfnum, þ.m.t. "vísnaglaði vinnufélaginn". Hann er dularfull persóna, eða persónur, skyldi maður segja. Vinnufélagi þessi er haldinn sjaldgæfri persónuröskun sem nefnist "multiple personality disorder" (skv. áreiðanlegri greiningu löggilts talmeinafræðings). Röskun þessi brýst fram í ritstörfum mannsins og er á tíðum sérkennilegt að lesa hugverk hans. Þau eru gríðarmikil að umfangi (enda í raun margir höfundar sem stýra þessum líffræðilega tíu fingrum) og margvísleg að innihaldi, en það stafar af því að hann er margbrotinn persónuleiki. Ein persóna hans, og sú geðþekkasta verð ég að segja, heitir Skammkell. Skammkell er notaleg týpa, en það virðist fara eitthvað í taugarnar á nokkrum hinna karakteranna sem í manninum búa (trúlega öfund). Ég tek því hér upp hanskann fyrir Skammkel og bið hann vel að lifa. Hann er velkominn með sinn fagurgala á mitt blogg.
Einlægni er ofmetin
uni best við hrós
skilur þetta Skammkellinn
skjallar hverja drós.
Síðan set ég hér inn tilvitnun fyrir son minn, hinn viðkvæma frímerkjasafnara, píanóleikara, skákmeistara og fyrrum skylmingamann, Matthías. Það þarf varla að taka fram að fyrirmynd okkar beggja í lífinu er Clint Eastwood i gervi hins ofursvala Dirty Harry:
I know what you're thinking, punk. You're thinking, did he fire six shots or only five? Well to tell you the truth, I forgot myself in all this excitement. But being as this is a .44 Magnum, the most powerful handgun in the world and will blow your head clean off, you've got to ask yourself a question: do I feel lucky? Well do ya, punk?
Einlægni er ofmetin
uni best við hrós
skilur þetta Skammkellinn
skjallar hverja drós.
Síðan set ég hér inn tilvitnun fyrir son minn, hinn viðkvæma frímerkjasafnara, píanóleikara, skákmeistara og fyrrum skylmingamann, Matthías. Það þarf varla að taka fram að fyrirmynd okkar beggja í lífinu er Clint Eastwood i gervi hins ofursvala Dirty Harry:
I know what you're thinking, punk. You're thinking, did he fire six shots or only five? Well to tell you the truth, I forgot myself in all this excitement. But being as this is a .44 Magnum, the most powerful handgun in the world and will blow your head clean off, you've got to ask yourself a question: do I feel lucky? Well do ya, punk?
sunnudagur, maí 01, 2005
Kaffi..
er magnaður drykkur - og gott kaffi er gott (vont kaffi er vont). Mæli með Selebes baunum frá Kaffitári, malið sjálf og hellið uppá. Ahhh...dásamlegt. Bræður mínir og systur: hættið að drekka náskol - drekkið bara gott kaffi, sterkt og hressandi. Setjið gæði ofar magni. Og gleðilegan baráttudag verkalýðsins.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)