sunnudagur, september 14, 2008

Sushi, Gollum, listería, hystería

Mér finnst sushi sérlega gott og gaman að búa það til. Yfirleitt þykir mér hrár fiskur gómsætur, t.d. skelfiskur, lúða, lax og silungur. Þetta barst í tal um daginn á kaffistofunni í vinnunni, þar sem ég sat og rabbaði við samstarfskonu mína, sem er læknir. Hún gretti sig svolítið yfir þessum matarvenjum mínum og sagðist aldrei borða sushi sjálf nema fiskurinn í því hefði verið frystur. Sagði hráan fisk (nefndi sérstaklega lax) geta borið í sér stórhættulega bakteríu sem heitir listería.

Nú er það ekki svo að ég sitji á árbakkanum og rífi af offorsi í mig hráan fisk eins og Gollum, en hef hingað til borðað ósoðinn fisk óhrædd, m.a.s. á erlendri grund (það voru ostrur í London, mikið assgoti var það nú skemmtilegt).

Ég gúgglaði sushi og listeríu út og suður, en sú leit skilaði litlu bitastæðu efni. Reyndar sá ég víða að óléttum konum er ráðið frá því að borða hráan fisk, en ég þarf nú ekki að hafa áhyggjur af því.

En æ, hvað allt getur verið hættulegt. Best að fá sér soðna ýsu stappaða með tómatsósu og kartöflum. Eða kjötsúpu.

Engin ummæli: