mánudagur, september 29, 2008

Ég á ekki krónu en langar í öxi

Þessi dagur er búinn að vera hreint agalegur. Samt á ég ekki einu sinni hlutabréf í Glitni, nema jú þetta sem Davíð gaf mér í morgun. Menn eru reiðir og æstir og tala eins og þeir séu til í að taka lán fyrir lítið notaðri fallöxi og gera lukkuriddarana, sem gömbluðu með annarra fé og töpuðu, höfðinu styttri. Úr munni dagfarsprúðasta fólks streyma gremjulegar lýsingar á sukki og svínaríi útrásaróskabarnanna fyrrverandi og maður fær blóðbragð í munninn og kyrjar með: Til helvítis með gráðugu svínin! Lán okkar eymingjanna tútna út í verðbólgunni, færast hratt og örugglega að því marki að maður sitji uppi með miklu hærri skuld en sem nemur verðgildi eignarinnar. Ömurlegt að "góðærið" skyldi fljúga hjá án þess að skíta á mig einu sparði. Djöfulsins djöfull!

Í dag öðlaðist ég skilning á frönsku byltingunni.

Sé fyrir mér aukna spurn eftir þjónustu handrukkara á næstunni, því eins og einn úr þeirri stétt mælti við vesældarlegan rukkþega í Kompásþætti um daginn: "Sko, þúst, það eru lög og reglur í landinu."

Auk þess lýsi ég yfir þungum áhyggjum af því hversu mjög skilnuðum fjölgar í kreppunni, þ.e. skilnuðum vegna fjárhagsvanda. Veit þetta fólk ekki hvað er hrikalega dýrt að skilja? Það veit ég, maður lifandi.

Fugl dagsins er steypa.

Engin ummæli: