föstudagur, september 12, 2008

Sló um mig og forskalaðist*

Endaði vinnudaginn í gær á því að fara í litla fjallgöngu með starfsmannaleikfiminni. Var sprellspræk og trítlaði þessar tiltölulega létt troðnu slóðir (afsakið, ruddist hér inn tungubrjótur) í blankskóm, gallabuxum og skyrtu. Skutlaði síðan samstarfskonu í Túnin og þremur dauðum löxum yfir í annað bæjarfélag og var þá farin að hríðskjálfa úr kulda.

Ekki þarf að orðlengja frekar afleiðingar þessara svalheita. Yfir mig helltist snarlega haustkvef svo svæsið að slím spýtist út um öll göt á höfði.

Sauð upp á fjallagrösum áðan og mallaði grasamjólk. Sit nú og sýp úr kisubollanum mínum, sannfærð um að mér batni fljótt og vel. Aaahhh....hvað mjólk er góð....tsjú!

*ef ég man rétt er lokalínan úr Sódómu Reykjavík einhvern veginn svona: Láttu ekki slá um þig, þú gætir forskalast.

Engin ummæli: