mánudagur, september 01, 2008

Baunarháttur og hökuvandræði

Langar að nota tækifærið og óska sjálfri mér til hamingju með nýjan bragarhátt sem nefnist "baunarháttur". Gísli málbein er höfundur þessa þénuga ljóðforms og spái ég því rífandi fylgi í framtíðinni (hvar annars staðar?).

Hér er tekið ljóðsýni úr Gísla:
Baunarháttur
Af mér skola allan daun
aðstoðina fala
skrúbba mætti bakið baun

í bala.

Ljóðelskum lesendum er bent á halann við síðustu færslu til að njóta fegurðar tungumálsins. Baun þakkar klökk fyrir góða þátttöku og mun aldrei útiloka blanka, bilaða eða gulklædda frá lympíuleikunum sínum.

Verðlaunaskáld leikanna kýs að halda nafni sínu leyndu, vegna annríkis við rímæfingar, bragþjálfun og ljóðstafagerð.

Talandi um hökur. Ég er oft svolítið aum í álkunni, rauð og jafnvel rispuð. Þetta er auðvitað feimnismál en af mínu alkunna taktleysi læt ég vaða. Þannig er, kæri póstur, að hann Hjálmar minn er karlmaður í húð og hár, með tilheyrandi skeggrót. Stálsleginni. Á að giska fimm mínútum eftir að hann rakar sig eru komnir nýir broddar. Mér hefur dottið ýmislegt í hug, svo forðast megi eyðileggingu þeirrar þjóðargersemi sem andlitið á mér er. Til dæmis þetta:
  • Hætta að kyssa kærastann (fyrr frýs í helvíti)
  • Láta mig hafa það, safna siggi og fá höku eins og Jay Leno
  • Tannlæknadúkur. Hvar fæ ég svoleiðis?
Þigg allar ábendingar með þökkum. Ekki mun af veita.

Engin ummæli: