laugardagur, september 27, 2008

Ásta


Í dag eru 24 ár síðan ég puðaði við að koma frumburði mínum í heiminn. Þá var ég ung og vitlaus, yngri en dóttir mín er núna og miklu vitlausari en hún hefur nokkurn tímann verið. Man að ég horfði á barnið nýfætt og hugsaði: Hver er þetta? Hún var lögð í fangið á mér, þung, heit og mjúk, bláókunnug. Man að mér þótti miður að finna ekki undir eins fyrir bullandi móðurtilfinningum eins og ég hafði lesið um í bókum, og ég var undrandi. Undrandi yfir að hafa fætt barn sem ég þekkti ekki neitt.

Nær aldarfjórðungi síðar þekki ég þessa mannveru betur en flesta og víst er að ég elska hana. Skilyrðislaust. Ekkert í þessum heimi skiptir mig meira máli en hamingja barna minna.

Þegar Ásta var kríli og bjó í Amríku, vildi hún alloft láta syngja fyrir sig og féll það iðulega í minn hlut vegna tónfötlunar föður hennar. Ég hef aðeins samið eitt lag um ævina, og var það við vísukorn í bók sem henni fannst skemmtileg. Mamman í bókinni hélt nefnilega áfram að vilja syngja fyrir strákinn sinn þótt hann yxi úr grasi og yrði virðulegur kall.

I´ll love you forever
I´ll like you for always
as long as I´m living
my baby you´ll be.

Engin ummæli: