
Ef ég væri athafnaskáld..

Ef ég væri nógu mikil tík...
En ég er bara baun.
Hér er bráðfyndin síða sem hann Hjálmar gróf upp. Óborganlegur þessi amöríski fílingur.

Mér finnst að allar hárgreiðslustofur ættu að hafa forrit í þessa veru, þá gæfist tækifæri til að skoða hvernig mismunandi hárgreiðslur klæði mann, svona áður en skærin segja snippsnipp og maður þarf að fara út á götu með hauspoka.
Ásta mín yndisleg klukkaði mig og ætla ég ekkert að gera með það annað en greina frá því að ég er keðju-keðjuslítari. Hef slitið keðjur frá því ég var fóstur, segja má að mér haldi engar keðjur fremur en Húdíni, tala nú ekki um þessar fjárans búðakeðjur. Þegar litli bróðir minn var í alvörunni lítill hafði hann gjarnan þennan brandara á hraðbergi: Viltu veðja? Kúkur og keðja. Ég er ekki að reyna að vera gáfuleg, það gerist ósjálfrátt.
Auk þess legg ég til að Árni Johnsen verði gerður að forstjóra hins nýja Tónlistarhúss og risastór arnarkló hengd í austurhluta byggingarinnar.
Nei, í raun og veru ekki. En ég öfunda fólk sem heldur haus í erfiðum aðstæðum. Þegar ég verð reið puðrast eitthvað samhengislaust og bjánalegt út úr mér og svo, klukkan allt of andskoti seint, fyllist höfuð mitt af smellnum tilsvörum sem hefðu rústað andstæðingnum. Orðheppni ágæt, tímasetning vonlaus.
Get ekki látið það spyrjast um mig að farast með heiminum á morgun án þess að vera búin að yrkja fernuljóð.
Þó að ég hafi oft borðað skessujurt, hafði ég ekki lesið mér almennilega til um þessa ágætu plöntu. Vissi bara að mér fannst hún góð og vonaði þar af leiðandi að hún væri æt. Til er margvíslegur fróðleikur um skessujurt, m.a. er fullyrt að hún sé "karllæg jurt" og "veki karlmönnum losta". Merkisplanta.Venusvagn (ljóshjálmur, bláhjálmur)
Pfft, glætan að ég smakki venusvagn.
Þigg allar ábendingar með þökkum. Ekki mun af veita.