föstudagur, nóvember 30, 2007
Hinir handleggjalengstu ná lengst
Lýsi eftir heilbrigðri skynsemi í hönnun húsnæðis á Íslandi.
Auk þess legg ég til að hönnuðir og arkitektar verði skyldaðir til að skíta á hverju því klósetti sem þeir hanna fyrir okkur meðal-liðuga fólkið.
þriðjudagur, nóvember 27, 2007
Kjöltur
Vinnufélagi minn, hann Dóri, á súkkulaðibrúna labradortík sem gaut 12 hvolpum á föstudaginn, 10 lifðu. Hann hefur ekki látið sjá sig í vinnunni síðan og er ekki væntanlegur í bráð, enda hefur hann kappnóg að gera heima við að sinna tíkinni Sölku og litlu súkkulaðimolunum. Okkur samstarfsfólkinu þykir eðlilegt að Dóri fái hvolpaorlof, spurning hvað gæti talist eðlileg orlofslengd þegar tugur afkvæma bætist á einu bretti við það sem fyrir er. Og hvað eru eiginlega margir spenar á einni tík?
Mér skilst að í Danmörku fái menn sérstakar bætur ef þeir eiga hund. Skýrir kannski af hverju ég sá svona marga lausa hunda í Christianiu um daginn.
Segi ekki meira bofs í bili.
sunnudagur, nóvember 25, 2007
Sumir á sumir á sumir á....rauðum skóm
Fannst líka töff að heyra hana taka Leoncie lag, vona bara að Ragnheiður lendi ekki í einhverjum koppíræt leiðindum af þeim sökum. Ragnheiður er svo flink söngkona að lagið Ást á pöbbnum varð bara....næstum gott. Textinn klassík og væri auðvitað rakinn þjóðsöngur Kópavogs.
Hún hitti hann á pöbb eitt kvöld
á country pub í Reykjavík
hún starði á hann mjög ákveðin
hann glápti á móti dauðadrukkinn
hún kinkaði kolli og blikkaði hann
hann var dáleiddur af allan vodkann
hann fór til hennar og sagði
hvar hann var frá.
Hún sagði "veistu hvað?"
við höfum sameiginlegt
því við komum bæði frá Kópavogi.
Ást á pöbbnum,
þau féllust í ást á pöbbnum.
Nú grætur hann -
hann átti að kynnast henni fyrst
hún eyðir öllu hans fé.
Hann sparar ekki neitt.
Hann vildi kaupa hús
en hann á varla fyrir ölkrús.....
Auk þess langar mig í rauða skó. Langar alltaf í rauða skó. Hvað er þetta með rauða skó eiginlega?
laugardagur, nóvember 24, 2007
Tíminn og baunin
Matti minn er að læra á bíl. Það fyllir mig bæði kvíða og stolti, svo einkennilegur þessi sæti tregi sem fylgir því að sjá börnin vaxa úr grasi. Ég á eitt barn í háskóla, eitt í menntaskóla og eitt í grunnskóla. Tíminn er blekking. Börn eru raunveruleg. Maður blikkar auga og barnið er farið að ganga...í háskóla.
Einu sinni heyrði ég að sumir þjóðflokkar líti á liðna tíð, fortíðina, svipað og land sem liggur fyrir framan þá, því þeir sjá fortíðina, þekkja hana. Framtíðin er það sem þeir sjá ekki og er því fyrir aftan þá. Við Vesturlandabúar tölum um liðna tíð að baki, eitthvað sem er fyrir aftan okkur. Fyrir framan okkur er fram-tíðin og við göngum í átt til hennar, lítum dálítið á tímann eins og veg sem við göngum eftir. Framtíðin er okkur auðvitað hulin, en þangað þrömmum við. Þekkjum fortíðina en hún er að baki. Best ættum við að þekkja núið.
Nú er ég að verða svo syfjuð. Ætla að henda inn þremur tilvitnunum. Það lá að, einhver pælt í tímanum á undan mér. Hei, ef hann var á undan mér ætti hann þá ekki að vera fyrir framan mig? Hmmm....þá passar vegalíkingin ekki, fortíðin er að baki ekki fyrir framan. Æ, já. *geisp*
God made the world round so we would never be able to see too far down the road. Isak Dinesen.
I look to the future because that´s where I am going to spend the rest of my life. George Burns.
Time flies like an arrow. Fruit flies like a banana. Groucho Marx.
fimmtudagur, nóvember 22, 2007
Bókmenntaþáttur baunar
Að öðrum litteratúr. Þetta "viðvörunarbréf" fer nú um netið sem eldur í sinu. Í því stendur:
Undir þetta skrifar "Guðmundur Rúnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður". Hvað er eiginlega á ferli þarna? Nýr jólasveinn, Dóprúlluskelmir? Eiga nú allir að bera á sér eigin klósettrúllur í jólaösinni?
Ef þetta varðaði almannahagsmuni, svona í alvörunni, þyrfti þá ekki að upplýsa almenning með formlegri hætti en tilviljanakenndum netpósti? Sjálf tek ég ekkert mark á svona sendingum, set þær í sama pott og keðjubréf og vafasöm tilboð, delít delít delít.
Þakka þeim sem hlýddu.
miðvikudagur, nóvember 21, 2007
Av persónligum grundum
Drattaðist annars nýlent á nemendatónleika þar sem Matti minn tróð upp með miklum ágætum. Eitt fannst mér skondið í dagskránni, það var Hava Nagila, sem er hið margslungna og margsungna lag æskunnar Havannakýla, steikjandi fýla. Prýðilegt að heyra það spilað fjórhent á píanó.
Meira af tónlist. Í Köben fór ég á stórkostlega tónleika með Eivör og færeyskum strákgutta sem er ekkert að biðjast afsökunar á sjálfum sér, enda ástæðulaust. Hann heitir Budam.
Hér má lesa um þessa tónleika, finnst færeyska skemmtilegasta mál í heimi:
mánudagur, nóvember 19, 2007
Bauna(r)land
Örfáar niðurstöður rannsókna minna:
- Í Kaupmannahöfn eru Íslendingar við hvert fótmál. Örugglega þjóðsaga að við séum bara 300 þúsund.
- Látlaust ríkidæmi, smekkleg hönnun og djúpur skilningur á holdlegum þörfum mannsins finnast mér áberandi einkenni á danskri þjóð. Þeir gera ráð fyrir því að fólk þurfi að hvíla sig, borða og drekka, stunda kynlíf og losa sig við úrgang. Ekki þó endilega samtímis.
- Jólabruggið frá Tuborg er gott.
- Danskur matur er óviðjafnanlegur, ef þetta er "danski kúrinn" þá bara setjið mig á hann enítæm.
- Heitar ristaðar möndlur eru guðdómlegar.
- Að upplifa borg með staðkunnugum er allt annað og skemmtilegra en að ráfa um, villast, ganga sig upp að hnjám og lenda hvað eftir annað í ógöngum. Það finnst mér að minnsta kosti, þótt ráðvillan geti reyndar haft sinn sjarma, svona ef maður lifir hana af.
fimmtudagur, nóvember 15, 2007
Sjarmi þótt hann jarmi
Það situr maður á móti mér með opna Sudoku bók, hann horfir stíft á eina síðuna en hefur ekki skrifað staf í hálftíma. Mér sýnast áhyggjuhrukkur mannsins nálgast hættumörk. Finnst ákveðið öryggi í því að hafa lært endurlífgun, svo ég geti brugðist rétt við ef þetta talnasprell með japanska nafnið veldur manninum hastarlegu heilsutjóni.
Svo langar mig, í fullkomnu tilgangsleysi, að greina frá því að í gær tók ég í fóstur lítinn bangsa með málhömlun. Hann heitir Ágætur. Mig grunar að Ágætur hafi alist upp hjá kindum, því hann segir "meeeee". Mér þykir afar vænt um greyið og dreg bangsa ekki í dilka þótt þeir jarmi.
Er annars á leið til Kaupmannahafnar að hitta kaupmanninn. Kaupmaðurinn er fagureygð gersemi með gott hjartalag. Ef ég hitti Margréti Þórhildi í forbífarten ætla ég að segja henni að hætta að reykja.
Yfir og út.
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
Fólk er flest....í Kína
Já, það var ég. Bjáni gat ég verið. Er hætt´essu. Ekki að borða kornflex, heldur að tauta karlmönnum. Þeir eru bara eins og aðrir, fæstir eins og fólk er flest.
Maður skyldi aldrei alhæfa. Hef t.d. heyrt því fleygt að ekki séu allir Norðmenn leiðinleg heilsufrík, ekki séu allir Svisslendingar stundvísir, ekki séu allir Þjóðverjar nískir, ekki sé allt feitt fólk glaðsinna...
Magnað. Heyrði um daginn að allir Pólverjar bökkuðu í stæði. Alltaf. Til að vera viðbúnir ef skjótrar undankomu yrði þörf. "Og þetta fólk er svo duglegt og vinnusamt."
Alhæfingar. Gagnslaus fyrirbæri. Sennilega er þetta prógramm sett í hausinn á okkur til að sortera og "skilja" heiminn betur. Við ráðum ekki við frjálsa radikala.
Viðrum fordómana og leyfum öðrum að njóta þeirra. Annars kemur fúkkalykt og enginn vill tala við okkur.
mánudagur, nóvember 12, 2007
Bónusvínið
Sjáið fyrir ykkur tvær hillur hjá gosinu. Í annarri er röð af hvítvínsflöskum, í hinni röð af rauðvínsflöskum. Á flestum flöskunum er gulur miði með bleikum grís. Bónus-vínið. Bónus-svínið.
Sjáið fyrir ykkur (pólska) afgreiðslufólkið reyna að svara spurningum okkar - Euroshopper rauðvín eða Bónusvín með lambinu?
Guði sé lof fyrir Sjálfstæðisflokkinn og frelsið.
sunnudagur, nóvember 11, 2007
Hvað er svona merkilegt við það...að kýla prinsessur
Í gærkvöld þá opnaðist mér sýn inn í Nintendoland. Ég spilaði tölvuleik við son minn. Í leiknum var ég bleikur kúlukall, sem mér skilst að heiti Kirby. Ég kýldi prinsessur, barði risaeðlur með hamri, sprengdi ítalska pípulagningamenn og gleypti furðuskepnur. Breyttist stundum í stálkall og dó margoft. Þurfti að læra á marga takka, en þetta var já, fjandinn hafi það, bara skemmtilegt.
Mín tilfinning er sú að karlmenn séu almennt jákvæðari í garð tölvuleikja en konur. Frá því fyrsti stýripinninn leit dagsins ljós hafa fingur karlmannsins leitað snertingar við hann. Stýripinninn er karlmennskan plasti klædd.
föstudagur, nóvember 09, 2007
Þetta er ekki lesning fyrir viðkvæma
Lánaði nágrönnunum pönnukökupönnuna mína og hnífinn, en þeir hlutir hafa þjónað mér af dyggð og trúmennsku í ríflega tvo áratugi.
Svo reið áfallið yfir, tsúnamí tilfinninganna. Nágrannarnir ÞRIFU pönnuna, svo vel reyndar að hún er gagnslaus. Hefði frekar viljað fá það óþvegið.
Þegar ég var ungur sálfræðinemi reykti ég pípu. Gerði það upp á stílinn, stíll er mikilvægur. Baslaði lengi við að tilreykja pípuna, fá góða skafla í hana á réttum stöðum. Gafst svo upp á þessu dútli, því mér fannst aldrei gott að reykja. En handavinnan við pípuna gaf mér ágæta skemmtan. Og formennsku í félagi sálfræðinema, því ég þótti svo spekingsleg með hana. Þetta var útúrdúr.
Á pönnunni minni (blessuð sé minning hennar) hafði ég bakað þúsund milljón pönnukökur. Við erum að tala um pönnu með fortíð. Góða og þénuga, á henni festist aldrei deig.
Möguleikar í stöðunni eru a.m.k. þessir:
- Tilbaka pönnuna næstu tuttugu ár eða svo.
- Gráta meira.
- Kaupa nýja með einhverju teflon drasli.
- Hætta að baka pönnukökur.
- Jarða pönnuna undir fallegu grenitré úti í garði.
- Hefna mín með því að sippa á klossum eftir miðnætti.
- Gera hosur mínar grænar fyrir bakara.
- Læra að lifa með þessu.
- Kaupa ný leðurstígvél.
- Bíta á jaxlinn og bölva í hljóði.
fimmtudagur, nóvember 08, 2007
Hviss bæng, hvíslaði konan að stúlkunni
miðvikudagur, nóvember 07, 2007
Hnerrarnir eru í grænu boxi frá Marksogspenser
Hnerrar eru annars merkileg fyrirbæri. Það er óhollt að bæla hnerra, hausinn á manni getur sprungið.
Svo var mér sagt, af starfsmanni í heilbrigðisgeiranum, að það hvernig fólk hnerrar gefi vísbendingu um hvernig fólk er þegar það fær það. Pælum í því.
mánudagur, nóvember 05, 2007
Á arómatíska svæðinu má sjá fjórar prótónur saman í einum singlett
iKetó-enól ráphverfur
Nýleg rannsóknarvinna á ketó-enól ráphverfum sýndi að þær geta haft afdrifarík áhrif á kaupgleði fólks. Taki fólk lyf sem innihalda ketó-enól ráphverfur, verður það hvatvísara og líklegra til að kaupa meira en ella....
Þarna sjáum við upphaf stórmerkrar greinar um nýtt efni, efni sem stúlkan mín efnilega bjó til. Hún ætlar að bæta heiminn. Með pípettur og klarinett að vopni. Kannski stöku ljóð líka. Ég las þessa grein hennar yfir og reyndi að koma með málfarslegar athugasemdir. Fann glöggt hversu börnin vaxa manni yfir höfuð að visku og lærdómi. Þegar ég horfi á afkvæmin, líður mér stundum eins og stoltri en þó hjárænulegri mömmukartöflu. Mér líður aldrei eins og brúnum banana. Kemur fyrir að ég spjalla við mína innri lárperu, en hún er alltaf mátulega þroskuð.
Prófið að lesa þennan texta upphátt. Ragmana ykkur.
laugardagur, nóvember 03, 2007
Rúna vinkona mín
Stúlkan hægra megin á myndinni, já, þessi skeggjaða með ögrandi augnaráðið, þetta er vinkona mín hún Rúna. Án hennar hefði ég ekki öðlast neinn félagslegan þroska, því hún skipulagði nær alla æsku mína. Ég væri mannafæla og jafnvel þjóðskjalafræðingur ef hennar hefði ekki notið við. Takk Rúna mín og til hamingju með afmælið!
fimmtudagur, nóvember 01, 2007
Yma Sumac - La Molina - Live 1990
Fékk póstsendingu um daginn, það var diskur með þessari óviðjafnanlegu söngkonu. Mig langar að kunna að syngja svona og mig langar í bleikan kjól. Takk fyrir mig R:)