föstudagur, apríl 25, 2008

Nafn maríuhænunnar

Ég er með múrmeldýr í maganum og maríuhænu í höfðinu. Múrmeldýrið er af hobbitskum ættum og því er mjög í mun að ég borði reglulega. Maríuhænan er snefsin og illskeytt, en hún vill mér vel. Þótt hún búi í höfðinu á mér passar hún hjartað mitt. Hún hefur sofnað á verðinum og það getur hún ekki fyrirgefið sér. Hún er tortryggin og á til að vera beisk í lund. Maríuhænan sem býr í höfðinu á mér heitir ekki María. Heldur ekki Hæna. Hún vill ekki að ég segi ykkur hvað hún heitir.

Ég hvíslaði að maríuhænunni áðan: Lífið er stutt. Seinna er ekki sjálfgefið.

Pfft! fnæsti hún.

Vitaskuld er auðveldara að eiga vinsamlegar samræður við múrmeldýrið, en ég veit ekki alveg hvar ég hef það, svona á andlega sviðinu. Og ég hef aldrei innt það eftir nafni.

Engin ummæli: