laugardagur, apríl 19, 2008

Þú getur tekið konuna úr Kópavogi, en ekki Kópavoginn úr konunni

Í gær var Kópavogurinn vagga verundar. Erindrekaðist framan af degi í höfuðborginni, en gamli heimabærinn læddist lymskulega inn í tilveruna í túristabúð í Reykjavík, þar sem ég rakst á Kópavogskirkjur á stærð við hálfan eldspýtnastokk. Dómkirkjan, Höfði og aðrar fallegar íslenskar byggingar, smættaðar og til sölu. Enginn seðlabanki, engin blokk úr Fellahverfi, engin Kringla, ekki einn einasti kofi úr Síðumúla. Það var næstum óþægilegt að finna til einhvers konar stolts við að sjá lítið líkan í hillu af stóru kirkjunni á holtinu. Kom mér á óvart að það snerti taug, því í bernsku fannst mér þessi kirkja bæði stærilát að utan og kuldaleg að innan.

Bauð kærastanum (getiði hvaðan hann er) upp á hamborgara á Vitabar, en slíkan mat hafði ég aldrei smakkað öðruvísi en sem lofrullur bloggborgaranna. Fengum okkur gráðostborgara, og það var óslæmt.

Um kvöldið lá leiðin í Kópavoginn. Þar uppgötvaði ég eitt og annað í góðum félagsskap.
  • Kópavogurinn er annar en hann var, þekki þennan bæ varla lengur.
  • Kópavogurinn er risavaxinn, margbýll og hábýll.
  • Hraðahindrunum í Kópavogi hefur fjölgað óhemju ört á sama tíma og fólki sem stendur í vegi Don Gunnars hefur fækkað. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað sé undir öllum þessum bömpum á götunum.
  • Leiðin til að halda músum frá hýbýlum er víst að hrúga tólg og öðru meti upp fyrir utan mannabústaðinn. Þetta fékk mig til að hugsa um ýmis önnur vandamál sem leysa mætti á líkan veg.
Legg ekki meira á ykkur, enda alin upp í Kópavogi.

Engin ummæli: