mánudagur, apríl 28, 2008

Minnislaus magi

Jæja. Þá er ég orðin alvöru fullorðins. Búin að fara í magaspeglun. Vill til að ég hef varla hitt mann, konu, álf eða dverg að undanförnu sem ekki hefur viljað deila með mér reynslusögum af þessari hrífandi rannsókn. Hafa allir Íslendingar farið í magaspeglun? Af hverju var mér haldið utan við þetta grín fram á gamals aldur? Maður spyr sig.

Ykkur að segja var þetta ekkert mál, ég fékk eitthvert lyf í æð sem verkar eins og nauðgunarlyf hlýtur að vera, því ég man nákvæmlega ekki neitt frá rannsókninni. Læknirinn tjáði mér hins vegar að ég hefði verið afar "samvinnuþýð".

Og nú er ég magi meðal maga, spegluð og greind. Ó, já.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Malbiksís á feni

Það er ekki eins og mig hafi langað að standa í eldhúsinu í allan dag og steikja kjötbollur, en ég gerði það samt. Líklega vildi ég það en langaði ekki. Sigur andans yfir kjötinu.

Eftir kjötbollugerðina fórum við Hjalti minn hjálparkokkur í ísbúðina þarna í Feninu. Já, þessa sem er svo vinsæl að maður þarf helst að taka númer fyrir barnið sitt þegar það fæðist svo það geti átt möguleika á bragðaref við fermingu. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju hálf þjóðin hópast í akkúrat þessa ísbúð í hvert sinn sem sólin skín, ísinn er auðvitað fínn, en umhverfið hroðbjóður.

Angandi af sænskum kjötbollum, með ís gutlandi í maganum, brá ég á það ráð að fara út að skokka.

Held ég þurfi að fara í bað.

laugardagur, apríl 26, 2008

föstudagur, apríl 25, 2008

Nafn maríuhænunnar

Ég er með múrmeldýr í maganum og maríuhænu í höfðinu. Múrmeldýrið er af hobbitskum ættum og því er mjög í mun að ég borði reglulega. Maríuhænan er snefsin og illskeytt, en hún vill mér vel. Þótt hún búi í höfðinu á mér passar hún hjartað mitt. Hún hefur sofnað á verðinum og það getur hún ekki fyrirgefið sér. Hún er tortryggin og á til að vera beisk í lund. Maríuhænan sem býr í höfðinu á mér heitir ekki María. Heldur ekki Hæna. Hún vill ekki að ég segi ykkur hvað hún heitir.

Ég hvíslaði að maríuhænunni áðan: Lífið er stutt. Seinna er ekki sjálfgefið.

Pfft! fnæsti hún.

Vitaskuld er auðveldara að eiga vinsamlegar samræður við múrmeldýrið, en ég veit ekki alveg hvar ég hef það, svona á andlega sviðinu. Og ég hef aldrei innt það eftir nafni.

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Yndi sumars

Hugsa sér. Á morgun kemur sumarið. Megi það verða fullt af gæfusporum, mjúkum mosa og skýjagóni.

Gleðilegt sumar!

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Raunverur og rafverur

Já, svona er raunheimurinn þegar ég gægist í þann innri, heim ykkar rafveranna. Gjuggíborg!

Magaspegill sálarinnar

Læknirinn er búinn að panta tíma fyrir mig í magaspeglun á mánudaginn. Mallakútur baunar hefur nefnilega verið með vesen í sívaxandi mæli undanfarna mánuði, og lyf hafa ekki komið að gagni. Læknirinn spurði hvort ég hefði verið undir sérstöku álagi. Ég gat ekki neitað því, sagðist hafa verið undir miklu álagi í rúm tvö ár og það hefði náð hámarki síðastliðið sumar, með skelfilega erfiðum málum. Sagði honum líka að þessi streita væri að mestu leyti úr sögunni. Doksi sagði dæmigert að svona kæmi niður á heilsufarinu "eftirá". Kona rembist við að vera hetja, standa sig á meðan lamið er á henni, en svo hrynur eitthvað í kerfinu þegar hægist um.

Er heima núna, lasin. Fékk hita og hrikalegan hausverk í gær, skalf öll og nötraði. Búin að sofa nær sleitulaust í tæpan sólarhring.

Vorið. Vorið.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Óldspæs


Ekki nóg með að ungir menn sprangi um stræti í náttbuxum, heldur eru sumirá sumirá sumirá flókum. Inniskór virðast inni úti.

Þessi ellisækna tíska unga fólksins veldur mér heilabrotum. En að vanda sé ég urmul viðskiptatækifæra.
  • Bjór með sveskjubragði
  • Farsímar í laginu eins og gervigómar
  • Harmonikkutónlist í hvern æpodd
  • Sveskjubreezer
  • Bolir saumaðir úr blettóttum vasaklútum
  • Skartgripalínan "Old fart", t.d. göngugrindareyrnalokkar, líkamsgötun með göngustöfum og hækjum
  • Hrukkuhúðflúr
  • Body lotion með gamalmennalykt
  • Hörfræjasnakk
  • USB lyklar, töskur og strokleður sem líta út eins og heyrnartæki
  • Fortuggnir skyndibitar
  • Lýtaaðgerðir eins og brjóstsigsígræðslur, eyrnastækkanir og ellifreknur
  • Tann-gulun
  • Leiseraðgerðir sem miða að viðunandi fjarsýni
  • Oldspice kommbakk
Að ég skuli ekki fyrir lifandis löngu vera orðin milljarðamæringur...

laugardagur, apríl 19, 2008

Þú getur tekið konuna úr Kópavogi, en ekki Kópavoginn úr konunni

Í gær var Kópavogurinn vagga verundar. Erindrekaðist framan af degi í höfuðborginni, en gamli heimabærinn læddist lymskulega inn í tilveruna í túristabúð í Reykjavík, þar sem ég rakst á Kópavogskirkjur á stærð við hálfan eldspýtnastokk. Dómkirkjan, Höfði og aðrar fallegar íslenskar byggingar, smættaðar og til sölu. Enginn seðlabanki, engin blokk úr Fellahverfi, engin Kringla, ekki einn einasti kofi úr Síðumúla. Það var næstum óþægilegt að finna til einhvers konar stolts við að sjá lítið líkan í hillu af stóru kirkjunni á holtinu. Kom mér á óvart að það snerti taug, því í bernsku fannst mér þessi kirkja bæði stærilát að utan og kuldaleg að innan.

Bauð kærastanum (getiði hvaðan hann er) upp á hamborgara á Vitabar, en slíkan mat hafði ég aldrei smakkað öðruvísi en sem lofrullur bloggborgaranna. Fengum okkur gráðostborgara, og það var óslæmt.

Um kvöldið lá leiðin í Kópavoginn. Þar uppgötvaði ég eitt og annað í góðum félagsskap.
  • Kópavogurinn er annar en hann var, þekki þennan bæ varla lengur.
  • Kópavogurinn er risavaxinn, margbýll og hábýll.
  • Hraðahindrunum í Kópavogi hefur fjölgað óhemju ört á sama tíma og fólki sem stendur í vegi Don Gunnars hefur fækkað. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað sé undir öllum þessum bömpum á götunum.
  • Leiðin til að halda músum frá hýbýlum er víst að hrúga tólg og öðru meti upp fyrir utan mannabústaðinn. Þetta fékk mig til að hugsa um ýmis önnur vandamál sem leysa mætti á líkan veg.
Legg ekki meira á ykkur, enda alin upp í Kópavogi.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Hliðlæg uppsprengd gleði með smell

Hvað heitir það þegar fólk stekkur, í leikrænni kæti, svona upp og til hliðar og skellir saman fótum? Þetta sést gjarnan í dans- og söngvamyndum. Þær þykja mér leiðinlegri því gleðilegri sem þær eiga að vera og þetta meinta kátínuhopp ósannfærandi.

Hef gengið út af tveimur myndum um ævina. Önnur hét West Side Story.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Straubolti kemur aðeins óbeint við sögu hér

Eftir erilsaman vinnudag og leikfimitíma hélt ég lúin heim á leið og ætlaði beint í tiltekt. Allt í rusli í kotinu og von á langþráðum gesti á morgun. Mér að óvörum beygði bíllinn inn að Kringlu. Þaðan sneri ég klyfjuð straubretti á stærð við viðlagasjóðshús og með þennan sumarkjól. Mér finnst hann æði.

Í sumar mun ég strjúka alla fallegu kjólana mína og annað lín á víðáttum nýja straubrettisins.

13

Í nótt dreymdi mig í fyrsta skipti bloggið mitt. Það voru þrettán komment við hverja einustu færslu.

mánudagur, apríl 14, 2008

Hlustum á Útvarpið, höngum á Netinu og hossumst í Rúminu

Ég skrifa netið alltaf með litlum staf. Finnst álíka bjánalegt að skrifa það með stórum eins og að skrifa sími með stórum, "ég er að tala í Símann". Enn asnalegra þykir mér að rita "Internetið", rámar í að hafa séð það á Mogganum. Netið er bara miðill eins og sími, sjónvarp og útvarp.

Þar hafið þið minn túkall í réttritun á netinu. Þið megið mótmæla en ég tek ekkert mark á ykkur.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Fjarskalegar pípulagnir

Varð fyrir fjarpípulögnum í kvöld. Alveg ný reynsla. Yngri sonur minn ætlaði að láta renna vatn í glas þegar kraninn datt af í heilu lagi. Illt er að vera vatnslaus í eldhúsi, hugsaði ég og reyndi að skrúfa kranann á en fann ekkert út úr því, enda pípulagnir eins og fútsí og dávdjóns fyrir mér. Sagði fjarkærastanum frá þessum bobba og hann bað mig að taka mynd og senda.

Svo fjarlagaði hann kranann, haldiðasénú snilld? Fólk farið að pípa í gegnum mig að handan. Handan við hafdjúpið bláa...hugur minn dvelur hjá þér...ég vil að þú komir og kíkir...á kranann hér hjá mér.

laugardagur, apríl 12, 2008

Kvöldleikfimin

Skemmtigildi leikfimi hefur greinilega hrapað niður úr öllu valdi frá þriðja áratugnum.

Rauðregla

Mér finnst óeðlilega hátt hlutfall rauðhærðra lögreglumanna á Skjáeinum.

föstudagur, apríl 11, 2008

Geispa golfinu

Í dag sat ég í fínni móttöku við hliðina á manni sem reyndi að útskýra fyrir mér í löngu máli hvað golf er sniðug og spennandi íþrótt. Ég dáðist að þolinmæði mannsins. Og undraðist ónæmi hans.

Svo er mér ljúft að greina frá því að 200 þúsundasti flettarinn er alveg að fara að fletta síðunni minni. Ef ég finn út hver hann er þá fletti ég ofan af honum.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Barnabörrberrís fne

Næst þegar ég kvarta undan bjánalega sveipnum í toppnum ætla ég að muna að margir eiga við stærri vandamál að stríða en óþægt hár.

Var að horfa á frétt um að nú væru Danir komnir á kaf í rándýra merkjavöru í barnafötum. Ungbarni í Burberrys, Armani og Chloe og hvað þetta heitir allt saman er veifað sem stöðutákni. Og ég sem hélt að Danir væru frekar spar- og skynsamur þjóðflokkur. Maður hljómar eins og argasta ellifól, en ekki var nú púkkað svona upp á klæðnað minna barna, þau gengu fyrstu árin mikið í notuðum flíkum sem ég fékk að láni. Vona að það hafi ekki krumpað í þeim sálina.

En hverjum finnst Burberrys fallegt? Í alvöru? Þetta er hundandskoti ljótt, enda hef ég séð hund í svona köflóttri slá (og það slapp til).

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Stúlkan mín

Þessa blíðu og yndislegu mannveru hef ég alltaf þekkt og alltaf elskað. Þegar hún var lítil vildi hún láta syngja sig í svefn. Þegar hún stækkaði söng hún frumsamdar hádramatískar aríur fyrir gullfiskinn sinn. Svo lærði hún að syngja með klarínettinu, stundum blítt og stundum ómstrítt. Hægláti dugnaðarforkurinn minn er bæði að útskrifast úr efnafræði við HÍ í júní og Tónskóla Sigursveins í vor.

Ásta Heiðrún Elísabet ætlar að halda tónleika í Sigurjónssafni þann 30.apríl kl. 20. Allir velkomnir.

(Ég á eftir að spyrja hvort hún bjóði upp á sýningu á efnafræðitilraunum við útskriftina úr HÍ)

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Billeg eptir gæðum

Fyrir allnokkrum árum var ég að þvælast um á Akureyri að sumarlagi og rakst þá á búð með alls kyns undarlegu dóti. Fann m.a. kassa fullan af gömlum, velktum tilkynningum sem höfðu víst dagað uppi í prentsmiðju sem fyrir margt löngu hafði lagt upp laupana.

Hér sjáið þið tvær þessara tilkynninga, en þær virðast hafa sameinað kosti Lögbirtingablaðsins og Barnalands.Þarna stendur: Feitissverta. Reynið hana, því hún er sú bezta, sem fæst í bænum, og billeg eptir gæðum.

Feitissverta? Heitasta brúnkukremið í byrjun 20. aldar?

mánudagur, apríl 07, 2008

Lím og list

Um sumt er ekki hægt að rökræða alla leið að sameiginlegri niðurstöðu. Hef rekið mig á nokkur málefni sem falla í þennan flokk. Má þar nefna trúarbrögð og stjórnmál (þ.e. ef fólk trúir á eitt kerfi/einn sannleika); pc/mac gljúfrið og margvíslegan smekk, t.d. á bjór, tónlist, kjötbollum, ilmvatni, litum, fötum og hvað sé fallegt og ljótt í list.

Sem betur fer heldur fólk áfram að tala þótt fáir hlusti.

Annars glími ég um þessar mundir við hvimleiðan vanda. Í höfði mér er föst laglína, hreinlega límd með tonnataki á vitundarkantinn. Hún er svona:

Ég ætla aldrei aldrei aldrei aldrei aldrei aldrei aftur að vinna í Ísbirninum.

sunnudagur, apríl 06, 2008

Fjórbrjóst

Mig langar að deila því með ykkur að núna er ég í svörtum kjól alsettum gylltum, silfruðum og sægrænum pallíettum og perlum. Fallegur, já. Ekkert smá. En það fylgja með honum brjóst. Og þau eru ekki alveg á sama stað og mín.

Man þá tíð er herðapúðar voru í öllum efripartaspjörum. Skyldu brjóstpúðar vera nýja trendið?

föstudagur, apríl 04, 2008

Nuddvortis

Heilun er aðferð lækninga þar sem orku er beitt, ýmist með handayfirlögn eða fjarheilun. Læknandi áhrif heilunar verða þegar efri líkamarnir, t.d. orku-, tilfinninga-, og geðlíkami fá leiðréttingu á orkufæði sínu.*
Ég er leitandi sál. Skoða stundum nýaldarspeki og velti fyrir mér hversu desperat maður þarf að vera til að borga fyrir árunudd, heilun, cranio, reiki og hvað þetta nú allt heitir. Veit að nudd og heilun eru ekki sami hluturinn en eitt af því bjánalegasta sem ég hef lent í um ævina var þegar mér var gefið "dekurnudd" í afmælisgjöf, pantaði tíma og var svo heppin að lenda á kornungum dreng sem var nýbúinn að læra "lækninganudd" sem hét einhvað í líkingu við kúkkúvává. Hann spurði mig óðamála hvort ég vildi "nokkuð" fá dekur, vildi ég ekki heldur að hann lagaði mig með þessari undraaðferð? Ég muldraði eitthvað um að ég vildi nú bara þægilegt nudd en hann lét það sem vind um eyru þjóta og tók til óspilltra málanna við lagfæringarnar, m.a. greindi hann spenntur frá því að annað nýrað í mér hefði dottið úr sætinu sínu. "Ja, hérna" náði ég að tauta á meðan hann ýtti og potaði ógurlega fast í bakið á mér drjúga stund, uns hann dæsti ánægður að sér hefði tekist að færa nýrað upp í sætið. "Ertu til í að spenna á það beltið í leiðinni" umlaði ég oní gatið á bekknum, örmagna eftir lækninguna. Þáði ekki meira nudd frá þessum unga og glaðlega ofurpotara, þótt hann benti mér á ótal margt sem enn væri í vondu standi, bæði innvortis og útvortis.
Heilun og táknmál líkamans.
Neiðkvæð upplifun við heilun.

Tinandi höfuð: Beina athygli að fótum –jarðtengja og nota jafnvel kristalla við jarðtengingu.

Þaninn kviður: Of mikil orka í sólarplexus. Jarðtengja og nota kristalla í sambndi v/vinnu v/innra barn og nota tákn/kristalla inn á tilfinningar.

Vera “speisaður”: Keyra kundalini gegnum micro-cosmic svið og nota jarðtengjandi kristalla.

Aftengist raunveruleikanum: Illa jarðtengdur og nauðsynlegt að still sig inn og gott að nota til þessa hugleiðslu m/jarðtengjandi kristalla og komast í jafnvægi.

Hvernig á að stilla sig inn:
1. Hafa athygli í hvatastöð
2. Hugleiða m/kristalla sem við á.
3. dreka vatn lítið í einu og hægt.
4. hafa Rósaquartz í báðum lófum.
5. Fyrir heilarann: Setja hendur í skál með heitu eða söltu vatni þar til jafnvægi kemst á.
6. hreinsa áruna.
7. fara í göngutúr út í náttúrunni og finna tengingu við náttúruna.*

*allt skáletrað er tekið beint af síðunni http://www.hugveislan.is

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Sipp og hoj

Í leikfimi í dag var ég látin sippa í refsingarskyni. Fór létt með það.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Litla konan með litlu hefndina

Stundum læðist út úr mér svo mjúkt og hljóðlaust "g" þegar ég býð góðan dag að það heyrist varla.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Af hverju er ekki heiglum hegnt?

Í vinnunni í dag var ofbeldi til umræðu, og margar þess myndir, t.d. andlegt ofbeldi. Fólk talaði um að þeir sem beiti aðra ofbeldi "eigi bágt" og það sé eitthvað "verulega að hjá þeim". Búhú. Það er ábyggilega rétt að ofbeldismenn eigi bágt og vissulega er ekki í lagi með þá.

Símafyrirtæki þessa lands ýta undir möguleika á ofbeldi og ofsóknum, með því að bjóða upp á "þjónustuna" númeraleynd og nafnlausar sms sendingar. Ef maður verður fyrir endurteknu símaböggi, og böggarinn lætur sér ekki segjast, er þrautaleið að kæra til lögreglu, sem er ekkert smámál fyrir venjulegt fólk. Símafyrirtækin láta ekki gögn sín af hendi nema dómsúrskurður liggi fyrir (sem fæst í kjölfar kæru), og það fyndnasta í þessu öllu saman er að þótt sannað sé að tiltekinn fáviti úti í bæ beiti símanum sem vopni í sjúklegu einkastríði, þá er ekkert hægt að gera í því. Það er nefnilega ekki refsivert að haga sér eins og óuppdreginn skíthæll og sadisti og ofsækja aðra manneskju. Engin lög ná yfir slíkt athæfi, svo fremi líkamlegu ofbeldi sé ekki hótað eða beitt.

Getur einhver sagt mér af hverju símafyrirtækjum er svona umhugað um að fólk geti hringt og falið númerið sitt óáreitt? Til hvers???

Já, sá sem beitir ofbeldi á bágt. Bleyða sem ekki getur borið ábyrgð á eigin lífi, ákvörðunum og hegðan finnur sér einhvern til að níðast á.

Mig langar hér með að lýsa fyrirlitningu minni á þeim heigulshætti sem felst í símnotkun þar sem númeraleynd er viðhöfð ítrekað, og nafnlausu netofbeldi í hvaða mynd sem er, að ég nú tali ekki um þá sjúklegu skítahegðun að villa á sér heimildir sem virðist allt of auðvelt, jafnvel fyrir fávita af verstu sort.

Eitt er víst. Lítilmennska þrífst í skjóli nafnleyndar.