miðvikudagur, janúar 23, 2008

Þótt þú sért fyndin, geturðu ekki verið það ævinlega, enda verður það þreytandi til lengdar

Oft hef ég viðrað ímugust minn á sjálfshjálparritum. Ein undantekning er á þessari óbeit minni, því gamlar betrunarbækur þykja mér fyrirtaks skemmtan. Í fórum mínum er bókin Listin að vinna hylli karlmanna eftir W.S. Keating (Söguútgáfan Suðri, Reykjavík 1950). Mig langar að deila með ykkur nokkrum viskukornum úr ritinu og vona að það nýtist þeim einstæðu konum sem hugsanlega gætu verið að lesa þessi orð. Sjálf er ég einstæð kona og ætla því að lesa af athygli.
Úr kaflanum Samræður.
Ef þú ert vel gefin, er aðdráttarafl þitt ekki fólgið í útlitinu einu. Það er sízt þýðingarminna hvað þú segir og hvernig þú segir það.

Við skulum fyrst athuga málfarsgallana. Óreglulega settar tennur geta orsakað smámælgi, en hún getur líka verið letilegum framburði að kenna. Ef þú ert smámælt eða verulega blest í máli, ættirðu tafarlaust að tala við færan tannlækni.

Úr kaflanum Minnimáttarkennd.
Öll höfum við okkar galla; enginn er fullkomlega ánægður með sjálfan sig nema hálfvitinn.

Meðalstúlkan er frjálsmannleg í framkomu, stundar starf sitt af skyldurækni, giftir sig, og í þessum straumi lífsins gleymir hún sjálfri sér og því, sem henni kann að vera á vant í samjöfnuði við aðra.

Ef tennur þínar eru skemmdar, skaltu láta gera við þær, eða fá þér að öðrum kosti gerfitennur. Ein glæsilegasta leikkonan í Hollywood hefur gerfitennur í báðum gómum.

Ertu kannske feimin við karlmenn? Til þess er engin ástæða. Á hverju ári giftast stúlkur svo milljónum skiptir, og því skyldir þú ekki geta orðið ein þeirra?

Úr kaflanum Fegurð.
Fallegast er, að andlitið sé egglaga.

Hárgreiðslan hefur mikil áhrif á andlitssvipinn, og sé vel til hennar vandað, getur hún breytt andlitsfalli og hulið sviplýti. Hér á eftir verður drepið á nokkrar andlitsgerðir og hárgreiðslu þá, sem hverri um sig hentar bezt:
  • Egglaga andlit: Bezt að hárgreiðslan sé einföld. Annars má nota hvaða hárgreiðslu sem er, ef hún spillir ekki andlitssvipnum.
  • Langt og mjótt andlit: Skipt í miðju (nema nefið sé ljótt). Lokkar eða brúskar fram á ennið. Eyrun sjáist (ef svipurinn er fríður). Sítt hár, sem hylur eyru og háls. Skipt neðarlega í öðrum vanga. Litlir, hringlaga lokkar (ef svipurinn er fíngerður).
  • Breitt eða kringlótt andlit: Sítt hár, liðað upp frá hálsinum, svo að eyrnasneplarnir sjáist. Skipt hátt í öðrum vanga. Hárið greiðist upp frá andlitinu (pompadour) (ef svipurinn er fríður). Hárið falli í lausum bylgjum.
  • Með gleraugum: Hyljið eyrun.
  • Með stóru nefi: Hátt, uppsett hár. Haríð vefjist upp í hnakkanum.
  • Langur háls: Hárið hylji hálsinn.
  • Stuttur háls: Hárið sé stutt, svo að hálsinn komi í ljós.
Úr kaflanum Ástarhót.
Að því kemur, fyrr eða síðar, að þú verður að láta ást þína í ljósi, ef þú vilt ekki missa af þeim, sem þú hefur valið þér.

Gerðu honum til geðs. Ef hann stingur upp á einhverju, skaltu lýsa þig því samþykka. Ef honum finnst rauður kjóll fara þér betur en svartur, skaltu vera í rauða kjólnum, og láta hann verða þess varan, að þú gerir það fyrir hann. Komdu þeirri trú inn hjá honum, að það sé hann, sem ráði.
Gettu þér til um óskir hans og uppfylltu þær. Ef hann borðar á matsöluhúsi, skaltu bjóða honum í mat. Láttu þér umhugað um, að honum líði vel. Ekki er nauðsynlegt, að þú gangir svo langt að rétta honum inniskóna hans óumbeðið, en gerðu samt eitthvað í þá átt fyrir hann. Stilltu útvarpstækið á þá stöð, sem honum þykir mest gaman að hlusta á, og leggðu púða við bakið á honum í stólnum.
Segið svo að ég geri aldrei neitt fyrir ykkur.

Engin ummæli: