fimmtudagur, janúar 10, 2008

Aurasálin

Eins og allir vita má ég ekkert aumt sjá, finn til með fólki sem á bágt. Held alltaf með þeim sem tapar. Um þessar mundir er ég að reyna að safna samúð fyrir þá 200 landa mína sem eiga RangeRovera á sölu (meðalskuld per bíl 5 millur).

Ég er líka að reyna að safna samúð fyrir fólk sem tekur nokkur hundruð milljónir að láni til að fjárfesta og gambla með og tapar stórt. Skilst að einhverjir fyrrverandi forríkir séu nú næstum fátækir. Verði að selja þyrluna, penthásið og jafnvel kúldrast á sagaklass í stað þess að líða um loftin blá í einkaþotu.

Mér gengur ekki nógu vel með samúðarsöfnunina. Enda aumur launþegi í heilbrigðisgeiranum, líf manns og störf til fárra fiska metin. Til sönnunar á því hve ómerkileg og smá í sniðum fjármál mín eru má nefna að desemberuppbót og vísindasjóðsstyrkur frá stéttarfélagi mínu eru uppspretta mikillar kæti, enda þýða þessir örfáu þúsundkallar að ég get keypt eitthvað sniðugt, t.d. skó. Það er alltaf góð hugmynd að kaupa skó, tala nú ekki um rauða skó. Og í dag kvartaði ég í fiskbúðinni minni undan brimsöltu saltfiskflaki sem ég keypti hjá þeim á þriðjudaginn og viti menn. Ég fékk þúsund krónur felldar niður af verði laxins sem ég var að kaupa. Í sárabætur. Þetta gladdi mig ómælt.

Laun fólks í stjórnunarstöðum, sem sýslar með fé, eru fullkomlega úr samhengi við veruleika flestra. Það er margtugginn sannleikur á kaffistofum landsmanna. Skyldu fjármálafyllerí, útrás og stórveldisdraumar vera að renna sitt skeið? Gerist eitthvað "raunverulegt" núna? Hefur þetta áhrif á okurkjörin sem okkur sem neyddumst til að taka húsnæðislán nýlega voru boðin? Hækkar bensínið endalaust? Hvað verður um landkrúserna og börnin?

Peningar. Fne.

Engin ummæli: