laugardagur, janúar 19, 2008

Lífið - þakklátt starf

Gerði merkilega uppgötvun í vikunni. Var að vaska upp, útvarpsfréttir ómuðu í litla eldhúsinu mínu og af og til lagði ég frá mér leirtauið til að heyra betur hvað þulurinn sagði. Hversdagslegt? Já. Sannarlega var heimurinn hversdagslegur á þessu augnabliki. Lífið var einfaldlega í jafnvægi. Mér hefur ekki liðið svona vel í mörg ár. Eftir skilnaðinn hefur líf mitt verið rússíbani, hreinsunareldur, ópera, farsi og ég á köflum hádramatík. Rúm tvö ár síðan ég ákvað að rífa mig upp og skilja við mann sem alltaf hefur reynst mér vel, traustur og heiðarlegur sem hann er. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að telja hann enn meðal bestu vina minna og fyrir það er ég endalaust þakklát, okkar og ekki síst barnanna vegna. Held að hvorugt hafi nokkurn tímann misst sjónar á hinu sem manneskju, þrátt fyrir þoku sárinda sem lagðist yfir tilveruna um stundarsakir. Hef aldrei litið til baka með biturð, hvers vegna ætti ég að gera það? Þrjú yndisleg börn og mörg góð ár við daglega amstrið sem fylgir fjölskyldulífi og barnastússi. Gleði og sorgir eins og gengur og gerist hjá þeim sem eru svo heppnir að eiga sér "eðlilegt líf".

Uppgötvun mín við uppvaskið var að fyrst núna líður mér eins og gömlu Betu, nema bara miklu betur. Ég er sátt við sjálfa mig. Næstum búin að fyrirgefa mér þau mistök sem ég gerði, allar slæmu ákvarðanirnar sem ég tók. Hef aldrei verið hrædd við að axla ábyrgð á eigin gjörðum, en er ekki tilbúin að taka á mig ábyrgð á hegðun annarra.

Situr dálítið í mér pistill sem ég las nýlega, eftir Davíð Þór Jónsson. Góð hugleiðing þar á ferð. Eftir því sem ég eldist dýpka tilfinningar mínar og skerpast. Fyrir það er ég þakklát. Ég get orðið ástfangin eins og unglingur, nema enn betra - hef reynslu og innsæi sem mig skorti alveg í sjálfhverfri gelgjumóðunni. Og nú á ég líka svolítið sem ekki fæst keypt, fengið að láni eða stolið - ég þekki sjálfa mig. Ómetanlegt.

Það er svo gott að vera til.

Engin ummæli: