föstudagur, janúar 04, 2008

Er andi í draumnum í súpunni í brauðinu í jólaskrautinu?

Nú er ég komin með páfann á heilann. Ekki þægilegt. Held mig sé farið að dreyma hann líka, því mig minnir endilega að ég hafi lesið frétt í gær eða hinn um að páfinn vilji hefja stórsókn í særingum, þ.e. að þjálfa fleiri presta í að særa út illa anda. Á slíku sé aukin þörf og að prestar nú til dags séu ekki nógu vel að sér í þessu undirstöðuhandverki guðsmanna. Var að leita að þessari frétt áðan á vefmiðlum en fann hvergi. Ansans. Fann hins vegar þartilgerðan fréttavef kaþólskra.

Svaf yfir mig í morgun. Dreymdi að dóttir mín elti mig um allt með stóra skammbyssu og ætlaði að skjóta mig af því að pabbi hennar nennti því ekki. Mér fannst þetta doldið leiðinlegt og bað hana að sleppa því að skjóta mig, segja heldur pabba sínum að gera það sjálfur. Já, já.

Strákarnir komu til mín í dag og það er skemmtilegt. Ætla að elda handa þeim fiskisúpu og gefa þeim gott heimabakað brauð með. Nóg að gera næstu daga við að snúa sólarhringnum á rétt ról, grunar að það verði ryðgað tannhjól með ískri og skrölti. Svo þurfum við að moka jólaskrautinu ofan í kassa og henda blessuðu jólatrénu.

Legg aldeilis ekki meira á ykkur, enda kúfmælt.

Engin ummæli: