Meindýraeyðirinn mætti með gula brúsann sinn í morgun, krúttlegur kall, um eða yfir sjötugt. Hann var fremur málgefinn, e.t.v. var hann einmana. Meindýraeyðirinn fræddi mig um silfurskottur, ég veit nú að:
- þær fjölga sér ekki ört, verpa um 50 eggjum á ári og éta helminginn
- geta náð 7 ára aldri
- éta grásveppi og leggjast ekki í matvæli
Auk þess tjáði meindýraeyðirinn mér að hann hefði haldið með þessari fjörugu stúlku, henni Silvíu, en sagðist óttast að þessir tveir skuggalegu menn sem voru með henni væru í dópi. Og hafi slæm áhrif á stúlkuna. Hann tiltók, máli sínu til stuðnings, að annar þessara manna hefði alltaf verið að hringja í Silvíu þegar hún var í viðtali í Kastljósinu, hún hefði hreinlega ekki fengið nokkurn frið. Áhyggjur af velferð Silvíu í þessum vafasama félagsskap virtust leggjast nokkuð þungt á gamla manninn. Mér rann það til rifja, en samt ekki nóg til að segja honum að Silvía væri bara Ágústa í búningi. Hvaða máli skiptir það svosem? Maður má nú velja sér áhyggjuefnin. Eða velja þau mann?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli