mánudagur, febrúar 06, 2006

Leiðarvísir í ástamálum

eftir Ingimund gamla og Madömu Tobbu er endurútgefið rit frá þriðja áratug síðustu aldar sem ég mæli eindregið með. Fékk þessa þénugu handbók í afmælisgjöf frá dóttur minni, sem hefur greinilega nef fyrir þörfum móður sinnar. Í þessum pésa má m.a. lesa hvernig kona kallar fram fallegt bros án þess að mynda hið illræmda "reykvíska veiðibros". Margt ber að varast þegar kona vill sýna karlmanni áhuga: "Augna-daður er ljótt og ósiðsemis-einkenni." "En það er eins með brosið og augnaráðið, að of mikið má af því gera að brosa, og síbrosandi kona er þreytandi." "Til þess að geta orðið yndisleg í augum karlmanna, verður þú að vanda klæðnað þinn og þrifnað, því að óþrifin kona er andstyggð siðaðra manna".

Held ég verði í góðum málum þegar ég er búin að lesa bókina spjalda á milli. Hlýt að finna mann sem vill mig, þegar ég er búin að læra að brosa og horfa hæfilega mikið og vanda þrifnaðinn. Svei mér þá.

Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: