föstudagur, febrúar 10, 2006

Ég hef aldrei skilið þetta fyrr en nú.

Vís vinur minn norðan heiða ljáði mér eyra. Þar á ég sannarlega hauk í horni. Hann sendi mér m.a. þetta brot úr Spámanninum, sem ég hef aldrei skilið fyrr en akkúrat núna. Ekkert er nýtt undir sólinni.

Þá sagði Almítra: Hvað er ást?
Og hann leit upp og horfði á fólkið, og það varð djúp þögn.
Hann sagði:
Þegar ástin kallar þig, þá fylgdu henni, þótt vegir hennar séu brattir og hálir.
Og láttu eftir henni, þegar vængir hennar umvefja þig, þótt sverðið, sem falið er í
fjöðrum þeirra, geti sært þig.
Og þegar hún talar til þín, þá trúðu á hana.
Þó að rödd hennar kunni að eyða draumum þinum, eins og norðanvindur, sem
leggur garð þinn í auðn.

Því að eins og ástin krýnir þig, eins mun hún krossfesta þig.
Eins og hún teygir arma sína upp í trjákrónuna og gælir við mýkstu laufin, sem titra
í sólskininu, eins mun hún seilast niður og losa þau bönd, sem binda þær jörðinni.

Hún safnar þér til sín eins og kornbundinum.
Hún þreskir þig, þar til þú verður nakin.
Hún sáldar þig frá hismi þínu.
Hún malar þig hvíta.
Hún hrærir þig, uns þú verður auðmjúk.
Og síðan leggur hún þig í helgan eld og gerir þig að brauði hinnar helgu kvöldmáltíðar.

Allt þetta mun ástin gera við þig, til þess að þú megir þekkja leyndardóma hjarta
þíns og þannig verða brot af hjarta lífsins......


Þá sagði kona ein: Talaðu við okkur um gleði og sorg.
Og hann svaraði:
Sorgin er gríma gleðinnar.
Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar, var oft full af tárum.
Og hvernig ætti það öðruvísi að vera?
Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manna, þeim mun meiri gleði
getur það rúmað.
Er ekki bikarinn, sem geymir vín þitt, brenndur í eldi smiðjunnar?
Og var ekki hljóðpípan, sem mildar skap þitt, holuð innan með hnífum?
Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það,
sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú
grætur vegna þess sem var gleði þín.
Sum ykkar segja:
"Í heimi hér er meira af gleði en sorg," og aðrir segja:
"Nei, sorgirnar eru fleiri."
En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur
situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu.
Þú vegur salt milli gleði og sorgar.
Jafnvægi nærð þú aðeins á þínum dauðu stundum.

Engin ummæli: