föstudagur, febrúar 24, 2006

Af amöbum

Stundum getur verið gott að hugsa. Og stundum leiðist manni hreinlega inni í sínum eigin haus og vill gjarnan tengja sig við annað höfuð.

Stundum hugsa ég um öll mistökin sem ég hef gert. Oft hef ég t.d. keypt allt of stórar buxur af því að ég hafði einu sinni svo feita sjálfsmynd. Hef samt aldrei verið feit. Þekki eina akfeita konu sem hefur mjóa sjálfsmynd, henni finnst hún í eðlilegum holdum en öllum öðrum finnst hún hrikalega feit. Spes.

Önnur mistök, nýleg, eru að kaupa tvo diska með tónlistarmanni sem ég vissi ekkert um. Mér leist bara svo ágætlega á nafnið, það minnti mig á eitthvað sem ég hafði séð hjá Ástu dóttur minni, sem hefur frábæran tónlistarsmekk. David Grey. Hundleiðinlegir diskar. Langar ykkur í þá? Kom á daginn að diskurinn sem ég hafði séð hjá Ástu var með Green Day. David Grey - Green Day - er nema von maður ruglist?

Vissuð þið að amöbur, frumstæðir einfrumungar, læra að forðast óþægilegt áreiti - þ.e. þær læra af mistökum sínum. Ég hef undanfarið gert sömu mistökin aftur og aftur. Samt er ég fjölfrumungur. En nú er ég búin að læra að forðast sumt af því sem er vont fyrir mig. Loksins.

Þetta sannar að ég er ekki komin af öpum, heldur amöbum.

Engin ummæli: