Fórum í veiðitúr í Hlíðarvatn, Selvogi. Hef aldrei á ævinni veitt neitt, nema þegar ég fór í sjóstangveiði og dró ufsaslytti og þorskgrey úr Reykjavíkurhöfn. Hjálmar er mikill veiðikall og mig langar að læra þessa fornu matarlist. Hann er þolinmóðari en fjöllin þannig að e.t.v. á ég smá von.
Ég reyndist ekki ýkja fiskin, en Hjalti sonur minn veiddi tvær fallegar bleikjur í þessari fyrstu alvöru veiðiferð sinni. Hefur þetta í sér pilturinn.
Ég lagðist í náttúruskoðun og berjatínslu. Tíndi hrútaber, krækiber og bláber og hlakka til að búa til berjasíróp út á pönnukökur.
Sáum móbrúnan yrðling á vappi við vatnið. Einnig sáum við fálka sem virtist hafa töluverðan áhuga á yrðlingnum og stakk sér niður að honum. Hef aldrei fyrr séð tófu úti í náttúrunni og heldur ekki fálka. Reyndi að taka myndir, en þær komu ekki nógu vel út, enda á ég bara imbakameru.
Rákumst á þennan torfkofa úti í vatninu, en þarna virðist leki í kjallara hafa farið verulega úr böndunum. Starf pípara verður seint ofmetið.
Legg ekki meira á ykkur, enda þreytt og sæl, rjóð í kinnum og í maga mínum er smjörsteikt bleikja með kartöflum. *DÆS*