fimmtudagur, júní 05, 2008

Veðrið

Í dag lamdi rigningin bílinn minn svo fast að það þeyttust af honum gusurnar. Beið róleg eftir bónlaginu að ofan. Nú þarf ég ekki að þvo skrjóðinn fyrr en í haust.

Ákvað að tala um veðrið af því að ég er búin að skrifa svo marga pistla sem ég ákvað að birta ekki, enda margt að gerast þessa dagana (sumt gott, annað slæmt).

Get samt sagt ykkur hversu ljúft það er að:
 • þurfa ekki að fara ein í bónus og burðast með níðþunga poka upp tröppurnar
 • heyra að ég sé falleg
 • horfa á verk unnin á allt annan hátt en ég vinn þau
 • sjá karlmann taka svívirðilega þungan pottofn og kasta honum eins og hverju öðru fisi í gám
 • geta deilt viðburðum dagsins með manni sem kann að hlusta
 • verða vitni að pönnukökubakstri með tilþrifum og uppílofthendingum
 • finna að ég er elskuð eins og ég er, af því að ég er eins og ég er
 • þurfa ekki alltaf að elda sjálf og ganga frá
 • hafa karlmannsbelg að kúra hjá
 • sjá mann tækla snúrur, tæknidót og erfiðar umbúðir með þolinmæði og yfirvegun
 • fá kaffi í rúmið
 • sameina búslóðir, rugla saman reytum
 • sjá karlmann munda hamar, sleif, borvél, sög, hvítlaukspressu og sláttuvél með fádæma lagni
 • hafa snilldarkokk á heimilinu
Já, já. Öfund afþökkuð, enda er lífið ekki bara leikur. Það er líka dans á rósum.

Engin ummæli: