miðvikudagur, júní 25, 2008

Þrír ungir menn með sverð, einn í súpermannbúningi*

Næst þegar samstarfsmenn mínir af loðnara kyninu missa sig á kaffistofunni yfir fótboltanum, verða rauðir í framan og blása sig út (ógurlega), ætla ég að segja: obbobbobb, við skulum nú ekki vera með nein tilfinningarök hér!

Fótboltaleikir eru gjarnan býsna tilfinningaþrungnir atburðir og sjaldan hef ég séð karlmenn æsa sig (já, æsingur er tilfinning) jafn mikið og yfir þessu sparkveseni.

Svo fær fólk framan í sig, með kaldri fyrirlitningu, ef það hækkar róminn örlítið, tja, t.d. yfir náttúruvernd, að það þýði nú ekkert að koma með svona "tilfinningarök".

Náttúran og það hvernig heimi við skilum í hendur barna okkar er vitaskuld smámunir miðað við leik þar sem sveittir menn hlaupa á eftir leðurtuðru. Blasir við.

Auðvitað er ekkert hægt að bera þetta saman með nokkurri sanngirni. Og fólk má alveg æsa sig yfir boltanum, finnst það í góðu lagi á meðan það meiðir ekki hvert annað eða myrðir yfir honum. Það sem ég er að segja er að tilfinningarök eiga fullan rétt á sér og skilin þarna á milli eru langt í frá greinileg. Og af hverju ættum við að tala um það sem tengist tilfinningum sem eitthvað ómerkilegt og réttlægra en annað? Höfum við ekki öll tilfinningar? Er það eitthvað til að skammast sín fyrir? Og segið mér fávísri konunni, hver er andstæðan við tilfinningarök?
Á morgun ætla ég að:
  1. Fara í sturtu (hlakka til).
  2. Hvíla mig.
  3. Horfa á seinni hluta þáttaraðarinnar Pressa (ferlega skemmtileg hingað til).
  4. Leggja mig.
  5. Drekka kaffi.
  6. Fá mér kríu.
  7. Hugsa um heimsins rök (af tilfinningu fyrir skynsamlegri rökvísi).


*bönkuðu upp á áðan og vildu sjá "húsið mitt". Ég bauð þeim að ganga í bæinn og er nú margs vísari. Einn sagðist hafa eignast "typpanærbuxur" í útlöndum nýverið. Kannast lesendur við slíkar brækur?

Engin ummæli: