þriðjudagur, júní 24, 2008

Ekkert mál

Fyrir mörgum árum fór ég í fjallgöngu, það var fyrsta fjallganga mín á ævinni og ég með þol á við sílspikaðan kontórista sem reykir 3 pakka á dag. Ég varð móð af því að kveikja á útvarpinu, ef ég þurfti að leita að stöð. Stóri bróðir sagði mér að koma að labba með sér á Esjuna, það væri "ekkert mál". Að ég skyldi komast upp á topp þennan dag, má eingöngu þakka þverhandarþykkri þrjósku minni. Að Gunnar bróðir skuli enn vera á lífi eftir að hafa logið því að mér að þetta væri "ekkert mál", má þakka djúpstæðri andstyggð minni á ofbeldi (og líka því að hann er vænsti piltur).

Í gær fór ég í aðgerð sem allnokkrir voru búnir að segja mér að væri "ekkert mál". "Iss, gallblaðran, annar hver maður búinn að láta rífa þetta úr sér, pfft, þú kemur dansandi út úr aðgerðastofunni". Einmitt. Gærdagurinn fór í, látum okkur sjá, aðgerðina sem ég man svo sem lítið eftir, og já, ég ÆLDI allan daginn. Dökkgrænu galli í lítravís. Svo var ég ekki með neinn blóðþrýsting sem heitið getur og gat vart lyft höfði frá kodda. Þar að auki er ég öll helaum og götótt með sauma hér og þar og bjánalega verki sem eru eins og ósýnileg, fáránlega þröng stálaxlabönd. Mér var boðið morfín trekk í trekk á spítalanum, en hætti að þiggja það þegar ein hjúkkan glopraði því út úr sér að það gæti aukið ógleði. Skil ekkert í þessu bara (kannski verið að vinna á morfínfjallinu í heilbrigðiskerfinu).

Efast stundum um fílósófíuna sem býr á bak við "ekkert mál". Ég fór í aðgerðina með þær væntingar að verða dagsjúklingur, sem sagt fara heim að kvöldi aðgerðardags, hélt ég væri svo hraust og spræk. Þurfti svo að vera á spítalanum lengur. Það er allt í fína lagi en væntingastýringin var skökk. Og mér er sannarlega engin vorkunn, er mun hressari í dag en í gær og komin heim í bólið mitt yndislega. Iss, þetta var ekkert mál.

Nú er þusi dagsins lokið af minni hálfu. Í næstu færslu langar mig að sýna ykkur voðalegar myndir úr helgarferðalaginu, en vil vara viðkvæma við þeim. Við erum að tala um múmíur og dauð lömb.

Engin ummæli: