miðvikudagur, apríl 04, 2007

Selvklebende konvolutter með vindu*

Eins og mér finnst nú gaman að fara inn í Europris og þaðan út með fulla körfu af óþarfa þá sárnar mér þegar óþarfinn reynist gagnslaus. Lenti í þessu um daginn, vantaði umslög og keypti hótelpakkningu af GLUGGAUMSLÖGUM. Fyrir vangá. Hvað gerir venjuleg kona eins og ég við gluggaumslög?

Tillögur óskast. Dettur ekkert í hug nema kannski....

a. stofna innheimtuþjónustu
b. senda mömmu reikning fyrir að hafa borðað appelsínubörk með mig í móðurkviði, gömlum kærasta reikning fyrir að hlaupa á eftir brennivínsflösku í staðinn fyrir að grípa mig, systur minni fyrir að hafa verið sætari en ég, stóra bróður fyrir að stríða mér, IKEA fyrir að hafa flutt út í rassgat, Framsóknarflokknum fyrir að vera eins og hann er.....
c. búa til skúlptúr úr gluggaumslögunum, gæti kallast "þetta listaverk er án endurgjalds"
d. setja myndir af exótískum stöðum bak við hvern glugga og veggfóðra herbergið mitt með umslögunum...hlýtur að vera næsti bær við að ferðast að geta séð hvítar strandlengjur eða þykkan regnskóg út um gluggann.


*þetta þýðir "gluggaumslög" á útlensku

Engin ummæli: