miðvikudagur, apríl 25, 2007

Nýjustu fréttir frá Nottingham

  • Tölva baunar tók frekjukast í Leifsstöð, það birtist óskiljanlegt bull á skjánum og svo var eins og hún ætlaði að ræsast eðlilega og svo kom aftur bullið (stafir og tölustafir á bláum grunni) og svona gekk þetta á víxl þar til ég lokaði tölvunni og bældi vondar tilfinningar með kvíðahnút í maga. Illt að vera tölvulaus á ráðstefnu í úglöndum og eiga eftir að vinna í erindi sem flytja á fyrir alls kyns fræðingaspírur.
  • Næst þegar ég reyndi að kveikja á tölvunni kom ekkert. Núll. Nada. Svart.
  • Á Heathrow keypti ég aðlagara (adaptor - hvað í fj. kallast slíkur gripur?) að bresku rafurmagni.
  • Leigari, langferðabifreið, flugvél, langferðabifreið, leigari - ferðalagið til Nottingham tók 14 tíma með töfum, bið og þrammi.
  • Hótelið er ljómandi fínt, það gladdi baun sérstaklega að brett var í oddalag upp á klósettpappírinn til að hlífa gestum við örvæntingarfullri leit að byrjun rúllunnar.
  • Aðlagarinn kom, sá og sigraði. Um leið og tölvan komst í breska sambandið læknaðist hún eins og fyrir kraftaverk.
  • Ég er netfíkill. Borgaði 15 pund fyrir að hafa netsamband í sólarhring, en það er reyndar afar hentugt að geta hangið í tölvunni uppi á hótelherbergi.
  • Hrói biður að heilsa. Ég er algjörlega sammála Siggu kviku um að karlmannsleggir séu vanmetnir, ef ekki bara vannýtt auðlind.
  • Clint er í sjónvarpinu mínu. Ætla að horfa á hann sottla stund og ímynda mér hann í grænum sokkabuxum, hei, á morgun ætla ég að ímynda mér þannig alla karlmenn sem ég hitti. Í grænum sokkabuxum.

Engin ummæli: