Er alvöruþrungin yfir þegnskyldu minni þessa dagana og horfi því á stjórnmálamenn sitja fyrir svörum. Hef þjáðst með þeim í þessum óþægilegu stólum - það fer fáum vel að sitja berskjaldaðir fyrir miskunnarlausum sjónvarpskamerum í beinni útsendingu. Af hverju fá menn ekki borð, púlt eða nautgrip til að skýla sér bakvið? Þetta er hreint grimmdarlegt, maður fer að spá í hvað sumir eru lappalangir, aðrir búkstuttir (stundum sama fólkið), aðrir svo kubbslegir, með lítinn haus, þóttalegt (eða flóttalegt) yfirbragð, bjánalega kippi í kroppnum og einn og einn virðist hreint eins og óvelkominn gestur í sínu úthlutaða hylki.
Ég reyni að hlusta á hvað þeir eru að segja blessaðir stjórnmálamennirnir. Alveg satt. Og mun taka afstöðu á málefnalegum grunni, óháð kyni, aldri, nefstærð, þjóðerni maka, háralit, trúarskoðun, tannstatus, útliti og holdafari leiðtoga og leiðtogaefna þjóðarinnar.
Geng óbundin til kosninga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli