Gamalt hús
Í arni brunnu orð til kaldra kola
og rigningin dansaði útaf þekjunni
Nú sitjum við hjá glugganum og horfum útí kófið
en vonumst ekki framar eftir gesti
Jafnvel vindar sneiða hjá dyrunum
En einstöku sinnum og óvænt
smýgur sársaukinn milli rifjanna
einstöku sinnum verður okkur litið
á kóngulærnar leggja vefi sína
yfir fölleit andlit fyrri stunda
Ari Jósefsson. 1961. Nei. Reykjavík, Helgafell.
Mæli með ljóðabókinni Nei. Þetta er einn af dýrgripunum í ljóðasafninu mínu, enda á ég frumútgáfuna. Ari lést liðlega tvítugur að aldri og er því einn af þeim sem fólk minnist ævinlega sem ungra og efnilegra. Eins og James Dean og Kennedy sem dóu "með allt lífið framundan". Við sem skrimtum eitthvað framyfir fertugt eigum víst ekki kost á að vera efnileg um aldur og ævi.
Og þó. Ég stefni hraðbyri að því að verða efnilegt gamalmenni. Enda samt kannski bara sem ellilegt gamalmenni.
*úr ljóðinu Orðsending eftir Ara Jósefsson.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli