sunnudagur, mars 18, 2007

Vínrauði boltinn hittir í mark

Í gærkvöld komu til mín afskaplega góðir gestir. Ég er kona sem tekur áskorun af festu og einurð og var því ekki í vafa um meðsmakkara í vínkeðjunni. Hér þurfti að kalla til fagmenn; hjúkrunarfræðing, lyfjafræðing og Einar T., bókmenntaspekúlant og grunnskólanema úr Garðabæ. Allt toppfólk með rómaða, víðförla og gróskumikla bragðlauka.

Húsfreyjubaun var með (kon)fjúsjón þema í matargerð þetta kvöld. Forrétturinn var japanskur, heimagert sushi með ferskum túnfiski á grænu laufi. Með þessu var borið fram vatn og eingöngu töluð japanska.

Aðalrétturinn var ítalskur, osso bucco með risotto og gremolata, uppskrift sem ég fékk hjá gormunum Jóni Lárusi og Hildigunni. Svo kom vínið, já, þetta vín sem heitir nafni sem minnir alla sanna antisportista óþægilega mikið á knattspyrnu. The Footbolt. Og hér á eftir fara athugasemdir gesta minna, fyrst um ilm vínsins og lit:

"Vínber, nei sólber, kannski plómur." "Mjög dökkt." Einar T. (7 ára) stakk nefi sínu ofan í glas og kvað upp þennan úrskurð "þetta minnir mig á epli".
Síðan var hafist tungu við að smakka, þ.e. allir nema ET sem kaus að láta staðar numið í vínsmökkuninni á þessu stigi og einhenti sér í matinn sem honum fannst afar ljúffengur (eins og glögglega má sjá á myndinni).

Tunga lyfjafræðingsins sagði "sterkt, finn alkóhólið", "þungt". Áleit vínið geta passað með ítölskum sveitamat eða kengúrukjöti. Tunga hjúkrunarfræðingsins sagði "finn enga eik" og taldi vínið geta átt þokkalega samleið með ostum. Enn fremur sagði hún, "mjög spennandi vín, ekki súrt en hefur sting". Svo komu athugasemdir um að vínið minnti svolítið á púrtvín, svona sterkt og dökkt.

Vínið batnaði með hverju glasi (og vafalaust hverri flösku). Þegar lyfjafræðingurinn var farinn að tauta um aldehýð og ketóna ákvað ég að gefa honum gott sterkt kaffi.

Í eftirmat voru bökuð epli með marsípani, núggat og hlynsírópi, borið fram með vanilluís. Og meira rauðvín...

Kvöldið flaug hjá eins og vængjaður flókaskór.

Ég skora á G.Pétur fréttamann og formúlutröll að taka við fótbolta(ka)leiknum.

Engin ummæli: