Á leiðinni í vinnuna á föstudaginn kom ég við í ESSO. Fyllti tankinn og fór í röð. Þegar kom að því að borga rótaði ég í töskunni eftir veskinu og ágerðist örvænting mín þegar það fannst ekki. Hvolfdi loks úr töskunni á borðið, afgreiðslukonunni og öllum fyrir aftan mig í biðröðinni til ómældrar gleði. "Ég er víst ekki með veskið", sagði ég vesældarlega. Við þetta upphófst nokkurt þóf, en í stuttu máli þá var ég tekin gísl þarna á staðnum, látin bíða við kassann. Eftir björgun.
Forsaga málsins er nauðsynleg til að ná baunarlegu samhengi alheimsins.
Hafði verið í mikilli tímaþröng daginn áður og þurfti að gefa á garðann, allt of sein og miðbarnið að fara á skákæfingu og því enginn tími til að elda. Brá á það ráð að koma við á ónefndum kjúklingabitastað, köllum hann TFK (Trans Fitu Kjúkling). Fór í bílaröðina og hringdi heim. Kom þá í ljós að sá yngsti vildi alls ekki svona kjúkling (smekkmaður sem hann er), en þá var ég pikkföst í þessari röð sem enginn kemst úr nema fuglinn fljúgandi (eða maður verði fyrir þeirri hundaheppni að vera numinn á brott af geimverum). Röðin gekk svo hægt að dauður kjúklingur hefði getað prjónað þrjár lopapeysur á meðan ég beið. Þegar loksins kom að mér að ná í "matinn", er lúguskömmin svo langt fyrir ofan bílinn að illmögulegt er að teygja sig upp nema maður geti tjakkað út á sér vinstri handlegg um 3 metra. Þar sem ég er svo óheppin að vera ekki með akkúrat þann fæðingargalla missti ég pokann í götuna, sópaði í flýti öllu draslinu upp og greip um leið veskið mitt og tróð ofaní plastskjóðuótætið (í staðinn fyrir að setja veskið í TÖSKUNA).
Maturinn sem kostaði mánaðarlaun verkamanns var....æ, hvað skal segja. Ætla að deila með ykkur uppskrift:
TFK salat
1 frottesokkur, hvítur
1 tsk edik
1 gulrót
3 msk majones
1 borðtuska
1 dl nýmjólk
Látið 15 ára pilt fara á tvöfalda knattspyrnuæfingu í sokknum, setjið sokkinn í plastpoka með gulrótinni. Lokið vel. Snýtið ykkur hressilega í borðtuskuna, hellið mjólkinni yfir og setjið í plastpoka. Lokið vel. Geymið pokana á volgum stað í viku. Hellið því næst sokknum, gulrótinni og tuskunni í matvinnsluvél, hakkið gróft. Bætið við majónesi (sem komið er vel fram yfir síðasta söludag), einnig ediki og dassi af því sem þið finnið í niðurfallinu í eldhúsvaskinum. Berið fram með æluskál.
Þetta er forsaga málsins með hliðaruppskrift. En ég stóð sumsé gísltekin á bensínstöð, með fullan tank af óborguðu bensíni. Veskið mitt var a) heima í eldhúsi, b) í öskutunnunni, c) í öskubílnum (tunnurnar eru tæmdar á föstudögum og ég hafði gripið ruslið -í TFK poka - með mér á leiðinni út).
Hvernig fór? Jú, fyrir þetta eina símtal sem ég fékk hringdi ég í góðan vin sem beilaði mig út af bensínstöðinni (blessaður sé hann og allt hans kyn). Veskið fannst síðan heima í eldhúsglugga.
Aldrei kaupi ég aftur TFK.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli